„Meinarðu hvort þetta hafi komið mér á óvart? Ég veit ekki hvað ég að segja en jú: Þetta kom mér á óvart,“ segir Eggert Valur Guðmundsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Árborg, aðspurður um hvað honum fannst þegar hann sá fréttir af tilboðinu sem Tómas Ellert Tómasson, fyrrverandi bæjarfulltrúi Miðflokksins í Árborg, segist hafa fengið frá fjárfestinum Leó Árnasyni árið 2020. Heimildin greindi frá málinu fyrir helgi.
Tómas sagði frá því að hann hefði fengið tilboð frá Leó þegar hann var bæjarfulltrúi í meirihlutanum á Selfossi árið 2020. Tilboðið gekk út á það, sagði Tómas, að hann og flokkur hans, Miðflokkurinn, áttu að fá fjárhagslega aðstoð í sveitastjórnarkosningunum árið 2022 gegn því að hann stuðlaði að því að sveitarfélagið Árborg félli frá kaupum á húsi Landsbankans á Selfossi. Enginn af hinum bæjarfulltrúunum í Árborg, sem voru í meirihlutanum með Tómasi, sögðust í greininni hafa fengið sambærileg tilboð og Tómas vegna sölunnar á Landsbankahúsinu.
Leó neitar að hafa gert Tómasi skilyrt tilboð um fjárhagsaðstoð gegn því að fá pólitíska fyrirgreiðslu frá honum.
„Það eru stórir peningar í húfi, hvort sem það eru lóðir eða aðrar eignir.“
Eggert Valur, sem í dag er sveitastjórnarmaður í Rangárþingi ytra á Suðurlandi, segist aldrei hafa séð eða heyrt af slíku tilboði áður. „Ég er oddviti Rangárþings ytra og er búinn að vera í sveitastjórnarmálum meira eða minna frá árinu 1998 og þetta er alveg unique fyrir mér. Ég held að það eigi nú við um fleiri í kringum mig sem hafa unnið í þessum geira.“
Heimildin greindi frá því fyrr í dag að Tómas hefði verið boðaður í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara vegna málsins.
Sigurjón upplifir sorg
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, sem var bæjarfulltrúi Á-listans en er í dag bæjarfulltrúi fyrir Samfylkinguna, segist hafa orðið mjög undrandi. „Þetta kom mér verulega á óvart; ég átti ekki von á þessu.“
Hann segir við Heimildina að hann hafi upplifi sorg út af málinu. „Ég hef alveg upplifað það að svona stórir aðilar hafa reynt að þrýsta á mann til að láta mál ganga hratt fyrir sig. Þá gildir að standa í lappirnar. Ég var alltaf mjög skýr á því að ekkert yrði þvingað í gegnum mig. Ég var nú bæði bara mjög hugsi og ég er líka eiginlega bara sorgmæddur ef þetta er eins og þetta lítur út fyrir að vera. Ef þetta orðið þannig að stórir aðilar séu farnir að bera fé á kjörna fulltrúa til að reyna að fá sitt í gegn.“
Helgi ekki alveg eins undrandi
Helgi Sigurður Haraldsson úr Framsóknarflokknum var ekki alveg eins undrandi og Eggert Valur og Sigurjón. „Ég eiginlega veit það ekki. Já, að hluta til. Kannski með þetta tiltekna dæmi en það kemur ekkert á óvart að eitthvað svona hafi verið í gangi einhvers staðar. Mér kemur ekkert á óvart að það sé verið í svona fyrirgreiðslu til að reyna að hafa áhrif á kjörna fulltrúa. Heimurinn er lítill. Svo er spurning hvort farið sé alla leið eða þetta bara reynt. Það eru stórir peningar í húfi, hvort sem það eru lóðir eða aðrar eignir.“
Helgi Sigurður segist furða sig á því að einhverjum detti í hug að gera slíkt tilboð og halda að það komi ekki upp á yfirborðið.
Ekki náðist í Örnu Ír Gunnarsdóttur úr Samfylkingunni til að fá viðbrögð hennar við umfjölluninni.
Hinir fengu engin tilboð
Heimildin spurði hina bæjarfulltrúana í þáverandi meirihluta að því í síðustu viku, áður en umfjöllunin um tilboð Leós var birt, hvort þeir hefðu einhvern tímann fengið sambærileg tilboð og Tómas lýsir á sínum ferli í stjórnmálum. Spurning Heimildarinnar til bæjarfulltrúanna var almenn og var þeim ekki sagt frá máli Tómasar þegar spurningin var borin upp við þá.
Bæjarfulltrúarnir fjórir sögðu allir nei við þessari spurningu. „Ég segi bara nei við spurningunni hvað mig snertir,“ sagði Eggert Valur úr Samfylkingunni.
Samflokkskona hans, Arna Ír Gunnarsdóttir, sagði að slíkt tilboð hafi aldrei verið lagt fyrir hana. „Mig rekur ekki minni til þess og held að ég geti sagt bara nei. Kannski er það út af því að ég er kona og þeir, karlarnir, hringja minna í konur. Mögulega hefur þetta líka eitthvað með það að gera hvaða strauma maður sendir frá sér.“
Sigurjón Vídalín, sagðist aldrei hafa fengið boð frá neinum sem snýst um óeðlilega fyrirgreiðslu.
Helgi Sigurður úr Framsókn tók í sama streng. „Ég hef aldrei upplifað slíkt.“
Miðað við þetta var Tómas eini bæjarfulltrúinn sem fékk tilboð frá Leó og Sigtúni. Ástæðan fyrir þessu kann meðal annars að liggja í persónulegum tengslum þeirra sem ná áratugi aftur í tímann en þeir eru æskufélagar frá Selfossi og fyrrverandi samstarfsmenn í Sjálfstæðisflokknum.
Athugasemdir