Björg Eva Erlendsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Landverndar. Hún hefur störf í október. Björg Eva hefur verið framkvæmdastjóri Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs síðan árið 2016.
Hún hefur verið afkastamikill framkvæmdastjóri flokksins og afar áberandi í starfi hans síðustu árin, og sinnt hinum ýmsu trúnaðarstörfum innan flokksins.
Í tilkynningu frá Landsvernd segir að stjórnin hafi samið við Björgu Evu, eftir að Auður Önnu- Magnúsdóttir sagði starfi sínu lausu í vor.
Björg Eva fetar hér í fótspor Guðmundar Inga Guðbrandssonar, varaformanns VG, sem yfirgaf stöðu sína sem framkvæmdastjóri Landverndar árið 2017 til að verða umhverfisráðherra utan þings.
„Stjórn Landverndar horfði til þess að Björg Eva hefur víðtæka reynslu af rekstri félagasamtaka, reynslu úr fjölmiðlum og úr alþjóðastarfi á norrænum vettvangi. Nú síðast starfaði hún sem framkvæmdastjóri Vinstri grænna. Stjórnin metur einnig mikils að í ráðningaferlinu sýndi Björg Eva eldmóð fyrir málefnum náttúru og umhverfisverndar, enda hefur hún tekið þátt í náttúruverndarbaráttu lengst af ævinnar,“ segir þar.
Björg Eva á fjölbreyttan feril að baki sem fréttamaður og stjórnandi í tveimur löndum. Lengst af vann hún hjá Ríkisútvarpinu. Hún hefur lokið háskólaprófi í íslensku, norsku og blaðamennsku og stefnir að útskrift sem meistari í Norðurlandafræðum frá Háskóla Íslands. Björg Eva hefur verið virk í umhverfisbaráttu og félagslífi.
Athugasemdir (2)