Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Bardagi frá því fyrir 125 milljón árum endurvakinn: Réðust spendýr þá á risaeðlur?

Flest­ir trúa því að þang­að til risa­eðlurn­ar dóu út hafi spen­dýr ver­ið fá og smá og hald­ið sig í fel­um af ótta við hinar ráð­andi eðlur. Tvær beina­grind­ur sem ný­lega voru grafn­ar upp í Kína afsanna það

Bardagi frá því fyrir 125 milljón árum endurvakinn: Réðust spendýr þá á risaeðlur?
Dýrin tvö, læst í bardagastellingu í dauðanum.

Dýrið var banhungrað. Síðan drunur og skjálftar byrjuðu í fjallinu fyrir ofan dalverpið, þar sem dýrið bjó, höfðu flestöll þau litlu kvikindi sem það lifði á látið sig hverfa. Einhverra hluta vegna hafði þetta unga dýr ekki fylgt í kjölfar þeirra en nú var hungrið farið að sverfa illilega að. Dýrið leit illskulega í kringum sig. Bólstur steig upp frá fjallinu en það var ekki í bili fyrirbrigði sem dýrið hafði áhuga á. Það varð umfram allt að finna eitthvað að éta.

Allt í einu sá dýrið eðlu í svolítilli laut fyrir framan sig. Þetta var einn grasbítanna sem höfðu verið í hundraðatali í dalnum en höfðu flúið hávaðann í fjallinu undanfarna daga. Þessi hafði orðið eftir einhverra hluta vegna. Kannski var eitthvað að, svo hún hafði ekki fullan styrk til að flýja.

Dýrið fann hungrið svella upp í sér. Eðlan var greinilega ung en þó þrisvar sinnum þyngri og meira en helmingi lengri en dýrið og undir venjulegum kringumstæðum hefði það hikað við að ráðast á hana. Þessi grasbítur hafði vissulega ekki beittar tennur, eins og dýrið, en gæti þó kramið það undir sér ef fyrsta atlagan misheppnaðist.

Í þetta sinn hikaði dýrið þó ekki. Það tók á rás að eðlunni og stökk upp á bakið á henni og reyndi að ná með vígtönnunum að hreistruðum hálsinum. En þó eðlan væri kannski ekki upp á sitt besta náði hún að snúa upp á sig svo dýrið missti af hálsi hennar. Það náði samt að bíta sig fast í brjóst eðlunnar og það fór að blæða. Eðlan hrein hástöfum, hringaði sig upp og bylti sér fram og til baka er hún reyndi í ofboði að losa sig við litla dýrið sem hékk fast á því bæði með tönnum og klóm.

Psittacosaurus lujiatunensimá segja að hafi verið einskonar kindur Krítartímans. Dýrin höfðu í raun þessa þræði upp úr hala sínum

Það virtist komin upp pattstaða. Myndi eðlan ná að hrista af sér dýrið eða tækist dýrinu að hanga nógu lengi til þess að kraftar eðlunnar seytluðu burt með blóði hennar? Þetta gæti tekið langan tíma.

En tíma höfðu dýrin tvö ekki. Ógurleg druna heyrðist í fjallinu rétt eftir að átök þeirra hófust en þau hirtu ekki um það — enda um lífið að tefla fyrir þau niðri í dalverpinu. Þau lágu enn um stund í sínum blóðugu faðmlögum og hvorugt vildi gefa sig. Þau tóku því ekkert eftir vaxandi dyn í lofti.

Og allt í einu helltist yfir þau sjóðandi brennandi glóandi heitt öskuský frá fjallinu sem hafði farið niður hlíðarnar á örskotshraða. Þetta var sams konar öskuflóð og helltist löngu síðar yfir borgina Pompeii við Napólí-flóa. Dýrið hafði ekki tíma til að losa tennurnar úr rifjahylki eðlunnar; en henni vannst ekki tími til að rétta úr sér. Logandi askan gleypti þau og drap á augabragði og síðan hurfu þau á kaf í þykkt öskulagið.

Og hvíldu þar og steingerðust í 125 milljónir ára.

En fyrir skömmu voru þau grafin upp, eðlan og dýrið, enn í sínum hinstu faðmlögum; enn voru tennur dýrsins læstar í brjósti eðlunnar.

Repenomamus robustus.Áður hafa fundist leifar af litlum risaeðluungum í maga dýra af þessari tegund sem sýnir að það hefur ráðist og unga nýskriðna úr eggi. En aldrei áður hafa fundist sannanir fyrir því að spendýrið hafi ráðist á nærri fullvaxta dýr.

Núna nefnist staðurinn þar sem dýrin háðu sitt síðasta stríð Liaong-hérað í Kína og eldfjallið ógurlega sem hellti eimyrju sinni yfir þau er nánast horfið. Ár og veður hafa malað það nánast mélinu smærra, svo nú er það bara sakleysislegt fell, vinur allra lífvera.

Kanadíski steingervingafræðingurinn Jordan Mallon, sem starfar við Náttúruvísindasafnið í Ottawa, stýrði rannsókn á steingervingunum frá Liaong-héraði en niðurstöður hennar birtust á dögunum í tímaritinu Scientific Reports. Og skemmst er frá því að segja að þær niðurstöður gætu orðið til að breyta allmjög mynd okkar af þróun og uppruna spendýra í veröldinni.

Þessu hér höfum við lengst af trúað:

Risaeðlan í samanburði við mann.

Spendýr komu fram á sjónarsviðið fyrir rúmlega 250 milljónum ára. Þá réðu skriðdýrin hins vegar ríkjum á Jörðinni og að lyktum „risaeðlurnar“ eða dínósárusarnir (sem vissulega voru af öllum stærðum) og í nærri 185 milljónir ára voru spendýrin ekki annað en hrædd og lítilmótleg smádýr sem skutust um í lággróðrinum og áttu líf sitt undir því að gráðugar risaeðlurnar kæmu ekki auga á þau.

Þau reyndu því fyrir alla muni að láta ekki á sér bera. Önduðu varla þegar eðlurnar voru nærri.

Það var ekki fyrr en fyrir 66 milljónum ára, þegar loftsteinn small niður á Yucatan-skaga og útrýmdi risaeðlunum á skammri stundu, sem spendýrunum tók að vaxa fiskur um hrygg og þau þróuðust hratt á nýrri framabraut.

En eins og Mallon bendir á, þá segir steingervingurinn frá Lioang aðra sögu.

Báðar þessar tegundir þekktum við áður.

Risaeðlan er af tegundinni Psittacosaurus lujiatunensi. Þær voru grasbítar og á stærð við litla geit, nema lágfættari. Sú Psittacosaurus-eðla sem grófst undir eldinum í Lioang var líklega unglingur, altént ekki alveg fullvaxin, en þó 120 sentimetrar að lengd.

Spendýrið tilheyrði tegundinni Repenomamus robustus og var á stærð við kött. Þetta tiltekna dýr var líka á unglingsaldri en 47 sentimetrar að lengd.

Jordan Mallon:Hann segir ekki koma til mála að litla risaeðlan hafi verið dauð og spendýrið hafi verið að háma í sig hræ. Beinin sýni greinilega að snarpur bardagi tveggja lifandi dýra var í fullum gangi þegar öskuflóðið helltist yfir.

Og það sem Mallon og félögum þykir merkilegt við hinn steinrunna bardaga Psittacosaurus og Repenomamus er að hingað til hefur ekki hvarflað að vísindamönnum að spendýr gæti hafa haft bein í nefinu til að ráðast á þrisvar sinnum stærri og þyngri eðlu. Og væntanlega hefur dýrið ætlað sér að éta eðluna; illt er ímynda sér nokkra aðra ástæðu fyrir árásinni.

Það má að vísu láta sér detta í hug að Psittacosaurus kunni að hafa komið að Repenomamus við að ræna eggjum eðlunnar og ráðist að og dýrið þá varið sig, en ekkert við steingervingana eða steingert umhverfi þeirra bendir þó til þess.

Líkegast er einfaldlega að dýrið hafi talið sig ráða við eðluna.

Og það breytir myndinni af hinum smeyku spendýrum að fela sig sífellt í lággróðinum að eltast við pöddur og murrandi smákvikindi ýmis.

Kannski voru þessir forforeldrar okkar bara miklu borubrattari en við héldum.

Svona leit heimurinn út þegar bardaginn átti sér stað.Rauða stjarnan sýnir hið núverandi Liaoning-hérað í Kína.
Kjósa
17
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (4)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • PH
    Pétur Halldórsson skrifaði
    Þetta er skrýtin grein. Hún ber þess merki að hafa verið þýdd með Google Translate og svo lagfærð en alls ekki nógu vel. Frekar léleg blaðamennska. En efnið er áhugavert.
    0
    • Illugi Jökulsson skrifaði
      Nei, Pétur. Greinin er mjög, mjög langt frá því að þýdd. Það hryggir mig að þú skulir slá slíku fram. Nú má vel vera að fyrir kröfuharða lesendur eins og þig sé hún ekki nógu góð. En ástæðan er þó ekki sú að hún sé þýdd. Hafðu það svo gott.
      0
  • TL
    Trausti Leósson skrifaði
    áhugaverð grein
    1
  • SSS
    Sigurjón Smári Sverrisson skrifaði
    Látum vera að þú hafir hætt með spurningarnar.
    En í öllu bænum aldrei hætta með flækjusögurnar.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
1
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
Rak 90 prósent starfsfólks fyrir að skrópa á morgunfund
3
Fréttir

Rak 90 pró­sent starfs­fólks fyr­ir að skrópa á morg­un­fund

Bald­vin Odds­son, ung­ur ís­lensk­ur at­hafna­mað­ur, rat­aði ný­ver­ið í frétt­ir í Banda­ríkj­un­um fyr­ir að reka 99 starfs­menn úr sprota­fyr­ir­tæki sem hann stofn­aði og rek­ur. Fram­kvæmda­stjór­inn mun hafa ver­ið ósátt­ur við slaka mæt­ingu á morg­un­fund, þar sem að­eins ell­efu af 110 starfs­mönn­um meld­uðu sig, og til­kynnti þeim sem voru fjar­ver­andi að þau væru rek­in.
Selja aðgang að bílastæðum við Laugardalshöll á 5.990 krónur
5
Fréttir

Selja að­gang að bíla­stæð­um við Laug­ar­dals­höll á 5.990 krón­ur

Bíla­stæð­in næst Laug­ar­dals­höll­inni verða frá­tek­in fyr­ir þau sem eru til­bú­in að borga hátt í 6 þús­und krón­ur fyr­ir að leggja bíl­um sín­um þar á með­an tón­leik­arn­ir Jóla­gest­ir Björg­vins fara fram á laug­ar­dags­kvöld. Hluti stæð­anna sem Sena sel­ur að­gang að standa á landi Reykja­vík­ur­borg­ar við Engja­veg, ut­an lóð­ar­marka Laug­ar­dals­hall­ar­inn­ar.
Ísrael og Palestína: „Stjórnvöld sem líkja má við mafíur“
6
Viðtal

Ísra­el og Palestína: „Stjórn­völd sem líkja má við mafíur“

Dor­rit Moussai­eff er með mörg járn í eld­in­um. Hún ferð­ast víða um heim vegna starfs síns og eig­in­manns­ins, Ól­afs Ragn­ars Gríms­son­ar, þekk­ir fólk frá öll­um heims­horn­um og hef­ur ákveðna sýn á við­skipta­líf­inu og heims­mál­un­um. Hún er heims­kona sem hef­ur í ára­tugi ver­ið áber­andi í við­skipta­líf­inu í Englandi. Þessi heims­kona og fyrr­ver­andi for­setafrú Ís­lands er elsku­leg og elsk­ar klón­aða hund­inn sinn, Sam­son, af öllu hjarta.

Mest lesið í mánuðinum

Við erum ekkert „trailer trash“
1
VettvangurHjólhýsabyggðin

Við er­um ekk­ert „trailer trash“

Lilja Kar­en varð ólétt eft­ir gla­sa­frjóvg­un þeg­ar hún bjó á tjald­svæð­inu í Laug­ar­daln­um og á dög­un­um fagn­aði dótt­ir henn­ar árs af­mæli. Af­mæl­is­veisl­an var hald­in í hjól­hýsi litlu fjöl­skyld­unn­ar á Sæv­ar­höfða, þar sem þær mæðg­ur búa ásamt hinni mömm­unni, Frið­meyju Helgu. „Okk­ar til­finn­ing er að það hafi ver­ið leit­að að ljót­asta staðn­um fyr­ir okk­ur,“ seg­ir Frið­mey, og á þar við svæð­ið sem Reykja­vík­ur­borg fann fyr­ir hjól­hýsa­byggð­ina.
Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
2
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
„Þetta er eins og að búa í einbýlishúsi“
4
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Þetta er eins og að búa í ein­býl­is­húsi“

Berg­þóra Páls­dótt­ir, Bebba, hef­ur un­un af því að fá gesti til sín í hjól­hýs­ið og finnst þetta svo­lít­ið eins og að búa í ein­býl­is­húsi. Barna­börn­in koma líka í heim­sókn en þau geta ekki far­ið út að leika sér í hjól­hýsa­byggð­inni í Sæv­ar­höfð­an­um: „Þau skilja ekki af hverju við vor­um rek­in úr Laug­ar­daln­um og sett á þenn­an ógeðs­lega stað.“
Tilnefnd sem framúrskarandi ungur Íslendingur en verður send úr landi
6
Fréttir

Til­nefnd sem framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur en verð­ur send úr landi

Til stend­ur að hin sýr­lenska Rima Charaf Eddine Nasr verði send úr landi. Hún var á dög­un­um ein af tíu sem til­nefnd voru til verð­laun­anna Framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur í ár. Til­nefn­ing­una fékk hún fyr­ir sjálf­boða­liða­störf sem hún hef­ur unn­ið með börn­um. Hér á hún for­eldra og systkini en ein­ung­is á að vísa Rimu og syst­ur henn­ar úr landi.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár