Ráðgáta skekur Þýskaland. Síðastliðna sex mánuði hefur óþekktur bílstjóri ítrekað ekið þjóðveg B184 milli þorpanna Königsborn og Heyrothsberge og kastað heimasmurðri samloku út um gluggann.
Samlokurnar eru pakkaðar inn í álpappír og innihalda ýmist spægipylsu, ost eða lifrarkæfu. Bílstjórinn er aðeins á ferðinni á virkum dögum fyrir klukkan sex á morgnana. Oft eru samlokurnar ósnertar en stundum hefur verið nartað í þær. Brauðið endar í görðum fólks eða á grasvelli fótboltafélags sem æfir við götuna.
„Ég skil ekki af hverju hann gerir þetta,“ sagði Holger Becker, formaður fótboltafélagsins, í samtali við dagblaðið The Times og kvað háttalagið auka álag á sjálfboðaliðana sem starfa við klúbbinn.
Íbúi við þjóðveginn, Thomas Wilk, stóð einnig á gati. „Hvers vegna lætur hann einhvern smyrja fyrir sig samloku ef hann hyggst ekki borða hana?“ spurði hann í viðtali við dagblaðið Bild.
Holger og Thomas eru ekki einir um að velta fyrir sér ásetningi bílstjórans. Hinar ýmsu kenningar skjóta nú upp kollinum um hugarástand hans og einkalíf. Er gjörningurinn viðbragð við yfirþyrmandi maka eða móður sem fer á fætur við sólarupprás til að smyrja ofan í hann brauð sem hann kærir sig ekki um? Eru sambandsslit handan hornsins? Eða er fljúgandi samlokan einmitt það sem heldur sambandinu saman?
Sú er skoðun sálfræðingsins Anke Precht. Í samtali við Bild segir hún samlokuna kunna að vera vitnisburð um „glatað andartak“. Precht nefnir sem dæmi mann sem er skotinn í konu. Konan býður honum í mat og ber á borð lax. Manninum líkar illa fiskur. En til að særa ekki tilfinningar konunnar og hrekja hana frá sér ákveður hann að þegja um það og hrósar hæfileikum hennar í eldhúsinu. Þegar maðurinn og konan ná saman og konan tekur að hafa lax í matinn í hverri viku neyðist maðurinn til að láta sem honum finnist hann góður.
Hinn ímyndaði elskhugi sálfræðingsins Precht er ekki sá eini sem lætur um þessar mundir mata sig á laxi sem hann hefur óbeit á.
Stórfellt mengunarslys
Í síðustu viku bárust fréttir af því að lögreglan á Vestfjörðum hefði til rannsóknar meint brot Arctic Sea Farm á lögum um fiskeldi. Er það gert í kjölfar þess að göt fundust á sjókví fyrirtækisins í Patreksfirði.
„Um er að ræða stórfellt mengunarslys sem kallað var í vikunni „Tjernobyl fyrir íslenska laxinn““
Matvælastofnun telur tæplega 3.500 eldislaxa hafa sloppið úr kvínni. Síðustu vikur hafa eldislaxar úr kvínni veiðst í ám víða um land. Sérfræðingar frá Noregi fundu fleiri eldislaxa í Ísafjarðará en villta.
Um er að ræða stórfellt mengunarslys sem kallað var í vikunni „Tjernobyl fyrir íslenska laxinn“. Framkvæmdastjóri Verndarsjóðs villtra laxastofna segir íslenska laxastofninn deyja út haldi laxeldi áfram í opnum sjókvíum.
„Hugrekki það eina sem getur hjálpað“
Hvers vegna kastar bílstjóri heimasmurðri samloku út um bílgluggann sinn dag eftir dag? Tjáir hann með verknaðinum gremju? Eða er um að ræða vitnisburð um „glatað andartak“?
Sálfræðingurinn Anke Precht telur bílstjórann hafa einhvern tímann misst af tækifæri til að láta í ljós það sem honum býr í brjósti og haldi það nú vera um seinan. Hann taki því við samloku á hverjum morgni, þakki fyrir sig en hendi henni svo út um bílgluggann.
Íslendingar áttu sér „glatað andartak“. Þrátt fyrir efasemdir um ágæti sjókvíaeldis við Íslandsstrendur hefur sjókvíaeldi ellefufaldast á tæpum áratug. Þvert á loforð yfirvalda var stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi „veikburða og brotakennd og vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar,“ eins og sagði í svartri skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrr á þessu ári.
Við Íslendingar erum eins og maðurinn sem ásældist svo mjög föngulega konu að hann lét þess ógetið að hann kærði sig ekki um laxinn hennar.
Eldislax gengur nú upp í ár og ógnar laxastofnum. Svo kann að vera að einhverjum finnist um seinan, eins og þýska bílstjóranum, að segja það sem okkur býr í brjósti. En Anke Precht kveður það rangt. „Í stöðu sem þessari er hugrekki það eina sem getur hjálpað samlokukastaranum. Kauptu stóran blómvönd og segðu förunauti þínum sannleikann.“
Þýska bílstjóranum væri best að hlíta ráðum Precht og vinna úr sínum málum. Fjögur hundruð evra sekt liggur við því að henda rusli úr bifreið á þjóðvegi B184. Refsing Íslendinga gæti orðið öllu hærri. Fyrir að stinga höfðinu í sandinn gætum við þurft að greiða með íslenska laxastofninum.
Athugasemdir (3)