„Ég sagði hérna fyrir framan stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í fyrra að þetta væri farsælasta útboð Íslandssögunnar. Ég stend við það.“ Þetta sagði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar í dag. Þar átti hann við lokað útboð á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka sem seldur var á nokkrum klukkutímum fyrir 52,65 milljarða króna þann 22. mars í fyrra. Jón Gunnar bætti við að þetta hafi ekki bara verið „eitt farsælasta útboð Íslandssögunnar, heldur væntanlega eitt af farsælustu hlutafjárútboðum sem átti sér stað í Evrópu á síðustu mánuðum.“
Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, sagði í kjölfarið: „Eins og þið heyrið þá er hann mjög stoltur af útboðinu.“
Jón Gunnar var þar að vísa til ummæla sem hann lét falla á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis 2. desember 2022. Þar sagði hann: „Sala ríkisins á hlut í Íslandsbanka í mars er að mínum dómi farsælasta hlutafjárútboð Íslandssögunnar. Við getum aldrei litið fram hjá því þegar við ákveðum næstu sölu á eignarhlut ríkisins.“
Margháttaðar brotalamir og lögbrot opinberuð
Tilefni fundarins í efnahags- og viðskiptanefnd var sátt sem Íslandsbanki, einn þeirra söluráðgjafa sem Bankasýsla réð til að selja hlutinn, gerði við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands vegna alvarlegra, kerfislægra og margþættra lögbrota sem framin voru í tengslum við útboðið. Sú niðurstaða hefur þegar kostað Birnu Einarsdóttur, sem hafði verið bankastjóri Íslandsbanka frá árinu 2008, starfið auk þess sem Íslandsbanki samþykkti að borga næstum 1,2 milljarða króna sekt vegna lögbrotanna.
Áður hafði Ríkisendurskoðun komist að þeirri niðurstöðu, í stjórnsýsluúttekt sem gerð var opinber í nóvember í fyrra, að fjölmargir annmarkar hefðu verið á söluferlinu. Mikil gagnrýni var sett fram á framgöngu Bankasýslunnar og starfsmanna hennar í því. Niðurstaðan var sú að hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlutinn auk þess sem Bankasýslan hafði ekki haft réttar upplýsingar um eftirspurn þegar ákvörðun um verð og umfang sölu var tekin. Í skýrslunni segir að „upplýsingar til ráðherra í rökstudda matinu voru ónákvæmar bæði hvað varðar fjölda þeirra fjárfesta sem skráðu sig fyrir hlutum og heildarfjárhæð tilboða. Ákvörðun ráðherra byggði því á ónákvæmum upplýsingum.“
Auk þessa stendur yfir athugun umboðsmanns Alþingis á hæfi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við söluna í ljósi þess að félag föður hans var á meðal kaupenda á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Telja sig hafa fullt umboð
Forsvarsmenn Bankasýslunnar voru einnig spurðir út í umboð sitt, í ljósi þess að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hefðu boðað það með yfirlýsingu dagsett 19. apríl í fyrra að stofnunin yrði lögð niður. Lárus svaraði því til að það væri ekki búið að leggja Bankasýsluna niður, þrátt fyrir að langur tími væri liðinn síðan að yfirlýsing formanna stjórnarflokkanna var birt. „Bankasýslan er ennþá í fullu gildi. Það hefur ekkert verið dregið neitt úr hennar hlutverki. Þar með höfum við fullt umboð.“
Fyrir liggur að Bankasýslan kallaði eftir því að hluthafafundur yrði haldinn vegna sáttarinnar sem gerð var við fjármálaeftirlitið. Lárus sagði á fundinum í dag að það væri ekki heppilegt að skipta út allri stjórn bankans á þeim fundi, en hann mun fara fram 28. júlí næstkomandi.
Ef tilgangurinn með þessum gjörningi öllum var að rýra traust almennings á Bben, Bankasýslunni, Íslandsbanka og fjármálakerfinu almennt þá heppnaðist þetta auðvitað fullkomlega.