„Ég heiti Una Björg Jóhannesdóttir og við erum á Iðu bókakaffi. Sem er uppáhaldskaffihúsið mitt því hér eru bæði kaffi og bækur. Ég sæki Iðu frekar mikið, það er gott að koma hingað í morgunkaffi. Morgunbollinn í dag er cortado.
Umræðan í samfélaginu fer ekki á milli mála þegar kemur að því hvað hefur verið mér efst í huga síðustu daga. Hún hefur vakið hjá mér alls konar spurningar um fræðslu og skort á fræðslu. Við þurfum öll að gera betur. Við þurfum að standa saman og fræða hvert annað, fræða, fræða og fræða. Með fræðslu getur fólk tekið upplýstar ákvarðanir. Umræðan kom ekki flatt upp á mig en hún er samt harkalegri en ég átti von á.
Það augnablik sem breytti farvegi lífs míns var þegar ég eignaðist börnin mín. Þau eru þrjú og það elsta sautján ára. Með fæðingu þeirra sá ég enn meiri ástæðu fyrir fræðslu og að sækja mér upplýsingar. Eftir að ég eignaðist börn varð ég opnari fyrir því að sækja mér meiri kunnáttu og fræðslu um alla skapaða hluti, það opnaði heiminn fyrir mér.
En líf mitt hefði samt getað orðið ríkulegt þó ég hefði ekki átt börn. Það er fullt af fólki sem á ekki börn og lifir mjög ríku og upplýstu lífi. En svona var þetta fyrir mér. Það mikilvægasta sem ég hef lært er ást og umhyggja, samstaða og skilningur. Skilningur, skilningur og skilningur, og sýna skilning. Mér finnst svo freistandi að skoða hvað er á bak við hatrömmustu skilaboðin sem maður sér úti í þjóðfélaginu. Af hverju verður fólk svona? Af hverju verður það svona stóryrt og dómhart? Það hlýtur eitthvað að hafa orðið til þess? Þú ert ekki bara svona. Fólk fæðist ekki með hatur í sér. Kannski er fólk bara brotið fyrir eða aumt eða hefur orðið fyrir skilningsleysi eða fordómum sjálft.
Ég sótti mér mest mína fræðslu í bókum, á internetinu og hjá foreldrum í kringum mig og hjá mömmu. Það mikilvægasta sem ég lærði af mömmu var einmitt skilningur og löngunin til þess að sýna skilning, eða, forvitnina á bak við af hverju fólk hagar sér eins og það gerir. Þetta var ekki eitthvað sem við ræddum á okkar heimili, þetta var meira bara eitthvað sem hún gerði og ég tók upp eftir henni. Eða, ég tók eftir því að hún staldraði við fólk og mér fannst það áhugavert, það vakti áhuga minn á fólki og af hverju það er eins og það er.
Börnin mín hafa sömuleiðis kennt mér um skilning. Af því að þau kalla á skilning hjá manni, að þurfa að setja sig í þeirra spor, þó það takist ekki alltaf. Þá verður þú að horfa á lífið frá öðrum sjónarhornum.
Ég er svo hrædd um að þessi umræða leiði eitthvað annað og meira af sér, af því að það er svo mikil heift, ofbeldisverk eða eitthvað sem erfitt er að taka til baka.“
Athugasemdir