Loksins er jólabókaflóðið byrjað. Nú getum við byrjað að rífast á öllum kaffistofum og bjórknæpum og í fjölskylduboðum um það hvað sé besta bókin í ár, hver sé besti höfundurinn, hver hélt besta útgáfupartíið og svo framvegis.
Nokkrir höfundar eru nú þegar búnir að halda sín partí, eins og Sverrir Norland. Hann var að gefa út skáldsöguna Kletturinn og hélt sitt boð á Loft hostel. Þar var rosa stuð og hann tók lagið og allt. Þakið ætlaði svo að rifna af húsinu þegar Alma dóttir hans tróð upp með lagið „Til hvers er lífið“. Alls konar rithöfundar mættu og fögnuðu með Sverri. Til dæmis Pedro Gunnlaugur Garcia, Jakub Stachowiak og Ragnar Jónasson. Ég kjaftaði aðeins við þann síðastnefnda um Iceland Noir hátíðina sem verður í næsta mánuði. Þar verður alls konar í gangi. Meðal annars lokaball þar sem Irvine Welsh, sem skrifaði Trainspotting, ætlar að DJ-a. Ég ætla að mæta. Það er svo gott að dansa með rithöfundum og bókaormum, þar eru allir jafn lélegir dansarar, og í lagi að vera sjálf laus við allan þokka og fágun.
Þórarinn Eldjárn er líka búinn að halda útgáfuboð, sem var haldið úti í garði á menningarnótt. Þangað mættu fullt af stjörnum og synir hans og barnabörn spiluðu svaka góða tónlist á milli þess sem Þórarinn las upp ljóð úr bókinni Hlustum frekar lágt.
Á leiðinni úr partíinu hittum við systir mín foreldra okkar sem voru græn af öfund út í Þórarin og Unni fyrir að eiga svona skemmtileg börn. Skiljanlega. Mamma og pabbi myndu ekkert græða á því að láta okkur troða upp í boði hjá sér. Nema það yrði drykkjukeppni. Þá gætum við systurnar mætt sterkar til leiks.
En mér finnst jólabókaflóðið ekki vera byrjað fyrr en Bókatíðindi koma út. Þá er hægt að leggjast yfir þetta og setja saman óskalistann yfir hvað væri gaman að fá í jólapakkana og hvað væri sniðugt að gefa öðrum.
Ég byrja alltaf á að skoða hvað Iðnú er að kynna. Þau gefa aðallega út bækur um alls konar tækni- og iðnfræði og oft einhver mjög afmörkuð atriði hverju sinni. Svona bækur sem ég hefði aldrei getað ímyndað mér að væru til. Ég bíð spennt eftir að þau gefi út eitthvað eins og „Undraheimur knastássins“ eða „Þéttilokan fyrr og nú“.
Það er svo gott að dansa með rithöfundum og bókaormum, þar eru allir jafn lélegir dansarar, og í lagi að vera sjálf laus við allan þokka og fágun.
Iðnú bregst mér ekki í ár. Það er að koma út bók sem er hvorki meira né minna en 525 blaðsíður, bara um mold. Það finnst mér alveg æðislegt. Þar er meðal annars fjallað um eitthvað sem heitir „samdaunasýki“. Ég hef ekki hugmynd um hvað það er en ég hlakka til að komast að því.
Ég er strax búin að setja nokkrar þýddar bækur á listann minn. Sumir þýðendur eru þannig að ég þarf eiginlega ekkert að vita um bókina sem þau þýddu, ég veit bara að allt sem frá þeim kemur er æði. Þess vegna get ég ekki beðið eftir bókinni Bernska eftir Tove Ditlevsen sem Þórdís Gísladóttir var að þýða.
Ég vona að ég fái líka eintak af Gráum býflugum eftir Andrej Kúrkov. Áslaug Agnarsdóttir er þannig þýðandi að ef ég myndi frétta af því að hún hefði þýtt hrærivélabækling myndi ég þjóta út í búð og kaupa mér þannig græju.
Það eru líka verið að endurútgefa klassískar þýðingar eins og Réttarhöldin eftir Kafka í þýðingu Ástráðs Eysteinssonar og Eysteins Þorvaldssonar. Það sem er best við nýjustu útgáfuna er að hún er í kiljuútgáfu en ekki innbundin. Kiljur fara miklu betur í vasa. Fullkomin gjöf fyrir litlar frænkur, frændur eða fræn sem sýna merki um að þau séu bókanördar. Þau eiga eftir að elska að ganga um með þessa í vasanum.
En það eru auðvitað ekki allar bækur í Bókatíðindum. Skattvís, sem hefur gefið út vinsælar bækur á borð við Skattur á menn og Útgáfa jöfnunarhlutabréfa er með nýja neglu fyrir þessi jól, bókina Stjórnsýsla skattamála. Örugglega til fullt af fólki sem væri til í að skríða upp í með hana á aðfangadagskvöld.
Þetta verða góð bókajól í ár.
Athugasemdir