„Hér á Tjarnargötu 10 er Happdrætti DAS rekið og vikulega eru dregnir út vinningar. Eftir tvo daga drögum við út stóra vinninginn í þessum mánuði, 40 milljónir króna á tvöföldum miða, sem er á við íbúð.
Ég er framkvæmdastjóri og tek því þátt í að draga út vinninginn, en teningar eru notaðir til þess. Þetta eru ekki venjulegir spilateningar, heldur hefur hver um sig 20 hliðar. Átta teningar eru í glæru boxi, handfangi er snúið og runan birtist. Alls birtast átta tölur. Þetta er gert sex sinnum. Tölurnar eru síðan slegnar inn í forrit sem háskólinn bjó til á sínum tíma og það dregur út vinningsnúmerin.
Ég fæ oft að hringja í fólk sem fær aðalvinninginn. Flestir verða mjög ánægðir. Sumir verða orðlausir. Aðrir eru vissir um þetta sé gabb.
Áður vann ég í ellefu ár hjá Hrafnistu og þessar stofnanir eru nátengdar. Happdrættið var stofnað til að fjármagna byggingu Hrafnistu. Í báðum tilfellum er verið að eiga við fólk.
Á Hrafnistu kemur inn fólk sem er orðið satt lífsdaga, búið að vera lengi á lífi og kannski orðið mjög þreytt og veikt. Reynt er að hjálpa því síðustu metrana með reisn. Hér er ég hins vegar að koma út gleðifréttum um vinninga.
Á móti kemur að með því að tryggja hagnað af happdrættinu er verið að tryggja að gamla fólkið, sem ég vann með áður, fái betri aðbúnað. Með hagnaðinum er til dæmis hægt að uppfæra herbergin þeirra á Hrafnistu.“
Athugasemdir