1. Fimm þúsund smokkar á Húnaveri
Haldnar voru þrjár útihátíðir um verslunarmannahelgina í Húnaveri á árunum 1989-91 á vegum Jakobs Frímanns Magnússonar og Stuðmanna. Sú fyrsta er frægust þeirra, en þar mættu alls 7-8 þúsund manns. Blaðamaður Tímans lýsti útihátíðinni svoleiðis: „Stanslaus tónlist í þrjá og hálfan sólarhring. Drukknir unglingar, sofandi, dansandi, hlæjandi, í famlögum;skríðandi vafrandi, grátandi, leitandi. Rusl, endalaust rusl, fjúkandi pappír, bjórdósir, gosdósir, gosflöskur, vínflöskur.“ Hátíðin var einnig þekkt fyrir smokkaþurrð, en á föstudegi hátíðarinnar sagði Jakob Frímann að búið væri að selja fimm þúsund smokka og verið væri að senda eftir meiri birgðum.
2. Rauðhetta 1977
Útihátíðin Rauðhetta var haldin þrisvar yfir verslunarmannahelgi á árunum 1976-78, en hún var skipulögð af skátahreyfingunni. Fyrsta hátíðin var fjölmennust, en þar mættu um sex þúsund manns. Samkvæmt Glatkistunni var skemmtunin sögð vera áfengislaus, en lítið væri þó um eftirfyglni og ekki leitað að áfengi á ungum gestum, „sem margir skemmtu sér dauðadrukknir.“ Í Dagblaðinu stóð einnig að hátíðin 1977 hafi farið fram vel, „þrátt fyrir mikla vætu útvortis sem innvortis.“ Þar var einnig sagt frá ýmsum keppnum sem áttu sér stað á hátíðinni, þar á meðal maraþonskossakeppni, þar sem sigurvegararnir voru í sleik í rúman klukkutíma uppi á sviði.
3. Húsafellshátíðin
Ungmennasamband Borgarfjarðar hélt sumarhátíð í Húsafellsskógi um verslunarmannahelgina á árunum í kringum 1970. Frægust þeirra var hátíðin árið 1969, þar sem talið er að aðsóknin hafi náð upp í 20 þúsund manns. Þar spiluðu meðal annars hljómsveit Ingimars Eydal og Trúbrot, sem titluð var „vinsælasta unglingahljómsveitin um þessar mundir“ af blaðamanni Tímans. Morgunblaðið sagði að hljómsveitirnar á hátíðinni hefðu verið „svo góðar að margir unglingar gleymdu að dansa en stóðu bara og hlustuðu.“ Blöðin voru sammála um að hátíðin hafi tekist vel, þrátt fyrir tölur um á að þriðja hundrað hefðu verið „teknir úr umferð“ og sex tjöld hafi brunnið.
4. Saltstokk
Ekki var jafnvel fjallað um Saltvíkurhátíðina sem fór fram á Kjalarnesi um hvítasunnuhelgina árið 1971. Hátíðin sótti fyrirmynd sína til Woodstock-hátíðarinnar í Bandaríkjunum og var því oft kölluð Saltstokk. Að baki hátíðinni stóð Æskulýðsráð Reykjavíkur og talið er að um 10 þúsund manns hafi sótt hana. Þar léku meðal annarra Trúbrot, Ríó Tríó, Roof Tops og Árni Johnsen, en samkvæmt blaðaumfjöllunum um Saltvíkurhátíðina var þar „almenn ölvun“ og talað um „litla sjálfsstjórn ungmenna.“ Ekkert aldurstakmark var á hátíðina sjálfa, en samkvæmt einum aðstandenda hennar tók tónleikadagskráin mið af smekk fjórtán ára unglinga.
5. Smíðakennarinn í Atlavík
Útihátíðin í Atlavík í Hallormsstaðarskógi var haldin yfir verslunarmannahelgina árin 1980-1985, en að henni komu Stuðmenn og Ungmenna-og íþróttasamband Austurlands (UÍA). Frægust þeirra er útihátíðin árið 1984, en þá kom Bítillinn Ringo Starr og tók lagið með Stuðmönnum. Ringo sagðist líka vel við sig meðal heimamanna, en frægt er þegar Íslendingur kom upp að honum og spurði hvort bítillinn hefði ekki kennt honum smíðar á Eiðum árið áður. Samkvæmt umfjöllun DV komu yfir 6000 manns til Atlavíkur það árið og var þar „brjálað fjör og mikil ölvun.“
6. Viðeyjarhátíðin 84
Á sama tíma og Ringo mætti til Atlavíkur 1984 var haldin útihátíð í Viðey þar sem margar helstu hljómsveitir landsins á þeim tíma tróðu upp. Hátíðin var þó talin vera eitt stórt klúður, en hennar er minnst sem „veislunnar sem aldrei varð,“ sökum fámennist. Búist var við 2500 gestum, en rétt tæplega 400 manns mættu. Samkvæmt umfjöllun DV um málið skrifast fámennið bæði upp á rok og rigningu sem var í Viðey á þeim tíma sem og komu Ringo Starr á Hallormsstað.
7. Eiðar 1993-1994
UÍA hélt svo aftur útihátíð á Eiðum á Héraði árin 1992 og 1993, þar sem Ringo Starr átti að hafa kennt smíðar. Þar komu meðal annars fram Jet Black Joe, Nýdönsk og GCD, en fjöldi tónleikagesta var þó mun minni en í Atlavík áratugi fyrr og talið er að hann hafi ekki náð yfir tveimur þúsundum. Í samtali við Kjarnann sagði Jónas Þór Jóhannsson, skipuleggjandi hátíðarinnar, að erfiðlega hafi gengið að fá fólk úr Reykjavík, bæði sökum kostnaðar og samkeppni við aðrar útihátíðir víðs vegar um landið.
8. Fyrsta rave-ið
Sú hátíð sem veitti Eiðum ef til vill hvað mesta samkeppni var útihátíðin Eldborg á Kaldármelum 1992. Henni var lýst sem íþrótta-og fjölskylduhátíð, en þar komu meðal annars fram SSSól, Nýdönsk og Hemmi Gunn. Meðal nýjunga á hátíðinni var þó sérstakt „rave-tjald,“ þar sem raftónlist var spiluð í botni. Hátíðin var svo endurtekin aftur árið 2001, en hún var öllu umdeildari og þekktust fyrir fjölda nauðgunar-og fíkniefnamála sem komu upp á borð lögreglu vegna hennar.
9. Uxi 95
Önnur umdeild hátíð var haldin árið 1995 á Kirkjubjæjarklaustri og bar heitið UXI ’95. Þar komu fram erlendar stórstjörnur á borð við Björk, Prodigy og Aphex Twin, en ekki hafði þekkst að bjóða svona stórum númerum á tónleika yfir verslunarmannahelgi áður. Í fjölmiðlum varð hátíðin hins vegar þekkt fyrir áfengis- og eiturlyfjanotkun og þurftu nokkrir að leita til læknis vegna E-pilluneyslu.Lögreglan á Suðurlandi þótti hins vegar ekki mikið um lyfjaneyslu á svæðinu og sagði fíkniefnasala hafa hreinlega horfið af svæðinu vegna þess að enginn hafi viljað kaupa neitt frá þeim. Svipmyndir frá UXA má sjá hér að ofan.
10. Halló Akureyri
Á Akureyri var sex verslunarmannarhelgar í röð haldin hátíðin Halló Akureyri, á milli áranna 1994 og 1999. Fjöldi hátíðargesta fór vaxandi með árunum, allt frá 5 þúsund árið 1994 upp í 15 þúsund árið 1999. Hátíðin var þá mikið gagnrýnd fyrir unglingadrykkju og lagðist af því af. Samkvæmt grein í DV voru heimamenn afar gagnrýnir á mikinn drykkjuskap og ólæti aðkomumanna, en það leiddi til þess að engin frekari leyfi voru gefin til svo umfangsmikils skemmtanahalds innan bæjarmarkanna. Því var engin útihátíð haldin í bænum árið 2000, en ári eftir það kom svo hátíðin Ein með öllu, sem enn er haldin fyrir norðan.
Athugasemdir