Þegar þú lendir í þeim vanda að segja hvað þú hafir lært þá dettur þér allt í einu ekkert í hug. Þá geri ég það sem er nærtækast – ég spyr vinkonur: „Hvað hef ég lært?“ Það stendur ekki á svörunum frekar en fyrri daginn. Ein segir að ég hafi lært tækniteiknun sem hefur komið sér vel í að læra hvernig á að hólfa hluti niður, gera flókna hluti kassalaga og strúktúrera erfiða hluti. Það ber ekki að vanmeta þá menntun. Annarri vinkonu fannst merkilegast að ég sé snillingur í að setja saman IKEA húsgögn, sem á sér rætur í minni kassalaga hugsun sem ég hef væntanlega lært í hinu sænska skólakerfi sem kenndi mér ekki bara ást á Astrid Lindgren, ABBA og IKEA heldur líka grundvallar mannréttindahugsun og samfélagsvitund. OG það að setja saman IKEA húsgögn er mjög auðveld leið fyrir mig að gera eitthvað huggulegt fyrir fólk sem mér þykir vænt um.
Augljóslega kemur öll menntun sér vel og þegar ég blandaði saman viðskiptafræði og kynjafræði á sínum tíma þá var það augljóslega ekki gert til að veita mér framgang á vinnumarkaði heldur miklu frekar var ég að sameina áhugamál og forvitni. Þetta er hins vegar sá grunnur sem hefur reynst mér best í lífinu. Að þekkja valdatengsl – ekki bara á milli kynja heldur geta sett fingurinn á valdníðslu og hina undirokuðu. En líka að kunna að lesa ársreikninga, gera uppgjör og skilja grunn í fjármálum, en þar eru flestar syndir samfélagsins faldar og oft reynt að gera fjármál svo flókin að fólk treystir sér ekki inn í umræðuna. Þá er eins gott að hafa grunnþekkingu og þora að spyrja spurninganna sem afhjúpa syndirnar og oft misréttið. Að sækja sér fjölbreytta menntun sem vekur forvitni og áhuga frekar en það sem er „hagkvæmt“ getur leitt fólk á skemmtilegri slóðir en ella. Fólk sem hefur gert eitthvað áhugavert og haft góð áhrif á samfélagið er fólk sem hefur farið sína eigin leiðir í menntun og reynslu en ekki elt það sem telst skynsamt hverju sinni!
Enn ein vinkonan (sem er reyndar karlmaður en er flokkaður í vinkvennahópnum) sagði mig vera komna hringinn og ég hlyti að hafa lært eitthvað af því. Ég hóf störf hjá Samtökum um kvennaathvarf eftir nám í viðskipta- og kynjafræði fyrir tuttugu árum síðan og nú er ég komin til Stígamóta eftir meira nám og óvæntar vendingar. Það hafa orðið gríðarlegar breytingar á þessum tuttugu árum. Áður fyrr var nær óhugsandi að konur kæmu fram undir nafni og segðu frá ofbeldi, hvað þá að ljóstra upp hver ofbeldismaðurinn væri. Það var í lagi að vera með alls konar úrræði fyrir konur sem beittar höfðu verið ofbeldi en um leið og minnst var á þá sem báru ábyrgð fór allt í lás. Í dag er hægt að setja nafn á ofbeldið og jafnvel ofbeldismennina, þó enn fari allt í baklás ef það eru þekktir menn og þeir eiga það enn allir sammerkt að axla ekki ábyrgð.
Að öllu jöfnu ættum við að vera komin lengra áfram en feðraveldið og kapítalisminn dregur okkur afturábak, meðal annars með óheftu aðgengi að klámi. Við erum í risastórri samfélagstilraun þar sem við veitum ungu fólki óheftan aðgang að klámi með þeirri kvenfyrirlitningu, rasisma og hlutgervingu sem það felur í sér og við vitum ekki fullkomlega hvaða afleiðingar það hefur.
„Í dag er hægt að setja nafn á ofbeldið og jafnvel ofbeldismennina, þó enn fari allt í baklás ef það eru þekktir menn og þeir eiga það enn allir sammerkt að axla ekki ábyrgð.“
Það sem ég hef lært er að vaxandi hluti brotaþola segir frá atvikum sem eru tekin beint úr kláminu. Um leið áttar vaxandi hluti gerenda sig ekki á því að þeir hafi beitt ofbeldi af því þeim hefur verið kennd þessi hegðun í kláminu; hvort sem það eru óvelkomin endaþarmsmök, kyrkingar eða önnur niðurlæging. Það er stóri vandinn sem við glímum við í dag en ekki fyrir tveimur áratugum síðan.
Það er sem sagt hægt að líta yfir farinn veg og fagna árangri en það ber aldrei, ALDREI, að vanmeta nýjar leiðir feðraveldisins til að kúga og niðurlægja konur – og þannig undiroka þær. Feðraveldið finnur sér nefnilega alltaf nýjan farveg, er eins og stórfljót þar sem ein stífla verður til þess að nýr vegur er farinn.
Það má því aldrei sofna á verðinum heldur finna nýjar leiðir til að bregðast við síbreytilegu feðraveldi. Enn eru þó notuð hin hefðbundnu stef í hinum hefðbundnu félagslegu samskiptum, að beita valdi með því að gera lítið úr, gera hlægileg, draga úr mætti orða kvenna og mikilvægi þeirra. Það er gömul saga og ný og ber ekki að vanmeta.
Eftir þessar pælingar sit ég samt uppi með þá tilfinningu að konur eru konum bestar. Þegar þú lendir í þeim raunum að skrifa um hvað lífið hefur kennt þér að þá er fyrsta skrefið að hafa samband við vinkonur. „Ég er í smá vanda; hvernig getiði hjálpað mér að leysa úr honum?“ Og það stendur aldrei á svörum. Þess vegna eru vinkonur (af öllum kynjum) bestar. Þær hafa svörin, þau sambönd endast lengst, gefa þér mest og reynast best í öllum vanda.
Athugasemdir