Magnús Geir Eyjólfsson, fréttamaður hjá fréttastofu RÚV, byrjaði í blaðamennsku fyrir 19 árum síðan, áður en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tók fyrst sæti í ríkisstjórn. Hann var staddur í fundarherbergi í húsnæði fjármálaráðuneytisins í Lindargötu þegar Bjarni tilkynnti um afsögn sína.
Magnús, rétt eins og aðrir fréttamenn í herberginu, lyfti brúnum þegar hin óvæntu orð voru mælt: „Ég hef ákveðið að láta af störfum sem fjármála- og efnahagsráðherra.“
Afsögnin var viðbragð Bjarna við áliti Umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðustöðu að Bjarni hafi verið vanhæfur til að að selja félagi í eigu föður síns, Benedikts Sveinssonar, hlut í Íslandsbanka í lokuðu útboði sem fram fór í mars í fyrra.
„Ég er búinn að vera samferða Bjarna lengi vel, svo þetta var sérstakt,“ sagði Magnús eftir fundinn. „Það er merkilegt að sjá stjórnmálamenn yfir höfuð taka svona ábyrgð. Það er oft sem hafa komið úrskurðir frá hinum og þessum batteríum. Það hefur eiginlega aldrei haft afleiðingar.“
Við hverju bjóstu hér í dag? „Að hann hafi ætlað að svara fyrir álitið og ekkert meira en það,“ sagði Magnús.
Með honum var annar reynslubolti, Kristinn Þeyr Magnússon myndatökumaður sem hefur verið í tvo áratugi í bransanum. „Ég hef séð hann nokkrum sinnum áður,“ sagði Kristinn, sem er fastagestur – ásamt myndavélinni – við ráðherrabústaðinn þegar ríkisstjórnarfundir fara fram, léttur um fráfarandi fjármálaráðherra. „Ég er eiginlega alveg steinbit. Mér finnst þetta merkilegt.“
Bjarni ekki búinn að syngja sitt síðasta í pólitík
Þeir Magnús og Kristinn sögðust vera hissa á ákvörðun Bjarna, en áttu ekki von á að fjármálaráðherra væri að hætta í stjórnmálum. „Hann var ekkert að deyja,“ sagði Magnús. „Hann útilokar ekkert að hann taki annað ráðuneyti eða haldi áfram. Hann var svo sem búinn að gefa í skyn eftir síðustu kosningar að hann útilokaði ekki að taka annað ráðuneyti.“
Kristinn býst ekki heldur við því að dagurinn í dag sé sá síðasti sem Bjarni verður fyrir framan myndavélina. Bjarni hefur ekki enn gefið uppi hvort hann muni áfram sitja á þingi eða jafnvel taka annan ráðherrastól.
„Maður á eftir að sjá hann aftur örugglega,“ sagði Kristinn og Magnús tók undir það: „Ég myndi ekki setja pening á að hann sé að hverfa alveg.“
Athugasemdir