„Þetta er leiðindamál. Mjög erfitt mál. Ég er búin að búa hérna lengi og byggja þetta allt saman upp,“ segir Birna Sigmundsdóttir, íbúi á Dragavegi í Laugardal. Í meira en áratug hefur hún skreytt hús sitt og garð ríkulega af jólaskrauti sem hún hefur nostrað við. Nú hefur hún tekið ákvörðun um að setjast í helgan stein þar sem nágrannar hennar eru ekki hrifnir af jólaskrautinu.
Birna fékk nýja nágranna í desember í fyrra. Húsið og garðurinn voru þá fullskreytt en hún hefst handa við jólaskreytingar í nóvember, stundum fyrr. Hún neyddist hins vegar til að taka niður skrautið áður en aðfangadagur rann upp. „Þau flytja inn í desember og segja að þeim líki þetta ekki og þá var ekkert annað að gera en að taka þetta í burtu. Sem ég og gerði,“ segir Birna.
„Ég vil ekki standa í látum og rifrildum“
Í vikunni ákvað Birna að byrja smátt og skreyta garðinn með dýrum. Ekki leið á löngu þar til nágranninn var búinn að fjarlægja þau. „Ég var farin að setja dýrin mín út, fyrir börnin, og svo sé ég hann koma niður og hreinsa garðinn. Ég bara skildi þetta ekki. Hann fer með þetta hérna á bak við. Ég setti dótið aftur út en það leið ekki langur tími þar til búið var að hreinsa allt í burtu aftur.“ Lögreglan hefur fjórum sinnum verið kölluð út vegna þessara erja. „Mér finnst svo sárt að eyðileggja fyrir öllu þessu fólki sem er búið að koma ár eftir ár eftir ár að skoða, börnin og gamla fólkið. Nágrannarnir eru að skemma fyrir öllum. Mér finnst það sárast,“ segir Birna.
Hún hefur nú ákveðið að segja þetta gott. „Ég vil ekki standa í látum og rifrildum. Þetta er ekki í boði lengur. Ég er alltaf með eitthvert þema og hanna skraut fyrir hver jól. En ég á ekkert í dag. Ég lét þetta allt frá mér, það verður ekkert meira. Ég bæði gaf það og seldi. Þetta var skelfilegt og er skelfilegt.“
Birna segir ákvörðunina átakanlega og að hún muni sakna heimsókna frá leikskólabörnum sem glöddu hana með söng á myrkum desembermorgnum. „Þau sungu fyrir mig jólalög og svo fengu þau það sem ég kalla ömmunammi, ávexti eða brjóstsykur, eftir því hvort þau vildu. Það var svo gaman að búa til öll þessi ævintýri sem eru búin að gerast hérna. En þetta er búið, því miður.“
Frekjuhundar fá alltof oft að komast upp með yfirganginn á Íslandi.
T.d ef nágrannanum líkar ekki við sumarblóm í næsta garði, má þá slíta þau upp og henda bak við hús?