Ef þú þyrftir að svara spurningunni, hver eru þín mestu auðæfi í lífinu, hverju myndir þú svara? Hvert og eitt okkar leggur gildismat á hvað það er sem skiptir okkur máli og ekki eru til rétt eða röng svör. Eru það börnin, fjölskyldan, heimilið, hundurinn, heilsan, peningarnir eða eitthvað allt annað?
Rannsóknir benda til þess að hærri laun haldist í hendur við aukna hamingju, en bara upp að ákveðnu marki. Það virðist því vera til ákveðinn þröskuldur á áhrifum peninga á vellíðan. Heimildin spurði fólk á förnum vegi hver væru þeirra mestu auðæfi í lífinu. Ekkert þeirra sagði peningar né taldi að hægt væri að kaupa hamingju með peningum.
Lífsgæðakapphlaup ungmenna
Ragnheiður Jóna Leirdal Aðalsteinsdóttir, 49 ára, segir hamingju vera eitthvað sem maður finnur í hjartanu.
Hver eru þín mestu auðæfi í lífinu?
Fjölskyldan, hún stendur mér næst. Börnin mín, foreldrar, systkini og maki að sjálfsögðu.
Heldurðu að það sé hægt að kaupa hamingju með peningum?
Klárlega ekki, aldrei.
Af hverju?
Þetta er bara eitthvað sem þú finnur í hjartanu þínu, að þú getir ekki keypt gleðina og kærleikann. Þú kaupir það ekki með peningum.
Finnst þér mikið lífsgæðakapphlaup á Íslandi?
Já, frekar mikið.
Hvernig birtist það?
Þar sem við erum hérna í Kringlunni þá birtist það í því að unga fólkið okkar, sérstaklega, er að eltast við tískustrauma og það sem áhrifastjörnur eru að auglýsa.
Þarft að eiga fyrir reikningum
Mestu auðæfi Helgu Þórsdóttur, 54 ára, er sonur hennar.
Hver eru þín mestu auðæfi í lífinu?
Það er sonur minn því að hann auðgar líf mitt og auðgar heiminn.
Heldurðu að það sé hægt að kaupa hamingju?
Nei, það held ég ekki.
Af hverju?
Vegna þess að ég held að þú getir haft það þægilegra en ég held að þú getir ekki keypt þér hamingju. Rannsóknir sýna líka fram á það að hamingjan eykst ef þú lifir þægilegra, sem sagt átt þægilega mikið af peningum. En ef þú átt meira en það, þá jafnvel getur það orðið til þess að þú ert minna hamingjusamur.
Þannig að þú þarft ekkert rosa mikið til að vera hamingjusamur?
Nei, en þú þarft að eiga fyrir reikningunum til þess að vera hamingjusamur.
Finnst þér vera lífsgæðakapphlaup á Íslandi?
Já, það finnst mér. Skelfilegt.
Hvernig birtist það?
Það birtist í því að … til dæmis á samfélagsmiðlum þar sem allir eru að sýna frá nýja sófanum sínum og nýja stóra, stóra sjónvarpinu sínu og nýja stóra, stóra, stóra húsinu. Og það sem er á Smartlandi þar sem Jón og Gunna eru að kaupa 200 milljóna króna hús og svoleiðis. Ég hugsa alltaf bara, hvaða fólk er þetta?
Það þurfa allir allt
Einar Páll Bjarnason, 79 ára, segir fjölskylduna sína vera sér allt.
Hver eru þín mestu auðæfi í lífinu og af hverju?
Fjölskyldan. Af því að hún er mér bara allt.
Heldurðu að það sé hægt að kaupa hamingju með peningum?
Nei, það held ég ekki. Þú verður að skapa þér hana á annan hátt.
Finnst þér mikið lífsgæðakapphlaup á Íslandi?
Já, mjög mikið.
Hvernig birtist það?
Ja, bara það þurfa allir að eiga allt og kaupa allt.
Fyrsta íbúðin
Ólöf Ingibjörg Jónsdóttir er 23 ára og nýbúin að kaupa sér sína fyrstu íbúð.
Hvað er það dýrmætasta í þínu lífi og af hverju?
Dýrmætasta í mínu lífi er vinnan mín. Það er gott að hafa hana og svo líka var ég að eignast íbúð þannig að hún er líka svo dýrmæt fyrir mig.
Var það stórt skref að kaupa fyrstu íbúðina?
Já, rosalega.
Heldurðu að það sé hægt að kaupa hamingju með peningum?
Það er bara ekki hægt.
Af hverju?
Af því að fólk getur verið svo einhvern veginn ... það er bara hægt að kaupa hana með knúsi eða eitthvað svona.
Dóttirin það besta
Kjartan Kjartansson, 76 ára, og Þórunn Skjaldardóttir, 65 ára, eru þakklát fyrir dóttur sína.
Hver eru þín mestu auðæfi í lífinu?
Þórunn: Dóttir mín.
Af hverju?
Það gekk illa að fæða hana og ég kann alltaf meira og meira að þakka fyrir það að hún skyldi lifa af.
En þín, Kjartan?
Það sama. Í sambandi við stelpuna.
Hvað er stelpan gömul?
Þórunn: Hún er 43 ára. En það er sama, hún er samt alltaf litla barnið mitt.
Haldið þið að peningar geti keypt hamingju?
Bæði: Nei alls ekki.
Af hverju?
Þórunn: Mér hefur nú fundist eins og fólk sem á nógan pening, að það sé ekki nógu hamingjusamt sko. Ég veit ekki út af hverju en það sem maður kannast við og sér, það er ekki alveg nógu ánægt með það sem það hefur.
Athugasemdir