Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, segir það merki um hversu sterkur stjórnmálamaður Bjarni Benediktsson sé að hann hafi ákveðið að segja af sér ráðherraembætti í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis vegna sölu Íslandsbanka.
Álitið var birt almenningi í morgun og skömmu síðar boðaði Bjarni til blaðamannafundar þar sem hann tilkynnti ákvörðun sína, en fimm dagar eru síðan hann fékk álitið í sínar hendur.
Ber ábyrgð inn í stjórnarsamstarfið
Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Bjarni hafi verið vanhæfur til að að selja félagi í eigu föður síns, Benedikts Sveinssonar, hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði sem fram fór í mars í fyrra.
„Já, það finnst mér“
Þórdís segir allt óvíst um framhaldið en segir þó að Bjarna sé sannarlega stætt áfram sem formaður flokksins: „Já, það finnst mér.“
Ein af þeim hugmyndum sem hafa verið í umræðunni er að Þórdís taki við ráðuneyti Bjarna, fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Værir þú tilbúin til þess?
„Ég er sem varaformaður flokksins í ábyrgðarstöðu og ber sem slík ríka ábyrgð á inn í stjórnarsamstarfið. Mér finnst skipta máli að við náum aðeins áttum og eigum þau samtöl sem þarf að eiga en ég hef hingað til aldrei skorast undan ábyrgð og er ekki að fara að byrja á því núna,“ segir hún.
Spurningar vakni við lesturinn
Bjarni ítrekaði á blaðamannafundinum að hann væri ósammála þeim forsendum sem lagðar væru til grundvallar í áliti umboðsmanns. Það breytti þó ekki þeirri pólitísku sýn hans að virða ætti álit sem þetta
Hvert er þitt mat á áliti umboðsmanns Alþingis?
„Það vakna spurningar við lesturinn á því. En þú áfrýjar ekki áliti umboðsmanns Alþingis, og álit umboðsmanns stendur. Þetta er mikilvægt embætti og þetta er niðurstaðan. Að því leytinu til þá eru þar atriði sem ég lít svo á að verði innlegg inn í þá vinnu sem er auðvitað fyrir löngu þegar hafin um ákveðna endurskoðun á þessu fyrirkomulagi,“ segir Þórdís.
Þetta hljómar eins og þú sért ekki alveg sammála álitinu?
„Bjarni reifaði á blaðamannafundinum ákveðin atriði og ég er ekki ósammála þeim atriðum sem hann þar reifaði. En aftur, þá stendur þetta álit og í því eru atriði sem eru mikilvæg að geta þá litið til og tekið mið af í þeirri vinnu sem er í gangi varðandi endurskoðun á þessu regluverki og umhverfi,“ segir hún.
Þórdís benti á að nú myndu formenn stjórnarflokkanna ræða saman og ráða sínum ráðum.
Athugasemdir