Ferðamenn eru bara fávitar með veski. Því miður er þetta viðhorf hluti af íslenskum ferðamannaiðnaði: Svona líta margir á erlenda gesti á Íslandi. Túristar er eitthvað fólk sem röltir á milli lundabúða sem eru fullar af ódýru drasli frá Kína sem er selt á íslensku fjárkúgunarverði og borgar 1.000 krónur fyrir bílastæði við einhvern foss þar sem landeigandinn nennir ekki einu sinni að byggja klósett.
En það undarlegasta í íslenskri ferðaþjónustu er viðhorfið til íslenskrar tungu. Í umræðunni um útbreiðslu ensku í íslensku samfélagi yppa Samtök ferðaþjónustunnar öxlum. Augljóslega vilja fremstu hagsmunasamtök iðnaðarins ekki lyfta fingri þegar það hjálpar þeim ekki að græða peninga.
„Þeir eiga að geta upplifað hið raunverulega Ísland – ekki bara Iceland for dummies“
Að Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, vilji ekki axla ábyrgð á íslenskunni er eitt. En að hún skilji ekki að tungumálið er mikilvægur hluti af upplifun ferðamannanna er álíka stórfurðulegt og að borga 1.890 krónur fyrir kökusneið með rjómaslettu í sjoppu við Mývatn. Þeir sem gera sér ekki grein fyrir þessu eru að koma fram við gesti sína eins og blauta borðtusku: Það er bara spurning um að kreista út eins mikið út úr þeim og þú getur.
Þegar Ólafur Ragnar þúaði bankastjóra
Ég hef unnið sem sjálfstætt starfandi leiðsögumaður á Íslandi af og til í tólf ár. Á hverju ári kem ég með ferðamenn frá Svíþjóð til Íslands. Stór hluti spurninga þeirra til mín snýst sérstaklega um íslenska tungu. Ég tala líka mjög mikið um íslensku meðan á dvölinni stendur vegna þess að tungumálið – að minnsta kosti hingað til – hefur verið svo stór hluti af sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar.
Ferðamenn eru forvitnir um allt mögulegt. Þeir velta fyrir sér hvers vegna hlutirnir heita „snyrting“, „leigubíll“ og „strætó“ og svo útskýri ég uppruna orðanna. Þeir spyrja hvort það sé kurteisara að segja „þér“ eða „þú“ við ókunnuga. Svo segi ég þeim frá því hvernig þáttastjórnandinn Ólafur Ragnar Grímsson þúaði bankastjóra í sjónvarpsviðtali árið 1970 og hvernig presturinn Ólafur Guðmundsson sakaði hann svo um það í Morgunblaðinu að tala við bankamanninn eins og hvern annan sauðaþjóf. Ég útskýri jafnframt fyrir þeim að í dag þyki mjög skrítið að segja „þér“ og „yður“.
Þeir vilja vita hvort Íslendingar í dag hefðu getað skilið Snorra Sturluson og Egil Skallagrímsson. Ég svara að framburður og orðaforði hafi breyst mikið en íslenska ritmálið hafi breyst minna en norrænu nágrannamálin og að með dálítilli æfingu sé ekki svo erfitt að lesa texta sem eru mörg hundruð ára gamlir. Þeir spyrja hvort mállýskur séu til í íslensku. Ég útskýri að munurinn á íslenskunni milli landshluta sé mjög lítill og að alls ekki sé hægt að bera hann saman við fjölbreytileika tungumálsins í til dæmis Noregi, Svíþjóð eða Þýskalandi.
Þeir flissa þegar við komum í Bæjarins beztu pylsur í skoðunarferðum um miðbæ Reykjavíkur og ég útskýri hvers vegna það er skilti sem segir „pulsa“ á annarri hliðinni og „pylsa“ á hina. Þeir hugsa líka um hvers vegna „-ll“ í Eyjafjallajökull er borið fram svona undarlega þegar „-ll“ er ekki borið fram eins í „Hlöllabátar“ og í svari mínu nota ég alltaf „Páll“ og „Palli“ sem dæmi um þessi prinsipp.
Svona heldur það áfram í hverri Íslandsferð. Ég elska að tala um íslenska tungu og ferðalangar elska að spyrja um hana.
Að leyfa ferðamönnum að „smakka“ íslenskuna
Þegar við borðum á veitingastað er jafngaman að smakka íslenska matargerð eins og að skoða íslenskuna sem stendur á matseðlinum. Lárpera! Hægeldaður! Franskar! Grænkeri! Hanastél! Hvert orð inniheldur smá sögu sem segir eitthvað um íslenskt samfélag, um íslenska tungu og um sögu Íslands. Að láta ferðamenn ekki „smakka“ íslenskuna á matseðlinum er dæmi um sams konar þröngsýni og að keyra hringveginn um Ísland og borða aldrei neitt annað en hamborgara.
Það er ekki aðeins útlendingum á Íslandi sem finnst tungumálið vera hluti af upplifuninni af framandi löndum. Ég veit ekki hversu oft ég hef séð íslenska vini mína pósta á Facebook þegar þeir heimsækja Færeyjar. Allir hafa tekið myndir af einhverju skilti með textanum: Bert starvsfólk. Hið enska „staff only“ hefði aftur á móti ekki komið einum einasta manni til að hlæja.
Tungumál er skemmtilegt. Tungumálið er hluti af upplifun af landi, íbúum þess og menningu.
„En hluti ferðamannaiðnaðarins gefur alla vega skít í tungumálið“
Nei, fyrirtæki og hagsmunasamtök bera samkvæmt lögum ekki beint neina ábyrgð á íslenskri tungu. En þeir bera ábyrgð á upplifun ferðamannanna. Þeir eiga að geta upplifað hið raunverulega Íslandi – ekki bara Iceland for dummies. Það er líka á mína ábyrgð sem leiðsögumaður. Það verður miklu auðveldara fyrir mig að axla þá ábyrgð ef fleiri fyrirtæki hugsa um íslenska tungu.
Já, íslenska er lítið tungumál og að Norðurlandabúum undanskildum virkar hún líklega frekar framandi og erfið. Enginn ferðamaður lærir íslensku með því að lesa matseðla á ferð um hringveginn. En þetta á heldur ekki við um Íslendinga sem tekst, stoltum og glöðum, að panta sér „café au lait“ á frönsku eða „una cerveza“ á spænsku. En hvers vegna ekki að hjálpa ferðamönnum að panta pylsu, eða pulsu, í staðinn fyrir „hotdog“?
Áðurnefnd Bjarnheiður Hallsdóttir skrifar á Vísi að ferðamannaiðnaðurinn sé ekki að rústa íslenskri tungu. Það er kannski rétt. En hluti ferðamannaiðnaðarins gefur alla vega skít í tungumálið. Og það finnst mér nánast vera það sama. Þó að þetta komi auðvitað ekki þeim við sem líta bara á ferðamenn sem fávita með veski til að mjólka.
Takk fyrir þessa grein 💪💯
Ég vona að það renni af ferðaþjónustunni einn daginn því það er búið að vera algjört fyllerí með King size dómgreindarleysi …eins og flest fyllerí eru.
Hvort það er eins hjá okkur veit ég þó ekki.