Nýverið bar svo við að ég hló upphátt við lestur nýjasta yfirklórs milljarðamæringsins Kristjáns Loftssonar. Fagnaðarerindi sprengjuóða gamlingjans hljóðar sumsé svona: „Með því að hætta veiðum á langreyði er verið að auka á magn koltvísýrings í andrúmsloftinu sem er andstætt stefnu íslenskra stjórnvalda, ábendingum Sameinuðu þjóðanna og markmiðum Evrópusambandsins um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið“.
Þessu sjónarmiði sínu til fulltingis hefur milljarðamæringurinn munstrað doktor nokkurn í efnafræði til að renna frekari stoðum undir þessa speki hans. Þessum ágæta verktaka tókst síðan að reikna út að hver langreyður losar: „...um 56 tonn af koltvísýringi á ári með blæstri sínum sem er það sama og losun 31 bíls sem ekur 14.000 km á ári og eyðir sex lítrum af jarðefnaeldsneyti á hundraðið“.
Satt að segja vona ég að efnafræðingurinn hafi fengið nóg af silfurpeningum til að réttlæta þetta viðvik sitt.
Reyndar segir sá frómi maður að til frádráttar komi: „...sá úrgangur sem hver langreyður lætur frá sér, en það er m.a. nitur með saur en aðallega þvagi. Það frumefni er líklegast talið til að hafa takmarkandi áhrif í sjónum við Ísland á vöxt þörunga. Jafngildir þessi hugsanlega binding vegna úrgangsefna um 28 tonnum af koltvísýringi á ári, sem þó er talið ofmat, að því er fram kemur í skýrslunni.“
Þetta er einhver sú hjákátlegasta smættun efnishyggjumanns, sem ég hef séð og er þó af mörgu að taka. Vistkerfi hafsins er óendanlega flóknara en þessi þvættingur þeirra félaga.
Aukinheldur framreikna þeir kumpánarnir ágæti þess fyrir loftslagsvána, að það beri að sprengja sem flestar langreyðar til að sporna gegn hlýnun jarðar. Gott ef það mætti ekki færa rök fyrir því að þá gætu nokkur skemmtiferðaskip siglt til Íslands í samræmi við stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.
Samkvæmt þessum forsendum mætti gagnálykta að best færi ef kapítalistarnir fengju að sprengja sem flest spendýr, hvort heldur er til sjávar eða sveita, bílum og skemmtiferðaskipum til heilla.
Ég vona svo sannarlega að Sjálfstæðisflokkurinn fylgi þessu erindi eins helsta styrktaraðila síns alla leið, til að hnekkja tímabundnu banni við hvalveiðum.
Smán hans verður mikil.
Athugasemdir (3)