Tillaga um að slíta viðskiptum við Íslandsbanka var samþykkt af stjórn VR á fundi á miðvikudag, 16. ágúst. Mun félagið leita tilboða í viðskipti sín og þjónustu hjá öðrum fjármálafyrirtækjum, að því er segir í tilkynningu.
Stjórn VR fordæmdi í lok júní viðbrögð Íslandsbanka við þeim brotum sem starfsmenn hans urðu uppvísir að við útboð á um fjórðungs hlut ríkisins í bankanum. Taldi stjórnin brotin með öllu óásættanleg. Í yfirlýsingu stjórnarinnar kom fram að hún teldi söluna vera „áfellisdóm yfir öllum sem að henni komu“ og stjórnvöld bæru ábyrgð á niðurstöðunni. Þau hafi ákveðið að einkavæða bankann „í trássi við þjóðarvilja.“
Kallaði stjórn VR eftir því að gerðar yrðu breytingar á bankakerfinu og skoruðu á stjórnvöld að falla frá frekari áformum um sölu á eignarhlut í Íslandsbanka.
„Ef þetta verður niðurstaðan að það sé bara nóg að fórna bankastjóranum og viðhorf stjórnar sé með þeim hætti að hún telji bara hinn eðlilegasta hlut að brjóta af sér, þá náttúrlega getum við ekki stundað viðskipti við bankann,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR í samtali við Vísi við þetta tilefni. Sagði hann VR vera með milljarða í eignarstýringu og viðskiptum við Íslandsbanka og aðra aðila. „Þetta eru miklar fjárhæðir. Við erum langstærsta stéttarfélag landsins og við erum með mjög umfangsmikla starfsemi og mjög stóra sjóði í stýringu,“ sagði Ragnar.
Allir stjórnendur Íslandsbanka sem komu að útboðinu hættu störfum í sumar. Er Atli Rafn Björnsson, sem stýrði fyrirtækjaráðgjöf bankans í fjögur ár lét af störfum í byrjun júlí sagði bankastjórinn Jón Guðni Ómarsson að þar með hefðu allir þeir stjórnendur sem stýrðu verkinu og komu að því „vikið úr sínum störfum og þannig axlað ábyrgð“.
Þá gáfu þrír stjórnarmenn Íslandsbanka, þeirra á meðal formaður og varaformaður, ekki kost á sér í stjórnarkjöri sem fram fór í sumar.
Í tilkynningu sem stjórn VR sendi frá sér í dag, þar sem ákvörðun um að flytja viðskipti til annarrar fjármálastofnunar, segir að viðbrögð Íslandsbanka og svör forsvarsmanna hans við kröfum félagsins hafi verið ófullnægjandi.
Hvaða kröfur voru þetta? Það væri gott fyrir venjulega sparifjáreigendur að vita hvaða kröfur þeir geta gert til bankanna. Eða eru ekki allir viðskiptavinir jafnir?