Árið 2016 átti sér stað stærsti gagnaleki sögunnar þegar upplýsingum um aflandsfélög var lekið frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama. Hin svokölluðu Panamaskjöl sviptu ekki aðeins hulunni af aflandsfélögum þáverandi forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og núverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, heldur varpaði lekinn ljósi á almenna skattfælni vel settra Íslendinga. Í gögnunum fundust 800 félög sem tengdust 600 Íslendingum. Á topp-tíu lista yfir banka heimsins með flesta viðskiptavini í Panamaskjölunum var Landsbankinn í níunda sæti.
En á meðan sumir forðast skatta leggja aðrir sig í líma um að greiða skatta. Hátekjulisti Heimildarinnar var birtur í síðustu viku. Tæknifrumkvöðullinn Haraldur Ingi Þorleifsson var með hæstu launatekjur allra Íslendinga á síðasta ári.
Athygli vakti þegar Haraldur seldi samfélagsmiðlinum Twitter tölvufyrirtæki sitt árið 2021. Við söluna þakkaði hann íslensku velferðarkerfi árangurinn. „Ég fæddist á Íslandi þar sem foreldrar mínir voru lágtekjufólk,“ sagði Haraldur á Twitter, sem nú kallast X. „Ég glímdi við alvarlega fötlun. En vegna þess að í landinu er ókeypis skólakerfi og ókeypis helbrigðisþjónusta fékk ég tækifæri til að dafna.“
Haraldur hefði vafalítið getað ráðið knáan endurskoðanda til að fremja gjörning sem lágmarkaði skattgreiðslur af sölu fyrirtækis hans. Kannski hefði endurskoðandinn lagt til að söluandvirðið yrði fært í félag í útlöndum þar sem skattprósentur eru auðugum oft hugnanlegri. En Haraldi var í mun að „styðja við kerfið sem hafði stutt hann“. Hann kaus að greiða af sölunni eins háa skatta og kostur var. Haraldur lét borga sér fyrir fyrirtækið á formi launatekna. Af þeim greiddi hann 45 prósenta tekjuskatt á Íslandi í stað 22 prósenta fjármagnstekjuskatts eins og tíðkast jafnan þegar fyrirtæki eru seld.
Það eru gjarnan þau sem notið hafa góðs af velferðarkerfinu sem eru hvað áköfust að greiða í sameiginlega sjóði samfélagsins. Breski rithöfundurinn J. K. Rowling er þekkt dæmi.
Rowling, sem skapaði galdrastrákinn Harry Potter, hefur ítrekað sagst borga skatta með stolti. Hún þvertekur fyrir að nota bókhaldsbrellur og önnur töfrabrögð endurskoðenda og greiðir venjulegan tekjuskatt af fé sem fellur henni í skaut. „Þegar ég var á botninum í lífi mínu bjargaði velferðarkerfið mér,“ segir Rowling sem skrifað Harry Potter á servíettur á kaffihúsum þegar hún var blásnauð, einstæð móðir. „Það væri fyrirlitlegt ef ég stingi af til Vestur-Indíur um leið og glitti í fyrstu sjö tölustafa höfundarlaunaávísunina.“
Porsche eða Ferrari
„Ef ég hefði ekki getað fengið örorkubætur þegar ég þurfti þær þá hefði ég ekki getað lifað af,“ sagði Haraldur Ingi Þorleifsson í viðtali.
Þótt stundum sé látið í veðri vaka að það séu fyrst og fremst þau sem lenda í mótbyr í lífinu sem njóti góðs af sameiginlegum sjóðum samfélagsins er staðreyndin önnur.
Rannsóknir bandaríska hagfræðingsins Robert H. Frank, sem starfar við Cornell-háskóla, sýna að fólk sem nýtur velgengni vanmetur oftast þáttinn sem heppni leikur í árangri þess. Slíkt skipti líklega engu máli ef ekki væri fyrir þá staðreynd að þau sem telja árangur sinn beina afleiðingu af verðleikum sínum eru tregari til að greiða tilskilda skatta og gjöld til samfélagsins en aðrir.
Frank telur hin farsælu hins vegar skjóta sig í fótinn. Vanfjármögnun í innviðum bitnar líka á þeim sigursælustu í samfélaginu því þau njóta einnig góðs af almannagæðum. Frank leggur til að þau borgi meira í sameiginlega sjóði og spyr hvort ekki sé ánægjulegra að aka 150.000 dollara Porsche á vegum sem vel er haldið við en að keyra 333.000 dollara Ferrari á holóttum götum.
Svo að fræ fái að bera ávöxt
„Einhver situr í skugga í dag vegna þess að einhver annar plantaði tré fyrir löngu,“ sagði viðskiptajöfurinn og milljarðamæringurinn Warren Buffett sem vill að fólk eins og hann sé krafið um hærri skatta.
Í kosningabaráttu sinni til öldungadeildar Bandaríkjaþings árið 2012 hrakti frambjóðandi Demókrata í Massachusetts-ríki, Elizabeth Warren, málflutning Repúblikana sem kváðu skattahækkanir á hina ríku jafngilda stéttastríði.
„Enginn í þessu landi varð ríkur upp á eigin spýtur,“ sagði Warren í ræðu. „Byggðir þú verksmiðju? Flott hjá þér. En athugaðu: Til að koma varningi þínum í verð fluttir þú hann eftir vegum sem við hin greiddum fyrir; þú réðst starfsfólk sem við hin menntuðum; öryggi innan verksmiðjunnar tryggðu lögregla og slökkvilið sem við hin stóðum kostnaðinn af. ... Byggðir þú verksmiðju og hún varð að einhverju frábæru? Til hamingju – haltu eftir stórum hluta. En samfélagssáttmálinn gengur út á að þú takir annan hluta og leggir í púkkið svo að næsta ungmenni fái einnig að spreyta sig.“
Hlutdeild í afrakstri framtakssams fólks eins og Haraldar Inga Þorleifssonar liggur til grundvallar giftusamlegu samfélagi. En skattgreiðslurnar eru einnig forsenda þess að fræ sama framtakssama fólks, fólks eins og þeirra sem skipa hátekjulista Heimildarinnar, fái að bera ávöxt.
„Ríkisvald er mikilvægt og ég hef mikla trú á því að það sé hægt að reka góð samfélög í gegnum öflug skattkerfi,“ sagði Haraldur nýverið í viðtali á Rúv.
Óskandi væri að fleiri hinna farsælu létu sig varða frjósemi jarðvegsins.
Það sem er hinsvegar sérstakt við þetta aflandsfélag var að eignir þess voru taldar fram á íslenskri skattaskýrslu þó þær hefðu ekki ratað í rétta reiti á eyðublaðinu. Sigmundur, með réttu eða röngu, kenndi endurskoðandanum um sem gerði skattaskýrsluna.
Man ekki betur en hafa séð það haft eftir Sigmundi að Skattstjóri hafi ekki gert henni að greiða álag eins og um undanskot væri að ræða heldur bara leiðréttinguna.
Það væri fróðlegt að vita hvort Panama eignir Bjarna og toppmannsins hjá Samfyingunni (sem Sif minnist ekki á) hafi verið taldar fram hjá skattinum hér.
Breytir ekki aðalefni greinarinnar að Haraldur er einstakur þegar kemur að þessum hlutum og minnir helst á Þorvald heitinn í Síld og fiski sem lagði metnað sinn í að greiða hæstu skattana. Hann hefði líka auðveldlega getað lækkað sínar skattgreiðslur með því að vera með reksturinn í hlutafélagi.
En svo horfir skattstjóri með alþjóð uppá skattasniðgöngu án þess að gera neitt í því eins og í tilfelli slitastjórna föllnu bankanna. Þar voru allir lögfræðingarnir í slitastjórn í gerfiverktöku hjá þrotabúunum þótt ehf. félögin þeirra legðu ekkert til rekstursins. Ef marka má fréttir var allur rekstrarkostnaður greiddur beint af þrotabúunum. Húsnæði, skrifstofukostnaður, akstur og annað sem til féll. Mér er til efs að ehf. félög viðkomandi hafi lagt þeim til penna. Samt var tímataxtinn hjá ehf. félaginu nær tvöfaldur miðað við það sem áður tíðkaðist, þótt þrotabúin hafi sjálf keypt starfsmannatryggingar ef verktakinn skyldi nú klúðra einhverju.
Það er ekki sama, séra Jón og Haraldur.