Helga Vala Helgadóttir, sem setið hefur á þingi fyrir Samfylkinguna síðan 2017, er að hætta þingmennsku. Hún ætlar að helga sig lögmannsstörfum og hefur virkjað lögmannsréttindi sín á ný.
Í viðtali við Morgunblaðið sem birtist í dag segist Helga Vala þó ekki vera að fara úr Samfylkingunni, sem mældist með 28,7 prósent fylgi í síðustu könnun Gallup og hefur ekki verið mæld með viðlíka stuðning síðan á vormánuðum ársins 2009. Ef fer sem horfir mun flokkurinn, sem hefur mælst stærsti flokkur landsins allt þetta ár, verða í góðri stöðu til að sitja í næstu ríkisstjórn.
Helga Vala segir að útganga hennar snúist ekkert um Kristrúnu Frostadóttur, sem tók við sem formaður flokksins í fyrra. „Þótt það sé vinsælt að teikna upp þá mynd að tvær konur geti ekki verið saman í herbergi, þá er það bara ekki rétt og brottför mín hefur ekkert með hana að gera.“
Væri búin að skipta um flokk ef hún ætlaði sér það
Helga Vala bauð sig fram til varaformanns Samfylkingarinnar árið 2020 gegn Heiðu Björgu Hilmisdóttur, en tapaði þeim slag. Hún leiddi svo lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í kosningunum 2021 og var gerð að þingflokksformanni í kjölfarið. Sú staða breyttist í fyrrahaust, eftir að Kristrún Frostadóttir varð formaður Samfylkingarinnar. Kristrún ákvað að skipta um formann þingflokks og setja Loga Einarsson, fyrirrennara hennar á formannsstóli, í starfið en því fylgir meiri ábyrgð, áhrif og hærri laun.
Helga Vala segir að ef hún ætlaði sér að skipta um flokk þá væri hún búinn að því. Tilboð þess efnis hefðu þegar borist. „Það gerðist þarna síðasta haust þegar mér var skipt út sem þingflokksformanni, þá héldu sumir að ég væri komin í svo mikla fýlu að ég væri á leið úr flokknum. En ég er ekki þar. Ég er ekki í pólitík fyrir mig og mína hatta.“
Jóhann Páll Jóhannsson, sem var í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar í kjördæmi Helgu Völu, náði inn á þing í síðustu kosningum. Fyrsti varaþingmaður kjördæmisins, sem ætti að taka við af Helgu Völu, er Dagbjört Hákonardóttir.
Lítill stóriðjukrati
Í viðtalinu við Morgunblaðinu er Helga Vala spurð um sögur um að hún og Kristrún ættu ekki skap saman og gætu ekki unnið saman. Hún segist hafa heyrt þetta allt. „Fyrst átti þetta að vera milli hennar og Oddnýjar [G. Harðardóttur], en svo heyrði ég einhvern tala um að vinnustaðasálfræðingur hefði komið til aðstoðar vegna þess að mér og Kristrúnu kæmi ekki saman. Mér var a.m.k. ekki boðið í það partí og það hefur engum dottið í hug að spyrja mig hvort það væri fótur fyrir þessari sögu.“
Hún gengst þó við því að vera ekki sammála Kristrúnu um allt. „Það er ekkert leyndarmál að ég er mikill Evrópusinni og lítill stóriðjukrati. Og mitt erindi í pólitík er mannréttindi, réttindi fólks, jöfnuður. Þau mannréttindi geta verið efnahagsleg, náð til kynja, kynþátta, kynslóða … þess vegna steig ég inn.“
Athugasemdir (4)