Forseti Ítalíu lauk árinu 2017 með því að rjúfa þing. Nýtt þing kosið í byrjun mars 2018. Mótmælaflokkurinn Fimm stjörnu hreyfingin fór með himinskautum. Ég fylgdist nokkuð með danska sjónvarpinu vikurnar í aðdraganda kosninganna. Minnist sérstaklega samtals fréttakonu TV2 á vettvangi í Róm og fréttamanns í stúdíói í Kaupmannahöfn. Stúdíófréttamaðurinn spyr um helstu umfjöllunarefni í kosningabaráttunni. Mikið fór fyrir popúlisma: Fimm stjörnu hreyfingin boðaði borgaralaun meðan Bandalag Matteo Salvini hamaðist gegn innflytjendum. Nokkuð fleira spurði sá í stúdíóinu. Tja, svo tala allir um að lækka skatta svaraði fréttakona á vettvangi. En þeir borga miklu lægri skatta en við hér í Danmörku, segir stúdíófréttamaður. Já, en við erum að fá svo miklu meira fyrir skattana okkar en Ítalirnir, svaraði vettvangsfréttakonan!
Skattar eru verðið sem við greiðum fyrir að búa í siðuðu samfélagi er stundum sagt. En hversu hátt getur það verð verið er spurning sem margir spyrja sig þegar skattaframtal er gert og þegar niðurstaða álagningar birtist. Samtal fréttafólksins sem vitnað var til í upphafi bendir til þess að greiðsluviljinn fari talsvert eftir því hvaða þjónusta kemur í staðinn. Eftir seinna stríð fóru norrænir sósíaldemókratar í smiðju hjá Bandaríkjamönnum og byggðu upp umfangsmikil skattafjármögnuð velferðarþjóðfélög.
Flestir telja sig geta varið viðbótartekjum með gagnlegum hætti. Gætu því þegið lægri skatt og hærri upphæð til eigin ráðstöfunar. En samanburðurinn milli Ítalíu og Danmerkur í samtali fréttafólksins hér að ofan bendir til að afrakstur skattakrónunnar sé ekki sá sami alls staðar. Skattakrónan í Danmörku gefur meiri velferð en skattakróna á Ítalíu. Sumir Danir jafnvel tilbúnir til að ganga lengra: Árið 2019 var helmingur Dana tilbúinn til að greiða hærri skatta væri tekjunum varið til velferðarmála (heilbrigðismál, félagsmál, öldrunarmál, menntamál). Á Ítalíu er staðan hins vegar þannig að skattaundandráttur er alvarlegt vandamál. Rannsóknir sýna engu að síður að greiðsluviljinn sé hærri í þeim ítölsku sveitarfélögum og þeim héruðum þar sem notkun skattfjár er skilvirk. Það bendir til að skattaundandráttinn megi að nokkru rekja til slæmrar meðferðar almannafjár.
Hærri lífslíkur og framleiðnara vinnuafl
Nú er það svo að þegnarnir hafa ekki bein áhrif á hvernig skattpeningnum er varið. Í lýðræðisríkjum er það hlutverk stjórnmálamanna að ráðstafa tekjunum, ákveða áherslur, breyta áherslum. Það er ekki auðvelt verk. Langtímasjónarmið víkja gjarnan fyrir skammtímaáherslum. Öldrunarmál víkja fyrir göngum í gegnum fjöll svo dæmi sé tekið. Vissulega geta íbúar í næsta nágrenni vegganga í byggingu verða ánægðir meðan aðstandendur aldraðra og aldraðir sjálfir ná vart að átta sig á að velferð þeirra var fórnað á altari popúlismans fyrr en árum og jafnvel áratugum seinna þegar í ljós kemur að fé vantar til að laga mygluð elliheimili eða til að laða að hæft starfsfólk til slíkra heimila. Á Ítalíu hrundi kílómeters löng brú vegna samblands af hönnunargalla og skorti á viðhaldi.
Þegar kemur að einstökum verkefnum eru eðlilega skiptar skoðanir um hvað sé misheppnað og hvað sé velheppnað. Sem dæmi um hið fyrrnefnda vil ég nefna styrkja- og stuðningskerfi landbúnaðarins sem kostar almenning milljarðatugi árlega í háu vöruverði og beinum styrkjum. En virkni kerfisins er ekki meiri en svo að himinháir styrkir duga ekki til að viðhalda rekstrargrundvelli í sumum undirgreina. Af sama toga var viðleitni til að byggja upp loðdýrarækt á Íslandi á 9unda áratug síðustu aldar. Víða um sveitir má enn finna stór hús sem áður hýstu slíka starfsemi um skamma hríð. Flugstöðvar hafa verið reistar á flugvöllum rétt áður en áætlunarflugi var hætt á viðkomandi flugvöll. Og þannig má áfram telja.
Eðlilegt að spyrja svo: Er eitthvað vit í því að láta misvitra stjórnmálamenn um að ráðstafa þriðjungi til helmings tekna sem skapaðar eru í landinu á hverjum tíma? Þessari spurningu hafa þegnar allra lýðræðislanda svarað játandi. Ástæðan er sú að aðkoma hins opinbera getur skipt sköpum fyrir vöxt og viðgang þjóðfélaga. Almennt, ódýrt aðgengi að menntun eykur fjárfestingu í mannauð sem skilar sér í öflugu og framleiðnu vinnuafli. Vel rekið heilbrigðiskerfi fjármagnað af hinu opinbera skilar sér í hærri lífslíkum og framleiðnara vinnuafli. Sama á við um vel rekna félagsþjónustu.
Réttindi og skyldur vegist á
Skandinavíski sósíaldemókratíski samfélagssáttmálinn byggir á að réttindi og skyldur vegist á. Það sé skylda þeirra sem geta að leggja sig fram á vinnumarkaði og sem skattgreiðendur. Það sé réttur þeirra sem eru óvinnufært sökum sjúkdóma eða elli að fá eðlilega og sanngjarna umönnun og velferðarþjónustu. Það er réttur foreldra að börn þeirra njóti góðrar grunnmenntunar án tillits til efnahags („ret-og-plikt modellen“). Fyrirkomulagið er ekki bara sanngjarnt. Það skilar sér í háu framleiðnistigi og mikilli framleiðslu á mann. Framleiðni er smitandi: Getumikill starfsmaður áorkar enn meiru ef hann er í hópinn annarra getumikilla en ella.
Hugmyndin er að jafnvægi verði að vera milli skyldugreiðslu skatta annars vegar og afhendingar almannagæða af hálfu hins opinbera hins vegar. Samtal fréttafólksins á TV2 sem vitnað var til í upphafi bendir til að þessi hugmynd hafi skilað sér til almennings. En samfélagssáttmálinn er ekki greyptur í stein. Í sumar spurði Christian Rabjerg Madsen þingmaður og pólitískur talsmaður Sósíaldemókrata í Danmörku hvort rétt væri að koma á sérstöku tryggingarkerfi til að fjármágna umönnunar eldri borgara utan við hið almenna skattakerfi. Hugmyndinni hafði áður verið hampað af talsmönnum hægri blokkarinnar og því ekki ný. En í henni felst að í framtíðinni ættu eldri borgarar því aðeins óheftan aðgang að félagsþjónustu, elliheimilum, hjúkrunarheimilum o.s.frv. að þeir hafi greitt inn í sérstakan sjóð hliðstæðan lífeyrissjóðum. Flokksfélagar Madsen voru ekki par ánægðir og benda á að með þessu sé samfélagssáttmálinn um jafnvægi skattgreiðslna og afhendingar almannagæði rofinn. Að það verði ekki bæði hægt að halda uppi háum almennum sköttum, en á sama tíma að krefjast greiðslu fyrir aðgang að almannaþjónustu á borð við umönnun aldraðra.
Allt ber þetta að þeim brunni að það sé ekki rétt að spyrja hvort skattbyrði meðal Íslendingsins sé há eða lág. Heldur þarf að spyrja hvað meðalskattgreiðandinn fær til baka fyrir skattana sína. Vissulega má deila um dreifingu skattbyrðarinnar og samspil skatta og almannatryggingakerfis. Þar er mjög margur potturinn brotinn. En stóra spurningin er þessi: Hversu mikla velferð skilar hver skattakróna á Íslandi samanborið við nálæg lönd? Þeir sem hafa verið „kúnnar“ hjá almannatryggingakerfinu og öðrum félagskerfum sem t.d. tengjast vistunarúrræðum fyrir aldraða gætu haft ýmislegt að athuga við íslenska kerfið. Það þarf að laga.
Athugasemdir (1)