„Nú þegar veturinn nálgast er ég að hugsa um hvað það getur verið erfitt að keyra mjólkurbílinn gegnum miðbæinn þegar það hefur kyngt niður snjó og það er mikil ófærð. Snjórinn hægir á okkur bílstjórunum en vörurnar sem eru í bílnum þurfa að komast á hótelin, á veitingastaðina og kaffihúsin fyrir hádegi. Á móti kemur að það er færra fólk í bænum á veturna. Það getur verið snúið að finna leið gegnum mannmergðina í miðbænum á sólardögum. Nú styttist í að flestir túristarnir fari og þá er auðveldara fyrir mig að komast um. En þetta er tvíeggja sverð því ég vil auðvitað að það sé nóg að gera á veitingastöðum og á hótelum því þá panta þau meira af mjólkurvörum og það er jákvætt fyrir vinnustaðinn minn.
„Lífið er auðvitað stundum erfitt en miklu oftar ljúft og skemmtilegt“
Ég fylgi stífu tímaprógrammi í keyrslunni því ég þarf að skila af mér vörum áður en umferðin fer af stað. Við bílstjórarnir byrjum því að vinna klukkan 6 á morgnana. Ég er búin að vinna hjá MS í rúm þrjú ár og hef allan þann tíma búið í Hveragerði. Ég legg af stað í vinnuna fyrir klukkan 5 á morgnana.
Mér finnst þetta fínn vinnutími þó að það geti verið erfitt að komast yfir Hellisheiðina á veturna.
Mér líður mjög vel í Hveragerði. Ég, konan mín og börnin okkar höfum búið á Íslandi í fimm ár. Hún vinnur í Hveragerði og börnin ganga þar í skóla. Við bjuggum í Þýskalandi og þar er ég er alinn upp. Ég fæddist í Biafra en þegar ég var smábarn var borgarastríð þar og mamma og pabbi flúðu með mig þaðan. Við fórum fyrst til Frakklands en síðan til Þýskalands. Mér líður betur hér en í Þýskalandi. Lífið er auðvitað stundum erfitt en miklu oftar ljúft og skemmtilegt.“
Athugasemdir