Northern Comfort
Litríkar persónur skemmta manni vel í mynd um sammannlega hræðslu sem hefði mátt enda svona mínútu fyrr.
Útlendingar sem villast til Íslands er að verða lítil hliðargrein í íslenskri kvikmyndasögu. Fyrst komu útlenskir meðal-Jónar til lands þar sem útlendingar sáust varla í Á köldum klaka og Stuttum Frakka, eftir fálkaræningja Friðriks Þórs komu jaðarsettar konur til landsins í Andið eðlilega og Wolka og loks fordekraður danskur prestur í Volaða land.
Þetta býður vissulega þeirri hættu heim að leikstjórar detti í allar klisjusúpurnar, en heilt yfir hefur þessum leikstjórum tekist merkilega vel að fá gests augun lánuð til að sjá eitthvað nýtt og ferskt við Ísland – og það á blessunarlega við um Northern Comfort.
Við byrjum skýjum ofar – sem reynist þó vera á jörðu niðri í London, þar sem hópur flughrædds fólks í flughermi reynir að ná valdi á hræðslunni. Svo fylgjum við fasteignasalanum Söru eftir, konu sem virðist vera með flest sitt á hreinu og gengur vel í lífinu – en lifir í lygi með sína flughræðslu, sem litar allt hennar líf og hún veit að hún þarf að gera eitthvað í því áður en spilaborgin hrynur.
Þessi einfaldi upphafskafli reynist svo tilfinningaakkeri myndarinnar, þótt maður sé kannski laus við flughræðslu þá erum við flest haldin einhverjum órökréttum ótta, sem er okkur endalaus farartálmi í lífinu og fær okkur til að haga okkur heimskulega og órökrétt og jafnvel ljúga. Tilfinningin er merkilega svipuð þótt óttinn sé ekki endilega sá sami. Og þetta er mynd þar sem hvít lygi kemur persónunum ítrekað í koll.
Svo mætum við í hið raunverulega flug og stuttu eftir flugtak er lykilaugnablik þar sem maður áttar sig á að þetta er hin íslenska Triangle of Sadness, þegar skandinavíski tæknibrósinn tekur æðiskast og maður minnist þess að í Sorgarþríhyrningi Östlunds var skandinavíski tæknibrósinn einna skástur auðkýfinganna. Þetta er þó jarðbundnari mynd þrátt fyrir lofthæðina, þau ná fæst upp í eina prósentið á meðan milljarðamæringarnir í Triangle of Sadness voru í efsta prómillinu. Þau eru líka mannlegri og viðkunnanlegri þrátt fyrir að öll eigi það til að vera óþolandi og eigingjörn líka. Sorgarþríhyrningurinn var fyrst og fremst ískrandi satíra og Northern Comfort er vissulega gamanmynd líka, en ekki síður drama og á kafla smá hryllingsmynd (rithöfundur missir vitið á afskekktu hóteli, halló Shining), eitthvað sem tónlist Daníels Bjarnasonar undirstrikar skemmtilega. Tónlistin er oft mögnuð, sérstaklega í fyrri hlutanum, þar sem lítil stef sögðu risastóra sögu.
Fyrst og fremst er þó gaman að fylgja þessum kostulegu persónum. Timothy Spall stelur ófáum senum og er nógu góður leikari til að átta sig á að í svona hlutverki er það dyggð að ofleika. Seint í myndinni mætir Björn Hlynur Haraldsson og stelur ófáum senum líka, það er gaman að sjá hann sleppa algerlega fram af sér beislinu – og vera um leið helsta sögn myndarinnar um það hvernig Ísland er hægt og rólega að verða túristaparadís fyrir ríkasta prósent jarðkringlunnar.
„Fyrst og fremst er þó gaman að fylgja þessum kostulegu persónum.“
Sverrir Guðnason er óþekkjanlegur og skemmtilegur sem tæknibrósinn Alfons og Ella Rumpf, sem kærastan Coco, leikur persónu sem kemur stundum á óvart, en er þó sú persóna sem hefði mátt þróa aðeins betur. Þá er fulltrúi almúgans, Simon Manyonda, sem fararstjórinn seinheppni Charles, lúmskt góður í hlutverki manns sem er að missa tökin sem fararstjóri kröfuharðra auðmanna.
Í minni hlutverkum er Rob Delaney eftirminnilegastur sem kvensamur flugmaður en kærasti Söru er veikur hlekkur, mikilvægur fyrir söguna en full óáhugaverður. Það er hins vegar Lydia Leonard sem heldur myndinni uppi sem Sara, þetta er margbreytileg persóna og það sést í andlitinu á henni, sem geymir margar konur eftir því hvaða hlutverk Sara þarf að leika núna, enda á sífelldum flótta – og kannski er það hin raunverulega merking titilsins: Ísland sem tímabundið skjól. Ef maður hefur efni á því, auðvitað.
Athugasemdir