Hann læddist aftan að mér og var búin að lita alls konar skoðanir um sjálfið í of dökkum litum. Ég fann að skaðræðisöflin hörmungarhyggja, heilsukvíði og afkomuótti höfðu öll tekið sér sterkt skáldskaparleyfi í viðmótslitlum huga mínum og búið til hugsanaskekkjur sem voru að skerða lífsgæði mín. Ég var aðframkomin af streitu og fann að ég þurfti að kúpla mig út úr daglegu amstri, ná slökun og endurræsa sjálfa mig.
Ég lagðist í rannsóknarvinnu. Ég fann heilsuhótel í pólskum þjóðgarði og setti stefnuna á tveggja vikna dvöl. Það var eins og það slökknaði á streitunni þegar ég kom í skóginn. Þarna voru tuttugu metra há tré með mikilfengleg vænghöf sem virtust halda kirfilega utan um mig og halda áreitunum frá. Ég andaði léttar og heyrði betur í sjálfri mér. Engin samfélagsmiðlaáreiti, engir fjölmiðlar, engin umferðarhljóð og engar kvaðir né kröfur. Þarna var enginn samanburður eða samkeppni. Þetta var vistkerfi sem nærði mig. Staður gróandans.
Fólk hvaðanæva að úr heiminum var þarna samankomið með sama ásetning. Það fylgdi því ákveðin fegurð. Ég fór á yfirmáta hollt mataræði, lokaði samfélagsmiðlum, takmarkaði netnotkun og byrjaði að hreyfa mig. Orkan var engin í fyrstu en óskin til að ná aftur yfirhöndinni yfir þessu órökrétta ástandi var sterk. Fyrstu dagana voru tilfinningarnar á yfirsnúningi og ég átti í mesta basli við að átta mig á hverjar voru þýðingarmiklar og hverjar voru leifar af drasli og dusilmönnum. Ég var örmagna.
Ég áorkaði litlu en þegar dagar liðu fann ég skýrleika hugsana minna koma sterkt til baka. Ég fann mig aftur í hljóðinu, náttúrunni og einfaldleikanum og sór þess eið að halda tangarhaldi í skýrleikann og sjálfa mig þegar heim var komið. Þar reyndist hins vegar vandinn liggja.
Félagslegt vistkerfi okkar á undir högg að sækja
Vistkerfi vísar til svæðis þar sem lífverur tengjast hver annarri og umhverfi sínu á einn eða annan hátt. Vistkerfi vísar til heildar sem leitar ávallt í átt að einhvers konar jafnvægi og aðlagar sig með því markmiði að breyttum skilyrðum. Allt hefur áhrif á allt. Félagslegt vistkerfi (félagskerfi) vísar til fjölmargra einstaklinga sem hafa samskipti sín á milli samkvæmt sameiginlegum menningarviðmiðum og merkingum. Allar lífverur þurfa vatn, súrefni, næringu, skjól, sólarljós og hæfilegt hitastig. Manneskjan þarf þar að auki félagslega tengingu, nánd, staðfestingu á tilvist og tilgang til að þrífast í sínu vistkerfi. Hér vandast málið.
Ég las nýverið um þekkta menn í þjóðfélaginu sem sögðu sér ofboðið vegna stórmennskulegrar efnishyggju ungdómsins og frægðarfíklanna hérlendis. Sér í lagi hversu frjálslega og sjálfsagt þau flögguðu henni í gegnum samfélagsmiðla. Athugasemdakerfi og samskiptamiðlar fóru á flug og margir töluðu um mátt áhrifavalda, sjúklega sjálfhverfu smáhrifavalda og fjarstæðuleika fráhrifavalda. Ég fór í kjölfarið að velta fyrir mér félagslegu vistkerfi okkar og áhrifum þess á mannveruna. Er óhófleg efnishyggja í rafheimum að skyggja sýn, afvegaleiða og gera okkur vansæl í raunheimum?
Siðfræðingurinn og heimspekingurinn dr. Henry Alexander Henrysson segir hins vegar að ekki sé hægt að tala um aukna efnishyggju í nútímasamfélagi og varar siðapostulana við að henda allri ábyrgð á áhrifavalda. Plássfrekju og athyglissýki efnishyggjunnar má einnig rekja til fjölmiðla, sem með umfjöllun sinni skapi ákveðið gildismat sem fólk síðan venjuvæði sem viðmið.
Ég fór í kjölfarið að velta fyrir mér tíðni áfengis- og eiturlyfjaneyslu í íslensku samfélagi. Hún virðist umtalsverð. Einnig rýndi ég í tölur frá VIRK og öðrum samtökum. Samtök á borð við þessi sérhæfa sig í að hjálpa fólki þegar lífið og afleiðingar af áföllum skapar ástand sem getur orðið fólki ofviða eða jafnvel hættulegt. Við eigum mörg svoleiðis samtök hérlendis. Óháð því hvar ábyrgðin liggur þá lítur það út fyrir að okkur líði ekkert sérstaklega vel. Einnig virðumst við mörg vera að eiga við sömu kvilla, þ.e. kvíða, þunglyndi og streitu.
Í bók sinni Lost Connections segir Johann Hari að félagslega vistkerfið sem manneskjan hefur skapað sé ekki lengur að koma til móts við þarfir hennar og að þunglyndi og kvíði sé rökrétt afleiðing af rangstilltum heimi. Við erum orðin vansæl. Samfélagið okkar er orðið gegnumsýrt af sjúklegum samanburði, samkeppni, samkenndarskorti og stjórnlausri sjálfhverfu. Mannkostaskorturinn er orðinn áþreifanlegur. Fjandsamleg ummæli á netinu og andfélagsleg hegðun gagnvart jaðarsettum hópum styðja þá fullyrðingu. Óskiljanlegur stríðsrekstur stórvelda með sjúklega sjálfhverfu, hatursfull aðför að dragdrottningum sem vilja lesa bókmenntir fyrir börn og það að trans fólk þarf að berjast fyrir tilvistarrétti sínum einkennir siðferðislega hnignun okkar þetta misserið. Við virðumst stundum hafa misst sjónar á því sem skiptir máli og því sem viðheldur siðferðislegri framþróun heildarinnar. Sumir gætu sagt að við séum orðin að auðveldlega afvegaleiddri hjörð sem stýrist af órökréttum ótta. Við erum t.d. orðin ofur upptekin af því að fegra raunheim í gegnum rafheima. Við málum raunveruleika okkur með völdum skjáskotum, filterum sem breyta útliti okkar, upphefjum skaðlegar geðþóttaskoðanir og aðhyllumst eitraða jákvæðni í yfirlýsingum. Allt þetta og meira til getur leitt til þess að þrautseigja okkar skerðist og viðnám okkar gagnvart því sem þarfnast athygli okkar til betrunar bættum heimi bregst. Við sofnum á verðinum og verðum af því sem við gætum lært af og leitt frá.
Raunheimar og rafheimar
Streitan sem fylgir því að búa samtímis í raunheimi og rafheimi getur valdið tegund okkar mikilli vanlíðan. Við virðumst ekki ná sameiginlegri sýn á það sem skiptir máli. Margt villir um sýn. Mergð og máttur ýmissa áhrifavalda í rafheimum er að hafa skaðleg áhrif á sálarheill okkar. Þeir setja sól þar sem á að vera skýjað.
Margir hverjir eru að venjuvæða ofsafengna neyslu, viðmið og lífsstíl sem fæstum er fært að lifa eftir. Flestir hérlendis lifa frá launatékka til launatékka. Ímyndin sem verið er að reyna að selja okkur í gegnum filterssmurða samfélagsmiðla og upphafning þess í gegnum fjölmiðla gerir í raun stórmennskulegt gys að raunveruleika þorra þjóðarinnar. Það er ekki í lagi. Við erum farin að þrífast á óhóflegri athygli þeirra sem þekkja okkur ekki neitt. Við erum í vanda stödd. Við þurfum að fara aftur í grunnstoðirnar, endurmennta okkur í mannkostum og finna aftur sameiginleg gildi samfélagi okkar til framdáttar.
„Streitan sem fylgir því að búa samtímis í raunheimi og rafheimi getur valdið tegund okkar mikilli vanlíðan.“
Orðið vistheimt kemur til hugar. Endurheimt vistkerfa er ferli sem hjálpar skemmdu vistkerfi að ná bata. Tilgangurinn er að koma náttúrulegum hringrásum aftur af stað svo að vistkerfið geti haldið áfram að gróa. Samkennd og ósérplægni eru t.d. stórir og veigamiklir þættir í hringrás farsæls félagskerfis. Áreitislaus einfaldleiki kallar og grænn er litur gróandans í mannssálinni líkt og í náttúrunni. Við viljum þrífast í samfélagi samtímans í stað þess að verða skugganum að bráð.
Aftur í grunninn
Mannkostir eru eiginleikar sem fólk telur gjarnan að það búi sjálfkrafa yfir og þurfi ekki að leggja neina rækt við. Sannleikurinn gæti ekki verið fjarri lagi en er í takt við sjálfhverfu samtímans. Mannkostir eru eiginleikar sem prýða eftirsóknarverða manneskju. Sterk tilfinningavitund, tilfinningalæsi, ósérplægni og hvatastjórn eru undirstöður mannkosta og forsendur velferðar, hamingju og heilbrigðra samskipta allra einstaklinga í bæði lífi og starfi.
Kristján Kristjánsson, prófessor í heimspeki, er aðstoðarforstjóri Jubilee stofnunarinnar í Bretlandi og er þar einn helsti drifkraftur rannsókna á sviði siðferðisuppeldis og mannkostamenntunar. Kristján leggur áherslu á mikilvægi mannkostamenntunar í æsku þar sem áhersla er lögð á þrautseigju, sjálfsaga og þolgæði, og enn fremur siðferðislegar dyggðir á borð við: Góðvild, réttlætiskennd, hluttekningu, umhyggju, þakklæti og mikilvægi tilfinningalegra og siðferðislegra innlita í eigin vitund.
Hér er mikilvægara að huga að breyttri hegðun í ríkri einveru fremur en auglýsa góðverk í gegnum miðla og gjaldfella þar með innihald þeirra.
Taugakerfi okkar rær lífróður í vesælu vistkerfi
En aftur að kvíðapúkanum í mér. Ég fór að lesa mér til, tala við fólk og fræðast. Það virðist vera að samfélag sem styður við vansælt taugakerfi með stöðugu streituástandi, nærir sjúklegan samanburð, afneitar alvarleika áfalla, býður upp á óholl áreiti og framleiðir depurð og skaðlegan kvíða með óraunhæfum viðmiðum um lífsins venjur geti gert það að verkum að taugakerfið okkar getur orðið vanstillt og til vandræða. Sympatíski hlutinn af taugakerfinu, þ.e. drifkerfið okkar, getur orðið ofurnæmt og ráðandi.
Margar rannsóknir hafa sýnt fram á skaðsemi þess að vera með drifkerfið ráðandi og sífellt í viðbragðsstöðu. Við verðum yfirspennt og alltaf á verði. Virkni og vökul augu. Þetta ástand var frummanninum eðlislægt þegar hætta steðjaði að, og síðan gekk það yfir og jafnvægi náðist að nýju. Hins vegar hefur hættutilfinning flætt inn í ótal rými og samskipti í nútímasamfélagi sem hefur sett af stað hálfgerða kerfisvillu í taugakerfinu okkar með tilheyrandi vanlíðan og vanvirkni.
Hættuástand verður sífellt og viðvarandi. Það er kominn vírus í hugbúnaðinn. Taugakerfið er ekki forritað til þess að meta hættur í ástarsamböndum, í fjölskyldum, á vinnustað, á netinu eða í einveru en þannig vistkerfi höfum við skapað og nærum ötullega með m.a. staðreyndafælni, gerendameðvirkni, gaslýsingu, skorti á gagnrýnni hugsun og flótta yfir í rafheima.
Lokaorð
Þegar ég var í sálfræðinni var okkur kennt að flestar sálrænu meinsemdir mannsins ættu uppruna sinn í félagslegri, sálrænni og líffræðilegri hringiðu veruleika okkar. Erfitt væri að benda á eina orsök. Við vitum í dag að efnafræðilegt ójafnvægi er ekki lengur eina ástæða sjúklegrar vanlíðunar. Félagslegt umhverfi okkar getur skipt sköpum þegar kemur að bata eða skaða.
Að fara aftur í grunninn virðist vera óumflýjanlegt. Það er í raun nauðsynlegt í heimi þar sem við virðumst sífellt vera að venjuvæða og verðlauna sjálfhverfa hegðun. Aukin sameiginleg vitund okkar um mikilvægi mannkosta, orsakir sálrænna kvilla og áhrifamátt miðla er eitthvað sem getur breytt okkur í átt að bata. Einstaklingshyggjan skyggir sem stendur sterkt á félagshyggjuna í nútímasamfélagi og margir einstaklingar, samfélagsmiðlar og fjölmiðlar styrkja þann skugga. Sjálfhverfan dansar skömmustulaust og enginn talar um nýju fötin keisarans. Í svona umhverfi er hætt við að röddin manns þagni og að sjálfsvitundin eyðist upp. Ég finn sterka þörf til að hverfa aftur í skóginn.
Athugasemdir