Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi aðgerðarleysi stjórnvalda í kjölfar þess að verðbólga heldur áfram að hækka.
„Frú forseti, ég ætlaði nú að halda ræðu um allt annað,“ sagði Jóhann Páll er hann hóf mál sitt. „En svo tók ég stuttan morgunlúr með dóttur minni og vaknaði upp við að það er átta prósent verðbólga í landinu. Hún er á uppleið, annan mánuðinn í röð.“ Er þingmaður var að ljúka setningu sinni heyrðist hlátur úr hliðarsal þingsins.
Jóhann Páll hélt áfram. „Átta prósenta verðbólga og Sjálfstæðisflokkurinn er í hláturskasti hérna í hliðarsölum.“ Hlátrasköllin urðu hærri. „Það er ekkert á dagskrá hérna nema einhver þingmannamál sem allir hérna inni vita að verða ekki að lögum. Kemur ekkert frá ríkisstjórninni, það er bara hlegið og trallað og það er bara dinglumdangl og dútl.“
„Mannréttindastofnun,“ heyrist þá kallað úr salnum.
„Mannréttindastofnun mun ekki laga verðbólguna,“ svaraði Jóhann Páll. „Hún er ágæt og hún hefði átt að koma fyrir löngu en, hvar eru aðgerðirnar? Og hvar er forystan? Á ekkert að sýna forystu hérna? Bara kynna nýja bók sína í útlöndum,“ sagði þingmaður og skaut þá á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem var erlendis að kynna skáldsögu sem hún skrifaði með Ragnari Jónassyni og ber heitið Reykjavík.
„Fólkið í landinu er að spyrja sig, hvar er ríkisstjórnin? Og hvar eru alvöru aðgerðir til að sporna gegn verðbólgu og verja fólkið í landinu gegn verðbólgu?“ Hann hélt áfram og sagði verðbólguvæntingar vera á uppleið.
„Kemur ekkert frá ríkisstjórninni, það er bara hlegið og trallað og það er bara dinglumdangl og dútl“
Bítið á Bylgjunni er þjóðin
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði gagnrýni Jóhanns Páls í pontu. Hún var gestur þáttarins Bítið á Bylgjunni í morgun til að ræða íslenskt regluverk er varðar innleiðingu EES-reglugerða sem þingmaður vill koma í veg fyrir að verði enn meira íþyngjandi en þær eru nú.
„Mér heyrist að á meðan að háttvirtur þingmaður Jóhann Páll Jóhannsson var að leggja sig, að þá hafi ég verið vöknuð eldsnemma til að ræða við Bítið,“ sagði Diljá Mist.
„Þar meðtók ég áskorun,“ hélt þingmaður áfram, „um að við stoppuðum ekki við það að rýna nýjar reglur, heldur réðumst hér í að vinda ofan af löggjöf þar sem hefur verið gengið of langt við innleiðingu. Bítið á Bylgjunni er fyrir mér miklu meira þjóðin eða fólkið heldur en margir stjórnmálamenn sem segjast mjög gjarnan tala fyrir þann hóp.“
Fleiri þingmenn lýstu yfir áhyggjum af efnahagsmálum. Elva Dögg Sigurðardóttir, þingmaður Viðreisnar, sagðist áður hafa rætt það í pontu að ungt fólk hefði áhyggjur af kostnaði búðarferða og vaxtahækkunum. „Við ræðum stundum um þetta eins og það sé óhjákvæmilegt við það að búa á Íslandi, að það að búa hér sé ávísun á háa vexti og svimandi hátt matarverð. En svo er ekki,“ sagði Elva Dögg.
Hún vísaði í hagkerfi Færeyinga þar sem húsnæðislán eru töluvert lægri en á Íslandi og hagvöxtur mikill. „Færeyingar eru með danska krónu og því danska vexti. Danir eru með sína krónu tengda við evru og því spyr ég: Af hverju erum við ekki að nýta okkur þessar leiðir? Af hverju eru ekki allir þingmenn að ræða þá staðreynd að nágrannar okkar geta boðið heimilum landsins upp á miklu lægri vexti?“
„Af hverju eru ekki allir þingmenn að ræða þá staðreynd að nágrannar okkar geta boðið heimilum landsins upp á miklu lægri vexti?“
Elva Dögg ítrekaði að Viðreisn vildi bregðast við núverandi efnahagsástandi á Íslandi með þjóðarkosningu um áframhaldandi samningaviðræður við Evrópusambandið. „Ef þjóðin segir svo já þá gætum við á endanum tekið upp evru og rússibanareið vaxta og verðbólgu væri þá ekki viðvarandi ástand hér.“
Athugasemdir