„Mér finnst einkennilegt að þau hafi ekki bara stöðvað starfsemi Hvals hf. vegna þessara brota,“ segir Valgerður Árnadóttir, talskona Hvalavina, um ákvörðun Matvælaeftirlitsins (MAST) um að stöðva veiðar á hvalveiðiskipinu Hval 8 í dag tímabundið.
Ákvörðunin var tekin vegna alvarlegra brota sem MAST segir að hafi verið framin við veiðar Hvals 8 á langreyði. Enn má Hvalur 9, sem er gerður út af sama fyrirtæki og Hvalur 8 – Hval hf., fara á veiðar.
„Ég er ánægð með að það sé allavega búið að stöðva aðra drápsmaskínuna þó að ég hefði viljað stöðva þær báðar,“ segir Valgerður.
29 mínútur liðu á milli fyrsta og annars skutuls sem veiðimenn á Hval 8 skutu í fyrstu langreyðina sem þeir drápu í ár. Það þýðir að það tók hana fleiri en 30 mínútur að deyja.
Fengu nýtt verkfæri með reglugerð Svandísar
Hrönn Jörundsdóttir, forstjóri MAST, segir að hertar reglur sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kom á þegar hvalveiðibannið féll úr gildi í byrjun september hafi gefið MAST tækifæri til að bregðast við frávikinu sem varð við veiðarnar.
„Við erum allavega með einhver verkfæri í höndunum sem við höfðum ekki áður,“ segir Hrönn.
Valgerður telur sömuleiðis útlit fyrir að reglugerðin sé að gera gagn.
„Ef þetta á að vera fordæmið þá væntanlega mun það gera Kristjáni Loftssyni [eiganda Hvals hf.] mjög erfitt fyrir að halda áfram sínum veiðum,“ segir Valgerður.
Athugasemdir