Árið er 1374. Dularfull plága breiðist milli bæja Rínardalsins. Á götum úti engist fólk um í stjórnlausum dansi. Það hvílist ekki og borðar ekki. Slys verða á fólki. Dansplágan breiðist um Evrópu uns hún fjarar út nokkrum mánuðum síðar.
Fyrr á öldum rann óútskýrt dansæði reglulega á samfélög á meginlandi Evrópu. Í fyrstu var djöflinum kennt um. Síðar spruttu upp kenningar um að sveppur hefði komist í hveiti og valdið ofskynjunum. Sagn- og sálfræðingar eru nú á einu máli um að dansæðið sé dæmi um það sem kallað er „hópsýking af sálrænum toga“, en er í daglegu tali nefnt múgæsing.
Slíkar hópsýkingar einskorðast þó ekki við fyrri aldir.
Rotþró mannlegs samfélags
Árið er 2023. Rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson skrifar grein í Morgunblaðið sem ber heitið „Árið er 2025“. Hann stígur darraðardans og sakar foreldra um að „hafa ekki lengur tíma til að vera foreldrar“ því þeir vilji sinna áhugamálum. Þorgrímur ann sér ekki hvíldar og fullyrðir í útvarpsþætti að „langflestir foreldrar viti að þeir eru ekki að standa sig nógu vel“.
Ekki líður á löngu uns æðið tekur að breiðast út. „Vandinn í dag er sá, að konur/mæður á Íslandi, eru hættar að vera inni á heimilinu og ala upp börnin sín,“ sagði í athugasemd um málið á Vísi. „Foreldrar nenna ekki slagnum um símanotkunina,“ sagði annar. „Málið er að foreldrar eru ekkert skárri varðandi símanotkunina ... Það skyldi þó ekki vera að fólk brenni ekki út í vinnunni heldur miklu frekar vegna alls sem það tekur sér fyrir hendur utan vinnu.“
Ekki er langt síðan foreldrar landsins voru útmálaðir yfirþyrmandi þyrluforeldrar sem grættu fótboltadómara af hliðarlínunni á boltamótum þar sem litla Gunna og litli Jón kepptu að því að fá íþróttastyrk til náms í bandarískum háskóla eftir áratug. En nú eru þeir sakaðir um sögulegt sinnuleysi.
Af málflutningi danssveitar Þorgríms mætti ráða að við hefðum öll varið æskunni í mildum bjarma langelds baðstofunnar þar sem foreldrar kenndu börnum að kveða, sunginn var keðjusöngur og íslensk málfræði var krufin til mergjar.
Ég veit ekki með Þorgrím, en það sem kemst næst slíkum náðarstundum á æskuárum fólks af minni kynslóð er þegar fjölskyldan kom saman og spilaði Yatzi þegar varð rafmagnslaust og þegar Hemmi Gunn var í sjónvarpinu.
Ekki er ljóst hvaðan Þorgrímur og dansarar hans hafa hugmyndir sínar um að foreldrar séu uppteknir við eitthvað allt annað en að ala upp börn sín. En gæti verið að þær eigi sér upptök í því sem þau hin sömu telja rotþró mannlegs samfélags, símunum þeirra?
Sjálfsræktar svall-partí
„Ég dvel í möguleikanum,“ orti skáldkonan Emily Dickinson.
Flest teljum við okkur dvelja í möguleikanum. Sá dagur rennur hins vegar upp í lífi hverrar miðaldra manneskju að hún kemst að því að hún situr föst í hjólfari. Á meðan við vorum upptekin við að greiða tíu prósenta vexti af húsnæðisláninu, punga út fyrir fótboltanámskeiðum og fimleikabolum á verðlagi sem samsvarar kílóverði á gulli, fela maukað spínat í pastasósunni og slást við þvottafjallið sem endurnýjaði sig jafnógnvænlega hratt og útlimirnir á vélmenninu í Terminator 2 rann draumur okkar um að verða söngvari í þungarokkshljómsveit eða millistjórnandi með mannaforráð út í sandinn.
„Hei, sjáið mig, ég mun ekki eignast einbýlishús fullt af Iittala skálum úr þessu – en ég var að ljúka jógakennaranámi og er að fara að ganga Grænahrygg um helgina.“
En uppgjöf er óaðlaðandi. Á samfélagsmiðlum blasa því við tilraunir miðaldra foreldra til að breiða yfir endalok drauma sinna. „Hei, sjáið mig, ég ætlaði að verða næsti Axl Rose en er nú tveggja barna faðir í ábreiðubandi sem ber þunnt axlarsítt hárið eins og dreggjar æsku minnar – en ég var að hlaupa maraþon á þrem tímum og tuttugu mínútum.“ „Hei, sjáið mig, ég mun ekki eignast einbýlishús fullt af Iittala skálum úr þessu – en ég var að ljúka jógakennaranámi og er að fara að ganga Grænahrygg um helgina.“
Danssveit Þorgríms Þráinssonar segir símanotkun barna valda því að þau hafi „misst öll mörk milli raunheima og gerviheima samfélagsmiðlanna“. Hið sama virðist hafa komið fyrir dansarana. Þau fylgjast með miðaldra fólki á Facebook berjast við að halda í snefil af reisn við upphaf veraldlegrar hnignunar sinnar og draga þá ályktun að í raunheimum eigi sér stað eitt heljarinnar sjálfsræktar svall-partí sem marki endalok vestrænnar siðmenningar.
Dansæðið, galdrafárið, hundurinn Lúkas. Æðið mun renna sitt skeið. Sagan sýnir þó að trylltur dans múgsins er sjaldnast skaðlaus.
Athugasemdir (6)