„Við erum örmagna, þetta er mjög erfitt. Við vitum ekki hvað við eigum að gera,” segir Yasameen Hussein við Heimildina. Hún, systir hennar, tveir bræður og móðir eru slegin yfir þeim tíðindum að hér á landi megi þau ekki lengur dvelja. Þeim eigi að vísa af landi brott samkvæmt niðurstöðu kærunefndar útlendingamála. „Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa því hvernig mér líður, hvernig ég á að lýsa sársaukanum og vonbrigðunum sem ég er að upplifa,“ heldur Yasameen áfram. „Allt er svo ótrúlega erfitt. Við erum að reyna að lifa hér eðlilegu lífi, lífi þar sem er von. Ég vissi ekki að lífið gæti verið svona erfitt. Við eigum okkur drauma og vonir sem við ætluðum okkur að fylgja. En allt hefur gufað upp.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fjölskyldan, sem er á flótta frá Írak, fær slíkar fréttir á Íslandi. Fyrir rétt tæpu ári fengu þau sömu skilaboð frá stjórnvöldum og brottflutningur þeirra, sem var í lögreglufylgd, vakti gríðarlega athygli og reiði. Annar bróðir Yasameen, Hussein, er með fötlun og notar hjólastól. Meðferðin á honum er fjölskyldan var flutt út á flugvöll og upp í flugvél til Grikklands, var harðlega gagnrýnd. Að fjölskyldan fengi að taka lítið sem ekkert af eigum sínum með var það sömuleiðis. Að hún hafi ekki átt í nein hús að venda við komuna til Grikklands var það einnig.
„Hann hefur það ekki gott, hann hefur lést og er þreyttur,“ segir Yasameen um líðan Husseins bróður síns.
Systurnar eru báðar í námi í Fjölbraut við Ármúla og Sajjad bróðir þeirra vinnur hjá Þroskahjálp. Þannig var líf þeirra að komast í fastar skorður eftir flótta og áfallið sem fylgdi brottvísuninni í fyrra.
Fjölskyldan kom fyrst til Íslands í leit að vernd fyrir um þremur árum. En þar sem þau höfðu áður fengið vernd í Grikklandi ákváðu íslensk stjórnvöld að synja þeim um vernd hér og vísa af landi brott. Í byrjun nóvember beið lögreglan eftir systrunum er þær komu heim úr skólanum. Og síðan hófst atburðarás sem fjölskyldan hefur lýst sem hræðilegri. Þau sögðu lögreglumenn hafa tekið á Hussein og Sajjad þá komið honum til varnar en verið sleginn. „Þeim var ýtt og hent niður,“ lýsti Yasameen því sem átti sér stað fyrir ári. Þetta var umfangsmikil lögregluaðgerð og komið fram við fjölskylduna eins og glæpamenn að sögn Yasameen. Hún hafi m.a. verið sett í fjötra um borð í flugvélinni.
Fjölskyldan kom hins vegar aftur til Íslands eftir að fjölskyldan kærði brottvísunina til Héraðsdóms Reykjavíkur sem felldi hana úr gildi. Þá hafði kærunefnd útlendingamála gert Útlendingastofnun að taka umsókn um vernd aftur til meðferðar.
Ríkið áfrýjaði niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar sem hefur enn ekki kveðið upp sinn dóm. Hins vegar hefur kærunefndin komist að þeirri niðurstöðu, líkt og fyrr greinir, að fjölskyldan skuli yfirgefa landið – enn einu sinni.
Nú gæti því svo farið að sagan frá því í fyrra endurtaki sig. Ríkisútvarpið hefur eftir lögmanni fjölskyldunnar að þau hafi aðeins fengið viku til að yfirgefa landið sjálfviljug. Geri þau það ekki má búast við að þau verði þvinguð til brottfarar rétt eins og fyrir tæpu ári síðan.
„Þau reiknuðu með að þetta gengi núna,” segir íslenskur vinur þeirra sem Heimildin ræddi við í dag. „Þau höfðu loksins séð fyrir sér framtíð og sú staða sem nú er komin upp er eins hræðileg og frekast getur orðið.”
Athugasemdir (6)