Fjölmargir hafa stigið fram í dag og hrósað Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins í hástert, fyrir afsögn sem hann tilkynnti í morgun. Þingmaður Pírata telur ekki þörf á að hrósa Bjarna um of.
Bjarni sagði af sér í morgun í kjölfar birtingar álits Umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að Bjarni hafi verið vanhæfur til að að selja félagi í eigu föður síns, Benedikts Sveinssonar, hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði sem fram fór í mars í fyrra.
Björn Leví Gunnsegir að afsögnin hafi komið honum „pínu“ á óvart en að álit Umboðsmanns hafi „tvímælalaust“ verið efni til afsagnar.
„Í öllum eðlilegum kringumstæðum í lýðræðisríkjum er þetta tvímælalaust tilefni til afsagnar. Það hefur ekki alveg verið svona venjan hérna á Íslandi,“ segir Björn Leví. „Þetta var ánægjuleg tilbreyting en kannski ekki eitthvað sem við ættum að hrósa um of því að þetta ætti að vera eðlileg ákvörðun.“
„Þessi niðurstaða hefði átt að vera komin“
Bjarni sagði á blaðamannafundi í morgun að álit Umboðsmanns Alþingis hafi komið honum á óvart. Björn Leví aftur á móti segir að niðurstaða umboðsmannsins hafi ekki komið honum á óvart.
„Það voru allir í ríkisstjórninni, stjórnarþingmenn sem fóru í ákveðinn varnarkór og gagnrýndu þær kröfur okkar að við vildum rannsóknarskýrslu til dæmis frá rannsóknarnefnd, sögðu að það væri byggt á einhverjum sandi,“ segir Björn Leví. „Það eru orð sem þau þurfa að íhuga núna og taka ákveðna ábyrgð á.“
Nú er fjármálaráðherra búinn að segja af sér, ætti [Íslandsbankamálinu] þá ekki bara að vera lokið, er þetta ekki bara komið gott?
„Þetta er fyrsta skrefið. Það er orðið það langt síðan að þessi niðurstaða hefði átt að vera komin,“ segir Björn Leví.
Viðtalið við hann í heild má nálgast í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir