Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Birna Einarsdóttir: Bankastjórinn sem lýsti sér sem auðmjúkri en kvaddi með eitraðri pillu

Að­eins á fimmta sól­ar­hring leið milli þess sem Birna Ein­ars­dótt­ir lýsti því að hún nyti trausts stjórn­ar Ís­lands­banka og hefði ekki hugs­að sér að láta af störf­um sem banka­stjóri þar til til­kynn­ing um starfs­lok henn­ar barst, um miðja nótt. Á sín­um tíma lýsti Birna bónu­s­kerf­um bank­anna sem „glóru­laus­um“ en fékk þó sjálf á fimm ára tíma­bili um 35 millj­ón­ir í bónusa frá bank­an­um. Þá sem kall­að höfðu eft­ir að höf­uð henn­ar yrði lát­ið fjúka kvaddi hún með því að óska þeim „velfarn­að­ar í þeirra störf­um“.

<span>Birna Einarsdóttir:</span> Bankastjórinn sem lýsti sér sem auðmjúkri en kvaddi með eitraðri pillu
Í skjóli nætur Tilkynning um brotthvarf Birnu úr bankastjórastóli var send um miðja nótt. Mynd: Heimildin / Davíð Þór

Fimmtán ára bankastjóratíð Birnu Einarsdóttur hjá Íslandsbanka lauk um miðja nótt síðastliðinn miðvikudag, sem og störfum hennar hjá bankanum sem höfðu staðið samfleytt í nítján ár, og vel á þriðja áratug í heild sinni. Niðurstaða Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um að alvarleg og kerfisbundin lögbrot hefðu verið framin við sölu á hlut ríkisins í bankanum, á vakt Birnu, var meira en hægt var að una við. Og það þrátt fyrir yfirlýsingar Birnu sjálfrar aðeins fáeinum dögum fyrr um að hún hefði ekki leitt hugann að því að hætta, að sátt fjármálaeftirlitsins væri traustsyfirlýsing í hennar garð og að hún nyti trausts innan bankans og myndi gegna starfi sínu þar áfram. Þær yfirlýsingar eltust ekki vel.

Kúlulánið sem klúðraðist

Birna hóf störf í Íslandsbanka fyrst árið 1994 og hafði starfað þar samfleytt frá árinu 2004, þó bankinn héti um tíma Glitnir. Hún var framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Glitnis þegar bankinn hrundi, eins og önnur fjármálafyrirtæki, árið 2008. Þá stöðu fékk hún sumarið 2007 og með starfinu fékk hún kúlulán upp á 185 milljónir króna, til kaupa á hlutabréfum í bankanum. „Þegar Bjarni Ármannsson [þáverandi forstjóri Glitnis] bauð mér lánið var ég mjög upp með mér og leið eins og verið væri að aðla mig og ég væri aðalmanneskjan.“ Mistök við afgreiðslu lánsins urðu hins vegar til þess að það gekk aldrei í gegn, og Birna eignaðist aldrei hlutabréf í Glitni. Hún skuldaði bankanum því aldrei kúlulánið, fékk ekki arð af hlutbréfum og hagnaðist ekki á málinu.

„Þetta voru fáránleg starfskjör“
Birna Einarsdóttir
um kúlulánaveitingar til starfsmanna

Samt sem áður vakti hin fyrirætlaða lánveiting tortryggni og umræðu þegar Birna tók við sem bankastjóri Íslandsbanka í október 2008, eftir að ríkið tók bankann yfir í hruninu. Í viðtalið í DV 24. júlí 2009 sagði Birna að hún væri ekki hlynnt kúlulánaveitingum til starfsmanna fjármálafyrirtækja. „Ég get alveg gagnrýnt gjörninginn; það að þetta væri hluti af launakjörunum var ekki heppilegt, þetta voru fáránleg starfskjör.“

Þessi fáránlegu starfskjör, sem voru hluti af bónuskerfum bankanna og Birna lýsti síðar sem svo að hafi verið „glórulaus“, urðu enda bankanum dýrkeypt. Greint var frá því í fréttum í byrjun júní 2010 að afskrifa ætti kúlulán níu þáverandi starfsmanna Íslandsbanka, lán uppá ríflega fjóra milljarða króna. Umrædd lán voru veitt af Glitni árið 2008, til einkahlutafélaga umræddra starfsmanna, og voru hluti af því sem kallað var tryggða- og hvatakerfi Glitnis. Þeir starfsmenn sem um ræðir voru starfandi hjá Íslandsbanka á þessum tíma en voru þó fjarri því allir þeir starfsmenn Glitnis sem fengið höfðu kúlulán með svipuðum hætti. Birna var bankastjóri bankans á þessum tíma.

Rétt að „umbuna fyrir rétta hegðun“

Í viðtali við Viðskiptablaðið 30. júní 2011 sagði Birna að hún myndi svara því játandi að „bónuskerfin fyrir hrun hafi verið glórulaus“. Hins vegar geti árangursdrifin launakerfi verið skynsamleg. „Þar finnst mér aðalatriðið að umbuna fyrir rétta hegðun, þ.e.að aðgerðirnar séu skynsamlegar og leiði til góðs. Þetta er hins vegar útfærsluatriði. Fjármálaeftirlitið er leiðsagnaraðilinn í þessum efnum og það verður að sjálfsögðu farið eftir öllu sem þaðan kemur.“

Hvort sem það voru umrædd árangurstengd launakerfi sem Birna átti við, eða hvað, þá umbunaði bankinn starfsfólki sínu ríflega á næstu árum, umfram reglubundin laun þess. Þar á meðal Birnu.

Þannig skuldbatt bankinn sig til þess árið 2015 að greiða alls 378 milljónir króna í kaupaukagreiðslur, eða bónusa, til starfsmanna sinna. Þar af fékk Birna vilyrði fyrir 7,2 milljóna króna bónus, að því er sagði frá í DV, ofan á árslaun sín sem þá voru 44 milljónir króna. Árið áður, 2014, voru gjaldfærðar árangurstengdar greiðslur í bankanum 358 milljónir króna. Þar af fékk Birna greiddar 4,8 milljónir króna. Árið þar á undan, 2013, náðu greiðslurnar aðeins til framkvæmdastjóra á sviðum bankans. Þá fékk Birna, samkvæmt ársreikningi, greiddar 3,6 milljónir króna í bónusgreiðslur. Ekki voru greiddar bónusgreiðslur í bankanum fyrir þann tíma.

Í janúar 2016 fékk íslenska ríkið síðan bankann í fangið, sem uppgjör á stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda, í framhaldi af nauðasamningssamþykktum þar um við slitabú Glitnis. Hins vegar hafði ekki staðið til að afhenda ríkinu bankann framan af, á árinu 2015, heldur stóðu miklar þreifingar um að selja bankann erlendum aðilum. Meðal annars stóðu yfir viðræður við aðila frá Mið-Austurlöndum og Kína.

Hélt áfram að fá bónusa eftir að ríkið tók yfir bankann

Í júlí 2015 greind­i Morg­un­blaðið frá því að Birna, fram­kvæmda­stjór­ar og stjórn­ar­menn í Íslandsbanka hefðu farið fram á kaupauka í tengslum við nauða­samn­inga og ­mögu­lega sölu bank­ans. Í umfjöll­un ­blaðs­ins kom fram að stjórn­end­urnir hefðu viljað fá allt að eitt pró­sent hlut í bank­an­um, sem yrði um tveggja millj­arða króna virði miðað við bók­fært eigið fé Ís­lands­banka. Stjórn­endur Íslands­banka hafa ætið neitað þess­ari frétt Morg­un­blaðs­ins.

Eftir að bankinn komst í eigu ríkisins voru kaupaukakerfi sem þau sem nefnd eru hér að framan hins vegar aflögð, nema að fenginni sérstakri heimild Bankasýslunnar. Sú framkvæmd tók þó ekki gildi fyrr en 1. janúar 2017. Í ársreikningi Íslandsbanka fyrir árið 2017 kemur fram að árið 2016 hafi Birna fengið greiddar 9,1 milljón króna í árangurstengdar greiðslur og árið 2017 hafi hún einnig fengið greiddan kaupauka, sem áunnist hefði árið 2016 og eftirstöðvar frá 2013, alls 9,7 milljónir króna.

34
milljónir
fékk Birna í bónusa á fimm árum

Á árabilinu 2013 til 2017 fékk Birna því 34,4 milljónir króna greiddar í bónusa, ofan í sín reglubundnu laun.

Þó bónusar sem þessir hafi verið aflagðir hjá bankanum kom það ekki í veg fyrir að Birnu væri umbunað sérstaklega áfram. Í það minnsta gerðist það árið 2021, þegar hún fékk 10,9 milljónir greiddar aukalega vegna yfirvinnu í tengslum við undirbúning útboðs Íslandsbanka og skráningu bankans á markað það ár.

Minna varð úr launalækkuninni en til stóð

Mögulega hefur Birna verið fegin því árið 2017 að eiga von á að fá bónus, umræddar 9,7 milljónir greiddar. Það sama ár stóð nefnilega til lækka reglubundin laun hennar hraustlega, með ákvörðun Kjararáðs. Kjararáði var gert að ákvarða laun hennar eftir að bankinn komst í eigu ríkisins og í janúar 2017 tók ráðið ákvörðun um að lækka árslaun Birnu niður í 25 milljónir króna, því sem næst helminga þau frá því sem verið hafði árið 2016 þegar laun hennar voru 49,1 milljón króna.

Launabreytingin tók þó ekki gildi strax, sökum þess að breytingin jafngilti uppsögn á ráðningarsamningi Birnu, samkvæmt svörum Friðriks Sophussonar stjórnarformanns bankans til Fréttablaðsins. Uppsagnarfrestur Birnu var 12 mánuðir og á þeim tíma skyldi hún halda óbreyttum launum. Rétt eins og líklega er nú, þegar gerður hefur verið við hana starfslokasamningur. Reyndin varð sú að laun Birnu skertust lítt milli ára að krónutölu. Samkvæmt ársreikningi Íslandsbanka fékk hún greiddar 48,3 milljónir króna í laun og hlunnindi en hafði árið áður fengið 51,6 milljónir greiddar.

Birna hafði lýst því á uppgjörsfundi í Íslandsbanka í febrúar 2016 að hún myndi íhuga stöðu sína hjá bankanum ef kjör hennar myndu breytast. Af því varð ekki enda þurfti Birna raunar litlar áhyggjur að hafa af umræddum breytingum, þar eð ný lög um kjararáð tóku gildi um mitt ár 2017. Með þeim fluttist ákvörðunarvald á launum hennar aftur til stjórnar bankans. Raunin var sú að laun Birnu hækkuðu því, allt þar til í nóvember 2018, þegar þau voru lækkuð um rúm 14 prósent, úr um 4,8 milljónum á mánuði í 4,2 milljónir á mánuði. Mun Birna hafa haft frumkvæði að því að laun hennar voru lækkuð.

Eignaðist þó loks í bankanum

Þó kúlulánið sem Birna fékk vilyrði fyrir á sínum tíma hjá Glitni hefði ekki verið afgreitt með réttum hætti, og hún þar með ekki eignast hlut í bankanumm fór það þó hins vegar aldrei svo að Birna eignaðist ekki hlutabréf í bankanum, eða öllu heldur eftirrennara hans, Íslandsbanka. Í tilkynningu til Kauphallar 3. nóvember 2021 kom fram að Birna hefði keypt hlut í bankanum fyrir andvirði um fjögurra milljóna króna. Var hún ein af sjö stjórnendum bankans sem keyptu í honum hlut, alls fyrir 17 milljónir.

Aðstoðaði Samherja við að komast í kynni við ráðherra í Namibíu

Haustið 2011 aðstoðaði Birna útgerðarfélagið Samherja, með óbeinum hætti, við að komast í kynni við ráðamenn í Namibíu. Skipulagði hún hádegisverðarfund með þáverandi stjórnarmanni í Íslandsbanka, Daniel Levin, og feðgunum Þorsteini Má Baldvinssyni og Baldvin Þorsteinssyni, auk þess sem hún sat fundinn sjálf. Á fundinum var ákveðið að Daniel Levin myndi tengja Samherjamenn við þekktan namibískan auðkýfing, Harold Pupkewitz, sem svo tengdi stjórnendur Samherja við sjávarútvegsráðherra Namibíu, Bernhard Esau, með kynningarbréfi um félagið. Rétt er að geta þess að Þorsteinn Már var stjórnarformaður Glitnis banka þegar hann fór í þrot 2008

„Ég skal alveg viðurkenna það að ég var að reyna að ganga í augun á Samherja með þessu“
Birna Einarsdóttir
um milligöngu hennar við að kynna Samherjamenn fyrir namibískum ráðamönnum

Í umfjöllun Stundarinnar um málið, sem birt var í september 2021, kemur fram að Birna hafi átt frumkvæði að því að liðka til fyrir viðskiptum Samherja í Afríku í gegnum áðurnefndan Daniel Levin. Samherji var viðskiptavinur bankans á þessum tíma. Birna lýsti því í Stundinni að henni hafi fundist með því að hafa frumkvæði að umræddum fundi hefði hún verið að veita framúrskarandi þjónustu til viðskiptavinar. „Ég skal alveg viðurkenna það að ég var að reyna að ganga í augun á Samherja með þessu.“

Taka þarf fram að Birna kom ekki með neinum hætti að þeim mútugreiðslum sem Samherji síðan greiddi í Namibíu næstu ár.

Valin viðskiptafræðingur ársins mánuði áður en bankinn greiddi margmilljóna sekt

Í desember árið 2014 var greint frá því að stóru bankarnir allir hefðu gert sátt við Samkeppniseftirlitið vegna rannsóknar þess á samkeppnislagabrotum á greiðslukortamarkaði hérlendis. Þar af greiddi Íslandsbanki 380 milljónir króna, lægstu sektina af bönkunum þremur, sökum þess að bankinn sýndi af sér samstarfsvilja, að því er Birna bankastjóri lýsti í samtali við Kjarnann. „Starfs­menn bank­ans voru í góðri trú um að þetta fyr­ir­komu­lag væri lög­legt og eru engin gögn í mál­inu sem sýna ann­að,“ var þar haft eftir Birnu.

Sama ár, um mánuði fyrr, hafði Birna verið valin viðskiptfræðingur árs­ins af Fé­lagi viðskipta- og hag­fræðinga. Við valið horfði dóm­nefnd meðal ann­ars til þess að Birna hafði leitt upp­bygg­ingu Íslands­banka frá end­ur­reisn hans í lok árs 2008 og að mikið hefði mætt á ís­lensk­um bönk­um meðal ann­ars í að end­ur­vekja til­trú á ís­lensk­um verðbréfa­markaði.

Taldi auðmýkt leiðina

Sem fyrr segir hófst sú vegferð að losa hluti ríkisins í bankanum árið 2021, þegar 35 prósenta hluti var seldur á 55,3 milljarða króna. Sala sem undirvefur Vísis, Innherji, útnefndi sem viðskipti ársins. Þrátt fyrir að ýmsir hefðu velt fyrir sér hvort verðið sem þar fékkst hefði verið nægjanlega hátt.

Í framhaldinu var bankinn skráður á markað, 22. júní 2021, og var gengi bréfa í bankanum við fyrstu viðskipti um 20 prósentum hærra en í útboðsgenginu í apríl sama ár. Rúmum tveimur vikum síðar var Birna til viðtals í Dagmálum Morgunblaðsins þar sem hún lýsti því að stefnt væri að því að ná kostnaðarhlutfalli bankans niður í 45 prósent fyrir árið í ár. Það myndi hins vegar ekki gerast nema með því að fækka starfsfólki. „Við höf­um verið að fækka starfs­fólki af því að það er ekk­ert hægt að tala um kostnaðar­hlut­föll í banka öðru­vísi en að tala um það því það er svo stór hluti okk­ar kostnaðar. Hann hef­ur verið að lækka um yfir 5% á ári. Í okk­ar áætl­un­um er áfram­hald­andi fækk­un en við von­umst alltaf til að geta tekið það út úr starfs­manna­veltu, starfs­menn eru að fara á eft­ir­laun. En auðvitað höf­um við ekk­ert kom­ist hjá því að fara í upp­sagn­ir og höf­um reynt að gera það eins vel og við mögu­lega get­um.“

Birna var til viðtals á vef Mannlífs í upphafi árs 2022. Þar sagði hún að hún hefði komist af í hörðum heimi fjármála með auðmýkt. „Ég held að ég segi nú bara með því að hafa gott fólk í kringum mig og að vera svolítið auðmjúk og, hérna, vinna bæði með starfsmönnum og viðskiptavinum.“

„Farsælasta“ útboðið upphafið að endinum

Þann 22. mars í fyrra fór síðan fram annar hlutinn á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, þar sem 22,5 prósenta hlutur var seldur á 52,65 milljarða til 207 fjárfesta sem heita átti að væru fagfjárfestar. Sala sem nú er þekkt orðin af endemum, jafnvel þó Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar sitji fastur við þann keip að kalla hana „farsælasta hlutafjárútboð Íslandssögunnar“.

Því sem næst strax að loknu útboðinu fóru að heyrast raddir um að maðkur hefði verið í mysunni og nauðsynlegt væri að rannsaka ofan í kjölinn hvernig staðið hefði verið að málinu öllu. Í ljós kom að starfsmenn bankans hefðu keypt í útboðinu, flokkun fjárfesta sem fagfjárfesta var mjög á reiki, auk þess sem í ljós kom að ýmsir þeir sem keypt höfðu áttu tengingar inn í íslenska pólitík, þar á meðal faðir fjármálaráðherra. Sú saga hefur verið rakin ítarlega hér í Heimildinni og er vísað til hennar hér án þess að rekja hana í smáatriðum. Þó verður stiklað á stóru um viðbrögð Birnu og bankans vegna málsins.

Fjármálaeftirlitið hóf rannsókn á mögulegum brotum því sem næst strax, að ósk Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, þess ráðherra sem fór með hlut ríkisins í bankanum og kvittaði undir söluna.

Frummat fjármálaeftirlitsins var kynnt Íslandsbanka í lok árs 2022 og strax í byrjun árs 2023 tilkynnti bankinn til Kauphallar að óskað hefði verið eftir einhliða viðræðum við eftirlitið um að ljúka málinu með sátt. Í Morgunblaðinu 9. janúar var greint frá því að blaðið hefði fengið skriflegt svar frá bankanum um að hvorki banka­stjóri né aðrir starfs­menn muni tjá sig um málið fyrr en sátta­ferlinu yrði lokið.

Ekki ríkti þó algjör þögn á vígstöðvum bankans. Birna var þannig spurð að því af Heimildinni í febrúar síðastliðnum hvaða upphæð bankinn hefði tekið til hliðar til að standa straum af fyrirsjáanlegri fjársekt. „Við höfum ekki gefið það upp,“ sagði Birna þá.

Birna var jafnframt spurð að því til hvaða aðgerða, ef einhverra, hefði verið gripið eftir að frummatið var kynnt, þar á meðal gagnvart þeim starfsmönnum sem ábyrgð bæru á útboðinu eða tóku í því þátt.

„Við erum náttúrulega bara með allt í skoðun í því,“ sagði Birna.

„Hún er að einhverju leyti popúlísk en ég skil hana þó vel“
Birna Einarsdóttir
um kröfu um samfélagslega ábyrgð bankanna

 24. maí síðastliðinn var Birna í viðtali við Viðskiptamoggann, þar sem meðal annars var fjallað um vaxtastig og mögulega greiðsluerfiðleika viðskiptavina bankans. Þar vísaði Birna til umræðu um samfélagslega ábyrgð bankanna, til að mynda meðal stjórnmálamanna. „Hún er að einhverju leyti popúlísk en ég skil hana þó vel,“ sagði Birna þar. Í umræddu viðtali var ekki fjallað um rannsókn fjármálaeftirlitsins eða um útboðið á hlut ríkisins í bankanum.

Sagði sáttina til marks um traust í sinn garð

Það var svo 22. júní sem Íslandsbanki sendi tilkynningu til Kauphallar um að bankinn hyggðist þiggja boð fjármálaeftirlitsins um sátt, og greiða fyrir 1,2 milljarða króna, tæpa. Og vitanlega varð allt vitlaust.

Daginn eftir, 23. júní, kepptust fjölmiðlar við að ná utan um málið, meðal annars með því að ræða við Birnu. Í viðtali við Heimildina sagði hún að í sáttinni fælist traustsyfirlýsing í sinn garð. „Með því að bjóða sátt er fjármálaeftirlitið að sýna stjórn og bankastjóra traust til þess að innleiða þær breytingar sem þarf. Og það er að sjálfsögðu mikilvægt.“

Birna sagði einnig að sektin væri hærri en búist hefði verið við. Ábyrgðin lægi víða en á endanum hjá henni og stjórn bankans. Spurð hvort komið hafi til tals að hún tæki pokann sinn svaraði Birna: „Nei.“

Í viðtali á Vísi sama dag sagði Birna að að sjálfsögðu væri það svo að stjórn, stjórnendur og bankastjóri bæru „mikla“ ábyrgð á daglegum rekstri bankans. Hún var jafnframt spurð hvort hún hefði íhugað að segja af sér vegna málsins. „Nei, ég hef ekki íhugað það.“

Við Morgunblaðið sagði Birna síðan: „Ég nýt trausts inn­an stjórn­ar bank­ans og mun gegna starfi mínu áfram.“

Í frétt Innherja, undirvefs Vísis, sagði Birna svo að sektarfjárhæðin endurspeglaði að fjármálaeftirlitið hafi viljað gefa „ákveðin skilaboð“ út á markaðinn.

Steig brott um nótt

Sáttin var síðan birt 26. júní, og er hún, frómt frá sagt, kolsvört lesning. Fjöldamargar alvarlegar athugasemdir eru í henni við háttsemi Birnu og stjórn bankans, þrátt fyrir yfirlýsingu hennar um að í sáttinni fælist traustsyfirlýsing í hennar garð.

„Umræðan hefur verið óvægin og ýmsum stjórnmálamönnum hefur verið tíðrætt um afsögn mína. Ég óska þeim velfarnaðar í þeirra störfum“
Birna Einarsdóttir
í tilkynningu um að hún væri hætt.

Daginn eftir kom stjórn bankans saman síðdegis til fundar ásamt Birnu. Sá fundur dróst og dróst, og stóð fram á nótt. Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar hafði Birna ekki hug á því að láta af störfum þegar sá fundur hófst, og má rekja hinn langa fundartíma til þess. Það var ekki fyrr en klukkan 03:51 aðfararnótt miðvikudagsins 28. júní sem yfirlýsing frá Birnu var send út, af almannatengslafyrirtækinu KOM, þar sem hún greindi frá því að hún hefði ákveðið að stíga til hliðar sem bankastjóri, með hagsmuni bankans að leiðarljósi og með því axlaði hún ábyrgð á sínum þætti málsins. Í leiðinni sendi hún lítt dulbúna pillu: „ Umræðan hefur verið óvægin og ýmsum stjórnmálamönnum hefur verið tíðrætt um afsögn mína. Ég óska þeim velfarnaðar í þeirra störfum.“

Kjósa
69
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Lárus Andri Jónsson skrifaði
    Var ekki rétt að hún var með 100 miljóna kúlulán sem ekki var greitt við banka hrunið,virðist samkvæmt þessari grein að svo hafi ekki verið ?
    0
  • Ásgeir Överby skrifaði
    Þeim er fæstum gefið sem segja upp í vinnu að full laun í ár eða meir. Þetta gæti verið réttlætanlegt ef verið væri að leggja bankann niður en fráleitt að öðru leyti.
    6
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Salan á Íslandsbanka

Bjarni segir það Alþingi að kenna að hann hafi ekki gætt að hæfi sínu
FréttirSalan á Íslandsbanka

Bjarni seg­ir það Al­þingi að kenna að hann hafi ekki gætt að hæfi sínu

Bjarni Bene­dikts­son, fyrr­ver­andi fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, seg­ir að hann hafi gert ráð fyr­ir bless­un þings­ins á að ekki þyrfti að gæta að hæfi hans gagn­vart hverj­um og ein­um kaup­anda á Ís­lands­banka í mars 2022. Þing­inu hefði átt að vera aug­ljóst að ekki væri hægt að fylgja hæfis­regl­um í sölu­með­ferð­inni sem val­in var. Bjarni sat fyr­ir svör­um á opn­um fundi stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar í dag.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár