Jarðskjálftar á Reykjanesskaga vegna yfirvofandi eldgoss við Fagradalsfjall hafa vart farið fram hjá landsmönnum búsettum á höfuðborgarsvæðinu og þar í kring. Nokkur þúsund skjálftar hafa mælst síðan þriðjudaginn 4. júlí og hafa Almannavarnir lýst yfir óvissustigi á Reykjanesskaga vegna þessa. Erfitt er að spá nákvæmlega fyrir um það hvort og hvenær gos hefst en mismikil eftirvænting var hjá þeim sem Heimildin ræddi við í tengslum við skjálftana.
Minnir á Alaska
Terry Roudenbush og eiginmaður hennar Jim verða á Íslandi næstu tvær vikur og hræðast ekki mögulegt gos.
Fannstu fyrir jarðskjálftum í gær Terry?
„Já, við fundum fyrir þeim. Þetta var fyrsti dagurinn okkar hér og við fundum fyrir þeim allan daginn.“
Hafið fundið fyrir jarðskjálftum áður?
„Já. Við bjuggum í Alaska fylki og það er svipað. En þetta voru margir skjálftar.“
Hvernig leið ykkur?
„Ég vonaði að þeir yrðu ekki kröftugri,“ segir Terry og hlær.
Ertu hrædd við eldgos?
„Við fórum í gönguferð með leiðsögumanni í gær sem sagði að þau væru ferðamanna væn.“
Aðspurð hvort að hjónin myndu framlengja ferðina ef gosið færi af stað segja þau litlar líkur á því. „Við höfum séð eldfjall gjósa þannig að það yrði ekki það sérstakt, svo ég held ekki,“ segir Jim.
Gæti gosið
Síðast gaus í Fagradalsfjalli fyrir tveimur árum en þá var kraftmesti jarðskjálftinn 5.8 stig. Borghildur Sigurðardóttir fann fyrir nokkrum jarðskjálftunum í gær.
Finnst þér þú vön því að finna fyrir jarðskjálftum?
„Já eiginlega, maður kippir sér ekki mikið upp við það lengur.“
En veistu hvað þú átt að gera ef það kemur stór skjálfti?
„Já, ég þykist vita það. Svo er ekkert víst að ég viti það þegar á hólminn er komið.“
Heldurðu að það sé að fara að gjósa?
„Ég hef alveg eins trú á því já.“
Einhver að lemja vegg
Julie er frá Boston borg í Massachusetts fylki í Bandaríkjunum. Hún ætlar að vera á Íslandi í fimm daga.
Hefurðu einhvern tímann fundið fyrir jarðskjálfta?
Bara einu sinni, kannski fyrir fjórum árum síðan.
Í Boston?
Já í Boston.
Fannstu einhverja jarðskjálfta í gær?
Ekki yfir daginn en við höldum að við höfum mögulega fundið einn í gærkvöldi. Við vorum ekki alveg viss því að við höfum svo litla reynslu af þeim.
Hvernig var það?
Við héldum að það væri einhver að lemja á veggina en núna vitum við að kannski var þetta jarðskjálfti.
Yrðirðu hrædd ef það kæmi eldgos?
Já, örugglega. Við vitum ekki hverju við eigum að búast við. Við höfum aldrei veið með eldfjöll í Massachusetts.
Heldurðu að þú myndir framlengja dvöl þína á Íslandi til þess að fylgjast með eldgosinu?
Örugglega ekki. Nei, við myndum vilja fara heim.
Fundu ekki neitt
Finnsku ferðalangarnir Domi og Suviva verða á Íslandi í viku og lentu í gær. Domi segir þau ekki hafa fundið neitt heldur hafa sofið eins og ungabörn vegna þess hve rólegt og hljóðlátt er í kringum þau.
Vissu þið að það er stutt í eldgos?
„Nei, þetta eru nýjar upplýsingar fyrir okkur,“ segir Suviva.
Yrðuð þið hrædd ef fjallið myndi gjósa?
Suviva svarar: „Ég veit það ekki, þetta eru sérkennilegar aðstæður. Ég hef enga reynslu, þannig að við vitum ekki… kannski en ég geri ráð fyrir að við yrðum vel upplýst ef það gerðist.“ Domi segist ekki hræddur við gos og parið efast um að þau myndu framlengja dvöl sína til þess að fylgjast með mögulegu gosi.
Betra á Íslandi en Ítalíu
Luana er upprunalega frá Ítalíu en búsett á Íslandi. Jarðskjálftar geta haft svakalegar afleiðingar og hún segir það ekkert skemmtiefni á Ítalíu að finna skjálfta.
Hefurðu fundið fyrir jarðskjálftum áður?
Já, því miður. En já, hér finnst mér ég öruggari því ég veit að það er í lagi með byggingarnar og að ég þarf ekki að hlaupa út úr húsinu ef þeir koma eða eitthvað slíkt.
Fannstu einhverja jarðskjálfta í gær?
Já, bæði þegar ég var heima og svo í vinnunni.
Hvernig lætur það þér líða að finna skjálfta?
Í byrjun var ég miklu hræddari en núna er ég eiginlega… ég vil ekki segjast vera vön þeim en ég veit að það er allt í lagi. Það er eiginlega ó! Næstum því spennandi. Eitthvað til að deila og… já ég vona að þeir verði ekki verri.
Yrðirðu spent ef það færi að gjósa?
Já, vonandi verður þetta vinalegt gos eins og síðast. Vonandi verður þetta í lagi.
Heldurðu að þú sért byrjuð að venjast jarðskjálftum því að þú býrð á Íslandi eða er þetta alltaf spennandi?
Miklu betra hér. Ég er frá Ítalíu og trúðu mér þegar þú heyrir að það sé jarðskjálfti þá er það ekkert skemmtilegt. Hér er þetta öðruvísi. Ég veit ekki af hverju. Kannski því að fólk er vant því eða því að byggingarnar eru byggðar öðruvísi. Ég meina, það er ólíklegra að það verði tjón. Ég hef ekkert séð gerast síðasta árið við byggingar jafnvel þó það séu búnir að vera miklir jarðskjálftar á ýmsum svæðum.
Það er því tvennt ólíkt að vera á Íslandi og Ítalíu?
Já það er gott að vera hér því að það tekur hræðsluna því að þú þarft ekki að pakka dótinu þínu, fara í bílinn og sofa einhvers staðar. Eitthvað svoleiðis.
Vaknaði við skjálfta
Kristrún Heimisdóttir segist orðin vön skjálftum eftir síðustu ár.
Fannstu fyrir einhverjum jarðskjálftum í gær?
Ja, ég vaknaði í fyrrinótt við eitthvað sem var rosalega skrítið en það var svo langt síðan að það hafði verið jarðskjálfti að ég fattaði ekki strax að þetta hefði verið það. En svo bara sá ég að það hefði verið heilmikill jarðskjálfti og það var það sem vakti mig.
Hvernig líður þér þegar þú finnur jarðskjálfta?
Maður er náttúrulega orðin svo vanur þessu frá því á síðustu árum. En æi það er nú ósköp gott að losna við þetta af það væri hægt en ég býst nú ekki við því að það verði.
Hefurðu miklar áhyggjur af gosi?
Ég hef ekki miklar áhyggjur af gosi en auðvitað er þetta að sumu leyti ógnvænlegt og maður er svona uggandi yfir því að þetta geti verið eitthvað alvarlegt. En þetta virðist vera á því svæði að þetta nær ekki til byggða neins staðar þannig að maður huggar sig við það.
Athugasemdir