Hvaða réttlæti felst í því að almenningur beri bankana á baki sér?
Íslenskir bankar voru endurreistir eftir efnahagshrunið árið 2008. Fram undan var uppgjör við viðskiptahætti þar sem bankar höfðu fyrst og fremst þjónað hagsmunum eigenda sinna, á kostnað almennings, sem greiddi fyrir það dýru gjaldi, sumir með heimilum sínum.
Í uppgjörinu birtist mynd af sjálftöku, spillingu og ólögmætum viðskiptaháttum sem höfðu viðgengist innan íslenskra banka, þar sem almenningur var vísvitandi lagður að veði. Ákært var fyrir fjármálamisferli, umboðssvik, fjárdrátt, skýrslufals, innherjasvik og markaðsmisnotkun. Alls fengu 36 menn samtals 88 ára fangelsisdóma. Á meðal hinna dæmdu voru bankastjórar allra stóru bankanna og stjórnarformaður eins þeirra.
Sumir fóru í fangelsi, aðrir í var og biðu betri tíma.
Við tók nýr tími, nýtt upphaf, nýr samfélagssáttmáli. Bankar voru nú í eigu ríkisins og áttu að starfa í anda samfélagsábyrgðar. Í þágu almennings.
Undanfarna mánuði hefur hins vegar verið að koma í ljós hvernig bankar sýna enn af sér vanrækslu, brjóta lög í þágu útvalinna og kafa stöðugt dýpra í vasa almennings.
Samfélagsábyrgðin
„Undir minni stjórn, sem bankastjóri, hefur eigið fé bankans aukist um næstum 150 milljarða, auk þess sem ríflega 110 milljarðar hafa verið greiddir í arð til hluthafa,“ skrifaði Birna Einarsdóttir þegar hún lét af störfum sem bankastjóri Íslandsbanka í sumar.
Almennt er hlutverk stjórnenda að hámarka arðsemi hluthafa. Sum fyrirtæki leggja þó áherslu á að arðsemiskröfur samræmist samfélagsábyrgð. Fram til þessa hafa aðgerðir stjórnvalda og Seðlabankans helst valdið þrengingum á heimilum millistéttar- og lágtekjufólks, ekki síst vegna hærri afborgana af fasteignalánum. Í slíku árferði gætu hluthafar íslenskra banka, sem eru meðal annars íslenska ríkið og lífeyrissjóðir, stjórnir og æðstu stjórnendur sammælst um að stilla arðsemiskröfum í hóf, til að axla ábyrgð gagnvart þessum hópi.
„Ég tel að það eigi að nota þennan ofurhagnað til að greiða niður vexti fólksins í landinu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra. Í viðtali við Stundina árið 2022 tók 62 ára gömul kona undir það, en hún reynir að ná endum saman eftir að afborganir á láninu hafa tvöfaldast. „Þessir bankar eiga líka að taka eitthvað á sig. Hingað til hafa þeir alltaf bara velt þessu yfir á okkur.“
Það væri í takt við yfirlýsta sjálfbærnistefnu Íslandsbanka: „Stefna Íslandsbanka um sjálfbærni miðar að því að rekstur bankans verði til fyrirmyndar og að bankinn sé hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu.“
Það þyrfti þó viðhorfsbreytingu til.
Stjórnleysið
Seðlabanki Íslands hefur hækkað stýrivexti fjórtán sinnum í röð. Við síðustu hækkun töluðu Hagsmunasamtök heimilanna um „sífelldar árásir á varnarlaus heimilin“. Seðlabankinn hefur varla hækkað stýrivexti áður en stóru bankarnir eru búnir að hækka vexti af fasteignalánum. Óverðtryggð húsnæðislán á breytilegum vöxtum eru um fjórðungur húsnæðislána. Vextir af þessum lánum eru á örskömmum tíma komnir upp í tveggja stafa tölu.
Til samanburðar eru dæmigerðir fastir vextir á húsnæðisláni í Danmörku rúmlega 4 prósent.
Fyrirspurn frá Heimildinni var svarað með því að ekki væri annað hægt en að hækka vexti við stýrivaxtahækkanir: „Þá þurfa vaxtahækkanir að skila sér að sem stærstu leyti út til einstaklinga og atvinnulífsins til að þær hafi tilheyrandi áhrif,“ var svar Íslandsbanka. Arion banki sagði einfaldlega „ekki forsendur fyrir því að hækka ekki vexti óverðtryggðra íbúðalána“.
Fyrir vikið hafa vaxtahækkanir á fasteignalánum orðið til þess að greiðslubyrði af 45 milljóna króna óverðtryggðu láni á breytilegum vöxtum hefur á einu og hálfu ári hlaupið úr 191 þúsund krónum, í 367 þúsund krónur. Hækkunin nemur 175 þúsund krónum á mánuði, en mun líklega hækka þegar bankarnir hækka aftur vexti eftir nýjustu stýrivaxtahækkunina. Fyrir venjulegt fólk er það hellingur af peningum. Þessi mánaðarlega upphæð dugar ein og sér fyrir æfingagjöldum í fótbolta fyrir barn allt árið, eða fjölskylduferð til Krítar á tilboði með Úrval-Útsýn. Fyrir alla, nema kannski ríkasta fólk landsins, munar mjög mikið um 2,1 milljónir á ári.
„Ég hef ekki getað leyft mér að fara með góðri samvisku í frí með dæturnar,“ sagði Sigtryggur Ari Jóhannsson ljósmyndari í viðtali við Heimildina um það hvernig lánin hækka og peningarnir hverfa. Ekkert má út af bregða. Óvænt útgjöld á borð við viðgerð á tönn eða bíl gæti knúið hann til þess að slá lán hjá mömmu. „Sem er dálítið asnalegt fyrir mann sem er að verða fimmtugur.“ En þetta er veruleiki íslenskra heimila. Fólk sem rætt var við á förnum vegi hafði ýmist þurft að spara við sig í mat, fatakaupum eða sá jafnvel fram á að þurfa að selja fasteignina.
„Mér líður eins og ég sé fullkomlega raddlaus, hafi enga stjórn á … eigin velferð,“ sagði Edda Þöll Kentish. Það er eflaust tilfinning sem margir finna fyrir. Hvernig er líka hægt að upplifa að þú sért við stjórn, þegar þú veist aldrei hverju þú átt von á, á íslenskum húsnæðismarkaði?
Nú er spurningin: Hversu langt munu bankarnir ganga?
Skellurinn
Fram undan er harkalegur skellur fyrir stóran hóp fasteignaeigenda, sem er með óverðtryggð lán á föstum vöxtum. Á þessu ári losnar binditími lána á 4.451 heimili, sem þýðir að greiðslubyrði þessa hóps mun skyndilega taka stökkbreytingum, með ófyrirséðum afleiðingum. Á næstu tveimur árum munu vextir á lánum upp á 650 milljarða króna til viðbótar losna.
Varað hefur verið við því að fyrr eða síðar munu fjárhagsþrengingar heimila birtast í auknum vanskilum, en það geti tekið tíma. Fyrst verður spariféð étið upp, síðan tekur fólk skammtímalán eða hækkar yfirdráttinn, áður en það gefst upp. Nú eða endurfjármagnar. „Það er algjört neyðarúrræði að fara í verðtryggt lán,“ sagði íslensk kona í viðtali við Heimildina, og bætti við: „Það fylgir þessu mikill kvíði, ég er með magaverk út af þessu.“
Á sama tíma hægist á fasteignamarkaði, fasteignir seljast ýmist hægar eða ekki, fasteignaverð stendur í stað og getur á endanum lækkað, með þeim afleiðingum að fólk getur hvorki staðið í skilum né selt fyrir kostnaði.
Samanburðurinn
Þetta er ekki svona alls staðar.
„Þetta eru ríflega tvöfalt hærri vextir en við höfum í Færeyjum,“ sagði Olav Guttesen, bankastjóri Betri banka í Færeyjum, sem starfaði áður í fjármálageiranum í Danmörku en hafði aldrei heyrt um verðtryggð húsnæðislán fyrr en hann kynntist íslenskum aðstæðum.
Þrátt fyrir svipaða verðbólgu í Færeyjum og á Íslandi voru húsnæðislánavextir þar 4,65 prósent og tregða til að hækka þá meira. „Ég fengi enga viðskiptavini ef vextirnir væru hærri.“
Hagnaðurinn er ásættanlegur, segir hann, en ekki eins mikill og í Danmörku. Hvað þá á Íslandi, þar sem bankar hafa velt kostnaði af hærri vöxtum yfir á viðskiptavini sína til að auka hagnað á milli ára.
Á meðan íslensku bankarnir þrír högnuðust um 67 milljarða hagnaðist Betri banki um 1,5 milljarða. Ef margfaldað yrði með hlutfallslegum mun á íbúafjölda væri hagnaður stóru bankanna tveggja í Færeyjum helmingurinn af hagnaði íslensku bankanna.
„Það yrði uppreisn í landinu,“ sagði íslenskur maður sem á fasteign í Færeyjum.
Uppsprettan
Á fyrstu sex mánuðum ársins var hagnaður stóru bankanna þriggja, 40,3 milljarðar. 188,4 milljarðar á tveimur og hálfu ári. 857,4 milljarðar frá endurreisn bankanna eftir efnahagshrunið 2008.
Þegar bankastjórar stæra sig af auknum hagnaði, má spyrja hvert peningarnir séu sóttir.
Á síðustu árum hafa þessir peningar fyrst og fremst verið sóttir í vaxtatekjur, muninn á því sem bankarnir borga þér fyrir að geyma peninga í banka og hvað þeir rukka fyrir að lána þér peninga. Sá munur er miklu hærri hér á landi en þekkist á meðal norrænna banka; þrefalt meiri en hjá stóru norrænu bönkunum en líka talsvert meiri hjá bönkum af sambærilegri stærðargráðu. Á meðan vaxtamunur hér á landi er frá 2,9 til 3,2 prósent er hann frá 0,9 til 1,6 prósent hjá norrænum bönkum. Og hér heldur hann áfram að aukast, jókst um 25 prósent sé litið til fyrri hluta ársins 2022 og 2023.
Tekjur af þjónustugjöldum hafa einnig aukist á milli ára, á sama tíma og kostnaður lækkar vegna fækkunar starfsfólks og útibúa. Um þriðjungur þjónustutekna koma frá einstaklingum, rúmlega þriðjungur frá fyrirtækjum og restin meira og minna frá fjárfestum.
Auðlindin
Ný skýrsla staðfestir það sem haldið hefur verið fram, að íslenskir bankar rukka meira fyrir verri þjónustu en tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum, og ganga stöðugt lengra í því.
„Íslensk bankaþjónusta er sú allra dýrasta í Evrópu og sú allra versta,“ sagði Jón Daníelsson, hagfræðiprófessor við London School of Economics, í fyrra: „Þetta einfaldlega býr til þennan gríðarlega hagnað sem bankarnir hafa verið að skila á undanförnum árum.“
Í skýrslunni er gagnrýnt að fólk viti ekki fyrir hvað það borgar eða hversu mikið, vegna þess að gjaldskrár banka eru bæði óljósar og ógagnsæjar. Vonlaust sé fyrir neytendur að veita aðhald, eða færa sig á milli banka. Í ofanálag virðast þeir halda svipaðri verðskrá og hækka gjöld í takt við hver annan.
Í frétt RÚV voru lesendur spurðir hvort gjaldskrár væru skýrar. 93 prósent svöruðu neitandi.
Á meðal dulinnar gjaldtöku bankanna er gengisálag, þótt óljóst sé hvaða kostnað bankarnir bera vegna þess. Álag á greiðslukortaviðskipti er meira en annars staðar, og nam 6,6 milljörðum á síðasta ári. Hefði fólk reitt fram reiðufé í stað þess að draga upp kortið, hefði kostnaðurinn numið 4,9 milljörðum. Það hefði getað sparað sér 1,6 milljarða.
Annar kostnaður leggst á hér og þar. Ef þú þarft að hringja í banka til að fá upplýsingar um stöðuna borgar þú 300 krónur fyrir samtalið. Það kostar frá 800 til 820 krónur að taka út peninga með kreditkorti erlendis, tæpan þúsundkall að hækka yfirdráttarheimildina og á milli 12.900 til 14.000 krónur að fá rafrænt greiðslumat. Og svo framvegis.
Frá hruni hefur arðsemi af undirliggjandi starfsemi ekki verið hærri en í fyrra.
„Litið er á okkur, fólkið í landinu, sem einhvers konar fóður eða auðlind sem þeir geta gengið í að vild,“ sagði í aðsendri grein frá formanni VR, Ragnari Þór Ingólfssyni, og Ásthildi Lóu Þórisdóttur árið 2021.
Arðurinn
Stundum er vísað í séríslenskar aðstæður, sem geri það að verkum að það sé nánast óhjákvæmilegt að Íslendingar borgi meira en aðrir.
„Bankaskattur hækkar útlánavexti og rýrir ávöxtun sparnaðar heimila,“ sagði í umsögn Viðskiptaráðs vegna fyrirætlana um lækkun bankaskatts. Á þessum forsendum hafði árum saman verið talað fyrir lægri bankaskatti, sem átti að bæta kjör almennings. Samtök atvinnulífs töluðu á sömu nótum, sögðu lækkun bankaskatts „hagsmunamál fyrir heimili og fyrirtæki“.
Enn í dag er talað á sömu nótum. Ef það ætti að takast að bæta lánakjör íslenskra heimila og fyrirtækja, með því að minnka vaxtamuninn, þá þyrftu stjórnvöld að leita leiða til að draga úr sértækri skattlagningu á bankakerfið, sagði bankastjóri Arion banka, Benedikt Gíslason, fyrr á árinu.
En bankaskatturinn var lækkaður árið 2021, með því yfirlýsta markmiði að gera bankana betur í stakk búna til að lækka vexti á útlánum. En lækkunin skilaði sér aldrei til almennings. Menningar- og viðskiptaráðherra lýsti „vonbrigðum“ í kjölfar skýrslunnar og krafðist aðgerða: „Ef við sjáum ekki breytingar þá þurfa stjórnvöld að bregðast við.“
Það væri þá tímabært. Löngu tímabært.
Með lækkun bankaskatts græddu bankarnir bara 12 milljarða til viðbótar og greiddu eigendum sínum arð.
Frá árinu 2021 hefur Arion banki greitt út arð og keypt bréf af hluthöfum fyrir 76,3 milljarða. Enn er verið að kaupa eigin bréf af hluthöfum.
Ábyrgðin
Það eru ekki bara hluthafar sem græða. Fyrir hrun varð til ný stétt íslenskra auðmanna sem hafði ítök í fjármálalífinu. Stjórnendur banka fengu laun sem höfðu ekki sést hér á landi áður. Þótt dregið hafi úr við hrunið, hafa laun bankastjóra verið að hækka á síðustu árum.
Árið 2022 var Benedikt í Arion banka með 7,3 milljónir á mánuði, 87 milljónir á ári. Aðstoðarbankastjóri var með 4,8 milljónir á mánuði í fyrra. Starfsmaður á skrifstofu bankastjóra fékk 3,7 milljónir. Starfsmenn geta síðan fengið bónusa eða kaupauka.
Stjórnarformaðurinn fékk 23,4 milljónir í árslaun.
Laun bankastjóra Landsbankans hækkuðu líka á milli ára, um 14 prósent á milli 2022 og 2021. Þá voru þau 5,1 milljón á mánuði.
Íslensk heimili og fyrirtæki halda þessum launum uppi. Er sátt um það?
Fyrir hrun voru ofurlaun stjórnenda bankanna réttlætt með því að þeir þyrftu að vera á launum sem væru samkeppnishæf við erlenda banka, af hættu við að missa þá til útlanda. Það var áður en það kom í ljós hvernig bönkunum var í raun og veru stýrt. Önnur röksemdafærslan var sú að þeir bæru svo mikla ábyrgð, en þegar á reyndi báru þeir fyrst ábyrgð á því að hirða hagnaðinn en tapið sat eftir hjá íslenskum almenningi.
Þegar upp komst um lögbrot Íslandsbanka fengu þeir þrír starfsmenn sem báru ábyrgð þar á, bankastjóri, framkvæmdastjóri og forstöðumaður, greiddar 140 milljónir frá bankanum.
Fyrrverandi bankastjóri, Birna Einarsdóttir, var með 59,8 milljónir í árslaun í fyrra og heldur þeim í heilt ár. Þetta er upphæð sem vegfarendur sem blaðamaður Heimildarinnar tók tali sögðu ýmist að það tæki alla ævina að komast yfir eða væri „ekki eitthvað sem væri raunhæft fyrir mig“.
Árið 2022 fékk Birna einnig sérstaka bónusgreiðslu upp á 10,9 milljónir vegna yfirvinnu í tengslum við undirbúning hlutafjárútboðs og skráningar Íslandsbanka á markað sumarið 2021. Á endanum greiddi bankinn 1.200 milljarða stjórnvaldssekt vegna margvíslegra lögbrota í tengslum við sölu á hlutum í bankanum.
Þrátt fyrir það er arðsemi Íslandsbanka yfir markmiðum, rétt eins og arðsemi allra íslensku bankanna. Í öllum tilvikum er arðsemi þeirra ívið meiri en hjá bönkum af svipaðri stærðargráðu á hinum Norðurlöndunum, líka þegar borin er saman arðsemi heildareigna.
Tækifærin
Nú stíga bankastjórarnir fram og lýsa ánægju með skýrsluna. En það sem skýrslan sýnir umfram allt er að íslensk fyrirtæki og heimili bera byrðarnar af bönkunum. Þessi mikli hagnaður er sóttur til almennings.
Í Færeyjum yrði uppreisn. Líklega myndu fæstir Norðurlandabúar láta bjóða sér þetta. En hér er búið að selja hugmyndina um að svona sé þetta bara, Íslendingar þurfi bara að greiða meira, til að fjármagna meiri hagnað en tíðkast almennt á Norðurlöndum.
En þetta þarf ekki að vera svona. Að baki þessu ástandi liggja ákvarðanir, stefna sem hægt er að breyta, viðhorf sem sýnd eru í verki.
Í aðdraganda kosninga steig fjármálaráðherra, Bjarni Benediksson, fram og talaði um mikilvægi þess að heimilin „varðveita stöðugleika og lága vexti“ og bætti við: „Ísland er land tækifæranna.“ Vandinn er bara sá að tækifærin eru ekki allra.
Á meðan lítill hópur fólks græðir, er mun stærri hópur að sligast undan þessari byrði.
Athugasemdir (2)