Oft og iðulega fáum við fréttir af hörmulegum aðstæðum fólks á Íslandi; börnum sem búa við fátækt, fólki sem vinnur fulla vinnu en á samt ekki til hnífs og skeiðar og mjög svo bágri stöðu fólks sem tekur örorku- og lífeyrisgreiðslur. Þau sem starfa hjá hjálpar- og félagasamtökum eru óþreytandi í að deila þeim veruleika sem þau verða vitni að í gegnum skjólstæðinga sína. Hið sama á við um forystufólk innan verkalýðshreyfingarinnar en síðast en alls ekki síst er það fólkið sjálft sem eru búnar slíkar aðstæður sem stígur í enn ríkara mæli fram og lýsir eigin raunveruleika sem er svo mörgum hulinn.
Vörðu – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins hefur frá stofnun verið falið að varpa ljósi á veruleika launafólks á Íslandi og sérstök áhersla hefur verið lögð á að kannanir stofnunarinnar nái til alls launafólks, innan aðildarfélaga ASÍ og BSRB, og að staða ólíkra hópa sé greind. Almennt er erfiðara að ná til innflytjenda* en innfæddra í spurningakönnunum en kannanir Vörðu hafa hins vegar náð mjög vel til þess hóps. Auk spurningakannana hefur stofnunin gert rýnihóparannsóknir til að ná fram dýpri þekkingu á reynsluheimi innflytjenda.
Staða innflytjenda og fólks með erlendan bakgrunn
Niðurstöður Vörðu sýna ítrekað það sama. Staða innflytjenda er mun verri en annarra hópa, að einstæðum foreldrum undanskildum, hvort heldur sem litið er til fjárhagsstöðu eða heilsu. Í nýjustu könnun Vörðu, sem lögð var fyrir í febrúar og mars á þessu ári, var í fyrsta skipti greind sérstaklega staða fólks með erlendan bakgrunn** þ.e. þau sem eru fædd á Íslandi en eiga annað eða báða foreldra sem eru fædd erlendis. Niðurstöðurnar sýna svo ekki verður um villst að staða fólks með erlendan bakgrunn er einnig verri en innfæddra þó hún sé ekki jafn slæm og innflytjenda. Í ljósi gríðarlegrar fjölgunar innflytjenda á Íslandi, sem er afsprengi mikillar þarfar á vinnumarkaði fyrir fleira starfsfólk, er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir stöðu þessara hópa.
„Niðurstöður Vörðu sýna að staða fólks með erlendan bakgrunn er verri en þeirra sem eru innfædd.“
Meiri menntun en verri lífsskilyrði
Fjöldi innflytjenda hefur aukist mikið á stuttum tíma en lýðfræðileg samsetning hópsins í heild er mjög ólík því sem við á um innfædda, sérstaklega hvað varðar aldur og menntun. Mikill meirihluti innflytjenda er 50 ára eða yngri (89% samanborið við 57% innfæddra) en það á sömuleiðis við um fólk með erlendan bakgrunn (68%). Mun hærra hlutfall innflytjenda er með stúdentspróf (26% samanborið við 16% innfæddra) og menntun á háskólastigi (41% samanborið við 24% innfæddra) en menntun fólks með erlendan bakgrunn svipar frekar til innfæddra, þrátt fyrir lægri aldur. Sömuleiðis er gríðarlegur munur á í hvaða atvinnugreinum innflytjendur starfa samanborið við innfædda. Ákveðnar atvinnugreinar eru nánast bornar uppi af innflytjendum en það á meðal annars við um ræstingar, mötuneyti og veitingahús, matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og farþegaflutninga.
Hinn „dæmigerði“ innflytjandi
Það skiptir máli hvernig lífi þeim er gefinn kostur á sem koma hingað til lands til að starfa í mannaflsfrekum atvinnugreinum þar sem skortur er á starfsfólki. Ef dregin er upp mjög einfölduð mynd af lífsskilyrðum „meðal“ innflytjenda á Íslandi í samanburði við innfæddan einstakling má gefa sér að hún líti nokkurn veginn svona út:
Manneskjan er með mikla menntun, ung, búsett á höfuðborgarsvæðinu (63% innflytjenda á móti 56% innfæddra), er á almennum leigumarkaði (56% á móti 11%), býr við þunga byrði af húsnæðiskostnaði (54% á móti 27%), á erfitt/mjög erfitt með að ná endum saman (26% á móti 16%), getur ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar (44% á móti 36%), býr við efnislegan skort (15% á móti 8%) og hefur þurft að taka smálán (14% á móti 5%). Manneskjan hefur ágæta líkamlega heilsu (53% á móti 50%) en slæma andlega heilsu (45% á móti 30%) og hefur ítrekað á síðastliðnu ári orðið fyrir réttindabrotum á vinnumarkaði (26% á móti 11%). Þessar aðstæður hafa ekki eingöngu áhrif á lífsskilyrði einstaklingsins heldur einnig barna hans. Innflytjendamæður og -feður eru mun líklegri til að hafa ekki efni á kostnaði vegna félagslífs barna sinna, eins og að fara í bíó eða afmæli til vina (23% á móti 12%), afmælis- eða jólagjöfum fyrir börnin sín (26% á móti 10%), nauðsynlegum fatnaði (24% á móti 12%) og kostnaði vegna skólaferðalaga eða annarra viðburða í skóla, til dæmis öskudagsbúningi eða sérstöku nesti (11% á móti 4%).
Börn innflytjenda
Þau lífsskilyrði sem birtast í niðurstöðum könnunar Vörðu þegar staða innflytjenda er greind hafa nú þegar, og munu að óbreyttu, birtast í stöðu annarrar kynslóðar innflytjenda til framtíðar. Niðurstöður Vörðu sýna að staða fólks með erlendan bakgrunn er verri en þeirra sem eru innfædd. Þannig er hærra hlutfall þeirra sem á erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman (20% á móti 16%), getur ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar (44% á móti 36%), býr við efnislegan skort (13% á móti 8%) og hefur þurft að taka smálán (12% á móti 5%) og önnur skammtímalán á síðastliðnum 12 mánuðum (18% á móti 13%). Sömuleiðis er andleg heilsa þeirra verri (35% á móti 30%) auk þess sem þau hafa í meira mæli orðið fyrir réttindabrotum á vinnumarkaði á síðastliðnu ári (21% á móti 11%).
Verri staða innflytjenda hlýtur að vekja áhyggjur af stéttaskiptingu og afleiðingum jaðarsetningar og fátæktar. Ójöfnuður, fái hann að viðgangast, hefur ekki aðeins neikvæð áhrif á einstaklinga heldur alvarlegar langtímaafleiðingar fyrir samfélagið í heild. Fólk með erlendan bakgrunn er fætt á Íslandi og hefur gengið í gegnum íslenskt skólakerfi á sama hátt og innfædd börn. Það er sjálfsögð krafa að þau njóti tækifæra til sams konar lífskjara og innfædd skólasystkin þeirra.
Oft er vitnað í frásagnir þeirra sem búa við fátækt og óboðlegar aðstæður á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar þegar barist er fyrir betri kjörum bæði í viðræðum við atvinnurekendur og stjórnvöld. Töluleg gögn um stöðu innflytjenda og fólks með erlendan bakgrunn renna stoðum undir þessar frásagnir um verri fjárhagsstöðu, húsnæðisstöðu og líðan. Frásagnir innflytjenda í rýnihópaviðtölum lýsa jaðarsetningu, skertu aðgengi að stofnunum samfélagsins og tungumálakennslu. Til þessara þátta verður að líta þegar unnið er að betri lífskjörum, hvort heldur sem það er við kjarasamningsborðið eða í aðgerðum stjórnvalda.
Einstæðir íslenskir foreldrar eru yfirleitt með frændgarð kringum sig sem innflytjendur eru ekki.