Eignarhaldsfélagið sem fjárfestirinn og fyrrverandi borgarfulltrúinn í Reykjavík, Eyþór Arnalds, stofnaði til að kaupa hlutabréf í Morgunblaðinu af Samherja árið 2017 tapaði rúmlega 24 milljónum króna í fyrra. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins, Ramses II ehf., sem skilað var til ársreikningaskrár Ríkisskattstjóra þann 29. september síðastliðinn. Félagið keypti hlutabréfin með rúmlega 370 milljóna króna láni frá dótturfélagi fjárfestingarfélagsins Kaldbaks, Kattarnefs ehf. Kaldbakur er í eigu Samherja. Þetta lán var loks afskrifað í fyrra.
Eini tilgangur Ramses II var að halda utan um Moggabréfin og eini tilgangur Kattarnefs var að halda utan um lánið til félags Eyþórs.
Ramses II ehf. er ennþá einn stærsti hluthafi Þórsmerkur, eignarhaldsfélags sem á nær allt hlutafé í Árvakri sem er útgáfufélag Morgunblaðsins. Félagið á 10,2 prósent í Þórsmörk ehf. en átti til að byrja með rúmlega 20 prósenta hluta. Hlutur félags Eyþórs í Morgunblaðinu hefur hins vegar þynnst út í gegnum árin þar sem hann hefur ekki tekið þátt í hlutafjáraukningum félagsins. Þetta bendir til þess að hann hafi ekki viljað setja eigin fjármuni inn í Morgunblaðið. Eina sem félag Eyþórs hefur gert er að taka við hlutabréfum, og þar með fjármögnun, Samherja í Morgunblaðinu
Ástæðan fyrir því að Ramses II ehf. skilaði bókfærðu tapi í fyrra er vegna þess að Þórsmörk ehf. tapaði 244 milljónum króna og stendur félag Eyþórs fyrir ríflega 10 prósent af því tapi.
„Ég vil ekki fara út í það í smáatriðum hvernig ég fjármagna þetta en Ramses er með góða eiginfjárstöðu og það stendur á bak við þessa fjárfestingu“
„Alvöru viðskipti“ sagði Eyþór
Eyþór hefur í gegnum árin alltaf reynt að halda því fram að viðskiptin með hlutabréfin í Samherja hafi verið eðlileg viðskipti á viðskiptalegum forsendum. Þegar Eyþór keypti hlutabréfin í Morgunblaðinu árið 2018 hafði hins vegar verið botnlaust tap á félaginu og ekkert benti til að þetta væri að fara að breytast. Samherji hafði þá átt Moggabréfin í tæpan áratug og ákvað að fara út úr fyrirtækinu, eins og félagið greindi frá í tilkynningu.
Í viðtali við Stundina, annan af fyrirrennurum Heimildarinnar árið 2018, sagði Eyþór aðspurður um viðskiptin að hann vildi ekki greina frá því hvernig hann fjármagnaði kaupin á hlutabréfunum: „Þetta eru alvöru, sjálfstæð viðskipti og verðið er trúnaðarmál. Samherji seldi þessi hlutabréf og ég er ekki skuldbundinn þeim með nokkrum hætti í kjölfarið. Ég er engum háður […]Ég er með alls konar fjárfestingar í gangi og reyni að fjármagna þær með eins skynsamlegum hætti og ég get. Ég er með þetta í sérstöku félagi til að dreifa áhættunni. Ég vil ekki fara út í það í smáatriðum hvernig ég fjármagna þetta en Ramses er með góða eiginfjárstöðu og það stendur á bak við þessa fjárfestingu.“
Þegar Eyþór sagði að Ramses væri með góða eiginfjárstöðu og „stæði á bak við viðskiptin“ var það ekki alveg rétt. Það var í raun Samherji sem stóð á bak við viðskiptin.
Kaldbakur hefur ekki afskrifað lán Kattarnefs
Það er talsverður munur á rekstrarniðurstöðu Ramses II ehf. árið 2022 en 2021 þegar félagið skilaði rúmlega 388 milljóna króna hagnaði. Ástæðan fyrir því var sú að lánið frá Kattarnefi, félagi Samherja, til Ramses II ehf., var afskrifað árið 2021. Þegar lán eru afskrifuð í bókhaldi eignarhaldsfélaga eru þau innfærð sem hagnaður þar sem fyrirtækið greiddi ekkert fyrir þau. Samtímis þá fer lánið úr bókum félagsins, skuldin þurrkast út.
Í ársreikningi Kattarnefs ehf. fyrir síðasta ár kemur fram að þó að félagið hafi afskrifað kröfuna á hendur félagi Eyþórs þá hefur Kaldbakur ekki enn afskrifað lánið til Kattarnefs. Í ársreikningnum kemur fram að félagið skuldi Kaldbaki enn tæplega 286 milljónir króna.
Sá hluti viðskiptanna, að Kaldbakur niðurfæri lánið til Kattarnefs er því eftir. Þegar þetta verður búið þá verður búið að afskrifa öll lán í viðskiptunum.
Flest rök hnigu að því að aðild yrði mjög hagstæð þorra þjóðarinnar.
Nú þyrfti að taka þetta aftur upp og skoða hvort eitthvað hafi breyst á þessum tæpa hálfa annan áratug. Við gætum auðveldað margt í okkar samfélagi t.d. hvað eigum við að gera við Seðlabanka sem væri vitaóþarfur með aðild að Evrópusambandinu. Seðlabankinn með um 300 starfsmenn eða um 1 prómill af skattgreiðendum landsins? Gæti góð menntun og reynsla ekki nýst betur í atvinnulífi landsmanna en að naga blýanta frá morgni til kvölds?