Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

„Sælir strákar, gaman að hitta ykkur í dag“

Á með­al þeirra al­var­legu lög­brota sem starfs­menn Ís­lands­banka frömdu í tengsl­um við út­boð á hlut ís­lenskra rík­is­ins í bank­an­um var að flokka suma við­skipta­vini sína sem fag­fjár­festa. Slík flokk­un var stund­um fram­kvæmd á nokkr­um mín­út­um og í ein­hverj­um til­vik­um nokkr­um dög­um eft­ir að út­boð­ið var yf­ir­stað­ið. Þá hvöttu starfs­menn Ís­lands­banka al­menna fjár­festa til að óska eft­ir því að fá stöðu fag­fjár­fest­is svo þeir gætu tek­ið þátt í út­boð­inu, sem var ein­ung­is ætl­að hæf­um fjár­fest­um.

Í febrúar 2022 var birt greinargerð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um frekari sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Ein helsta niðurstaða hennar var sú að skynsamlegt væri að næsta skref í sölu á Íslandsbanka væri með lokuðu útboði þar sem einungis hæfir fjárfestar, einnig kallaðir fagfjárfestar, myndu fá að kaupa hluti í bankanum með afslætti. Eftir söluna yrði íslenska ríkið ekki lengur meirihlutaeigandi í Íslandsbanka.

Þann 22. mars sama ár var svo 22,5 prósent hlutur íslenska ríkisins í Íslandsbanka seldur á 52,65 milljarða króna, sem var 2,25 milljörðum króna undir dagslokagengi bankans á söludegi. Alls voru 207 fjárfestar valdir til að fá að taka þátt í kaupunum. 

Til að flokkast sem fagfjárfestir þarf að uppfylla tvö af þremur skilyrðum samkvæmt lögum. Skilyrðin þrjú eru: að hafa átt ákveðið mörg við­­skipti á árs­fjórð­ungi, að fjár­­­­­­­mála­­­­gern­ingar þeirra og inn­­­i­­­­stæður væru sam­an­lagt virði 500 þús­und evra (um 75 milljónir króna) eða meira eða að fjár­­­­­­­festir hafi gegnt eða gegni, í að minnsta eitt ár, stöðu í fjár­­­­­­­mála­­­­geir­­­­anum sem krefst þekk­ingar á fyr­ir­hug­uðum við­­­­skiptum eða þjón­ust­u.

Í skýrslu um sátt sem Íslandsbanki hefur gert við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands vegna lögbrota sem bankinn framdi í tengslum við útboðið, og mun borga tæplega 1,2 milljarða króna í sekt vegna, kemur skýrt fram að starfsmenn Íslandsbanka reyndu ítrekað að flokka einstaklinga sem uppfylltu ekki skilyrði til þess að teljast fagfjárfestar sem slíka, og veita þeim þannig aðgengi að því að kaupa ríkiseign í útboðinu. 

Átta almennir fjárfestar urðu fagfjárfestar

Fjármálaeftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að í átta tilvikum hafi starfsmenn Íslandsbanka náð að flokkað viðskiptavini sína, sem voru almennir fjárfestar, sem fagfjárfesta svo þeir gætu tekið þátt í útboðinu. Í þessum átta tilvikum hafi þeir fjárfestar sem undir voru ekki uppfyllt skilyrði laga til að vera fá þannig flokkun. 

Í skýrslu eftirlitsins kemur enn fremur fram að starfsmenn Íslandsbanka hafi ýmist átt frumkvæði að því að flokka viðskiptavinina með þessum hætti eða hvatt þá til að óska eftir að fá stöðu fagfjárfestis. 

Þessi háttsemi var lögbrot. Einstaklingar sem áttu ekkert erindi við að taka þátt í útboði sem einungis var ætlað fagfjárfestum fengu það samt.

Í skýrslunni er hvert þeirra átta tilvika þar sem fagfjárfestahattur var hengdur á almenna fjárfesta til að tryggja þeim þátttöku í útboðinu rakið nokkuð ítarlega. 

BankastjórinnBirna Einarsdóttir hefur stýrt Íslandsbanka frá árinu 2008.

Fyrsta félagið, kallað Félag A, sótti ekki um stöðu fagfjárfestis fyrr en þremur dögum eftir að útboðið var yfirstaðið, eða 25. mars 2022. Það var því enn flokkað sem almennur fjárfestir þegar það tók þátt í lokuðu útboði sem einungis var ætlað fagfjárfestum.  

Félag A átti aldrei að fá slíka flokkun yfir höfuð. Gögn málsins sýni að Íslandsbanki hafi ekki kannað með fullnægjandi hætti hvort nettó eignir félagsins hafi uppfyllt skilyrði. Þannig hafi til að mynda engin gögn borist um skuldastöðu Félags A. 

Uppfyllti ekkert skilyrði

Saga Félags B var svipuð, en brotin umfangsmeiri. Það undirritaði ekki umsókn um að fá stöðu fagfjárfestis fyrr en þremur dögum eftir útboðið, og var því almennur fjárfestir þegar hlutur ríkisins var seldur. Raunar var það þannig að lögfræðideild Íslandsbanka samþykkt umsókn Félags B með tölvupósti skömmu eftir hádegið þann dag, en þá lá hvorki fyrir undirrituð umsókn um flokkun sem fagfjárfestir né umboð þess sem sóttist eftir þátttöku fyrir hönd eigandans til að taka ákvarðanir fyrir hönd félagsins.

Að mati fjármálaeftirlitsins uppfyllti það ekki neitt af skilyrðunum sem þarf að uppfylla til að teljast fagfjárfestir. 

Sá sem kom fram fyrir Félög A og B lagði líka inn tilboð fyrir Félag C. Líkt og í hinum tilfellunum var sótt um stöðu fagfjárfestis þremur dögum eftir útboðið. Í skýrslunni segir að eigandi félagsins hafi veitt forsvarsmanninum umboð til að taka ákvarðanir um viðskipti með fjármálagerninga félagsins sama dag og umsóknin var lögð inn. Engin gögn fylgdu umsókn félagsins um flokkun sem fagfjárfestir. 

Eignastaða á reiki

Félag D sótti um að verða flokkað sem fagfjárfestir sama dag og útboðið fór fram, 22. mars 2022. Samkvæmt tölvupóstsamskiptum sem áttu sér stað milli lögfræðideildar Íslandsbanka og starfsmanns bankans sem kom að kaupum Félags D í bankanum, sem áttu sér stað milli 19:02 og 19:28 það kvöld, uppfyllti félagið hins vegar ekki skilyrði um fjölda viðskipta sem þarf til að teljast fagfjárfestir. 

Í skýrslunni segir að svo virðist sem Íslandsbanki hafi hins vegar komist að því að félagið uppfyllti skilyrði um eignastöðu án þess að verðgildi fjármálagerninga og innstæðna þess væri tilgreint í umsókninni. „Þau gögn sem málsaðili vísar til um mat á framangreindu skilyrði er vörslureikningur hjá málsaðila. Fjármálaeftirlitið óskaði eftir gögnum og barst einungis hreyfingayfirlit fyrir umræddan vörslureikning. Því liggur ekki fyrir hvaða verðbréfaeign málsaðili miðaði við í mati sínu.“ 

Engin gögn bárust auk þess um skuldastöðu félagsins og virðist hún ekki hafa verið höfð til hliðsjónar við mat á nettó eign félagsins í fjármálagerningum og innstæðum eins og reglur málsaðila kveða á um.

Ekki nógu mörg viðskipti til að teljast fagfjárfestir

Í fimmta tilvikinu sem er tilgreint í skýrslunni er búið að sverta út hluta upplýsinga um viðskiptavininn. Viðkomandi einstaklingur sendi inn umsókn um að teljast fagfjárfestir sama dag og útboðið fór fram og fékk umsóknina samþykkta 48 mínútum síðar. 

SeðlabankastjóriFjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands tók ákvörðun um það á fundi sínum 7. júní síðastliðinn að ljúka málinu með sátt við Íslandsbanka. Í því felst að bankinn greiði tæplega 1,2 milljarða króna sekt til ríkissjóðs.

Í skýrslunni segir að með umsókninni hafi fylgt hreyfingalisti með upplýsingum um töluverð viðskipti með gjaldeyri á árinu 2021. „Á hreyfingarlistanum eru ekki nægilega skýrar upplýsingar um hvort um stundarviðskipti með gjaldeyri sé að ræða eða framvirk viðskipti. Fjármálaeftirlitið bendir á að stundarviðskipti með gjaldeyri teljast ekki til viðskipta með fjármálagerninga og því ekki hægt að leggja slík viðskipti til grundvallar mati á umfangi viðskipta. Viðskiptin sem koma fram á hreyfingalistunum ná ekki viðmiði samkvæmt reglum málsaðila um umfang viðskipta, þ.e. 40 viðskipti sem nema a.m.k. 1 milljón króna hver.“

Fjármálaeftirlitið taldi því viðkomandi ekki uppfylla skilyrði laga um að flokkast sem fagfjárfestir. „Að mati fjármálaeftirlitsins geta upplýsingar sem veittar voru í umsókninni ekki talist nægjanlega ítarlegar til að veita viðunandi vissu um að viðskiptavinur búi yfir nægjanlegri þekkingu og reynslu til að taka sjálfur ákvörðun um fjárfestingar og skilja þá áhættu sem í þeim felst.“

Umsóknir samþykktar á örfáum mínútum

Sjötta tilvikið sem fjallað er um snýr að fjárfesti sem sendi tölvupóst til samstarfsmanns síns sama dag og útboðið fór fram og óskaði eftir því að verða fagfjárfestir. Umsóknin var samþykkt sex mínútum eftir að hún var undirrituð að kvöldi 22. mars. 

Til að uppfylla kröfur um að vera flokkaður sem fagfjárfestir þarf að eiga umtalsverð viðskipti sem eiga að vera að meðaltali að minnsta kosti tíu á hverjum ársfjórðungi næstliðna fjóra ársfjórðunga á viðeigandi markaði. Sá sem hér um ræðir sendi inn upplýsingar um nákvæmlega 40 viðskipta, þar af sex sem voru að fjárhæð 30 þúsund krónur hvert. Viðskipta sem námu yfir einni milljón króna voru einungis 13 á tímabilinu. Þannig var það mat fjármálaeftirlitsins að viðskipti viðkomandi fjárfestis hafi ekki verið nægilega mörg né nægilega umtalsverð til að teljast fagfjárfestir. 

Í tilviki sjö sendi fjárfestir tölvupóst til samstarfsmanna sinna sama dag og útboðið fór fram með ósk um að vera flokkaður sem fagfjárfestir. Umsóknin var samþykkt þremur mínútum eftir undirritun. 

Samkvæmt viðskiptayfirliti sem fylgdi með umsókninni hans kom fram að viðkomandi fjárfestir hefði átt að minnsta kosti 40 verðbréfaviðskipti fyrir eigin kennitölu á árunum 2021 og 2022. Einungis 16 þeirra viðskipta voru hins vegar yfir einni milljón króna. Átta þeirra voru með skráð hlutabréf, fjögur með hlutdeildarskírteini í hlutabréfasjóði og fjögur með hlutdeildarskírteini í lausafjársafni. Fjármálaeftirlitið telur að þau viðskipti uppfylli ekki skilyrði laga til að teljast sem fagfjárfestir. 

Auk þess hafi engar upplýsingar verið lagðar fram sem sýni að nettóeign viðkomandi nái 500 þúsund evrum. 

Í afstöðu fjármálaeftirlitsins segir að við greiningu gagna sem Íslandsbanki lagði fram og matið byggði á voru meðal annars 28 viðskipti með hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum að fjárhæð 15.000 krónur. „Þá eru tvenn viðskipti mjög óvenjuleg að umfangi en um er að ræða kaup á hlutdeildarskírteinum [...] að fjárhæð 27,8 milljónir króna [...] og sala á hlutdeildarskírteinum í sama sjóði. [...] Þessi tvenn viðskipti notar málsaðili til þess að reikna heildarveltu og meðalfjárhæð viðskipta, til rökstuðnings fyrir því hversu umfangsmikil viðskipti starfsmannsins eru á viðeigandi markaði svo hann geti talist fagfjárfestir í öllum viðskiptum þ.m.t. flóknum afleiðum.“

Í áttunda og síðasta tilvikinu sem greint er frá var um að ræða fjárfesti sem óskaði eftir því að vera flokkaður sem fagfjárfestir klukkan 21:10 á útboðsdaginn, og hlaut þá flokkun sex mínútum síðar. Engar upplýsingar var að finna í umsókninni um fjölda viðskipta með fjármálagerninga og á fyrri stigum athugunar eftirlitsins afhenti Íslandsbanki engin gögn til staðfestingar á verðbréfaeign eða innstæðum, né gögn um skuldastöðu og virtist hún ekki hafa verið höfð til hliðsjónar á mati á nettó eign viðkomandi. 

Samandregið var það því niðurstaða fjármálaeftirlitsins að flokkun viðskiptavina Íslandsbanka hafi í átta tilfellum verið framkvæmd án þess að uppfylla að minnsta kosti tvö af þremur skilyrðum sem þarf að uppfylla til að teljast fagfjárfestir samkvæmt lögum. Með því var framið lögbrot. 

Hvöttu almenna fjárfesta til að breyta sér í fagfjárfesta

Enn fremur kemur fram að við yfirferð fjármálaeftirlitsins á tölvupóstum hafi verið ljóst að starfsmenn Íslandsbanka hafi „í allmörgum tilvikum haft frumkvæði að eða hvatt almenna fjárfesta til að óska eftir því að vera flokkaðir sem fagfjárfestar.“

Starfsmenn bankans höfðu samband við 21 viðskiptavin og hvöttu þá til þess að sækja um slíka stöðu til að eiga kost á því að taka þátt í útboðinu. 

Í skýrslunni segir að forstöðumaður hjá Íslandsbanka hafi til að mynda sent tíu viðskiptavinum tölvupóst sem voru flestir svohljóðandi: „Sæl/sæll [nafn forsvarsmanns], Langar að benda þér á neðangreinda umsókn í tengslum við að félagið þitt [nafn fyrirtækis] yrði flokkað sem fagfjárfestir. Bið þig um að skoða það á morgun og hafa samband við [nafn starfsmanns málsaðila] og [nafn starfsmanns málsaðila] (cc-d) til að framkvæma það.“ Tölvupóstarnir voru sendir á milli kl. 21:33 og 23:53 hinn 21. mars 2022.

Afstaða fjármálaeftirlitsins er að Íslandsbanki hafi með þessu haft frumkvæði að því, og jafnvel hvatt til þess, að viðskiptavinirnir sæktu um að fá flokkun sem fagfjárfestir með vísan til fyrirliggjandi málsgagna. 

„Sælir strákar, gaman að hitta ykkur í dag“

Sami forstöðumaður sendi tveimur öðrum viðskiptavinum en þeim tíu sem fjallað er um hér að ofan eftirfarandi tölvupóst 22. mars kl. 00:04: „Sælir strákar, gaman að hitta ykkur í dag þó svo að ég hafi þurft að hlaupa í fyrra fallinu. Þar sem við ræddum aðeins um Íslandsbanka þá skoðaði ég aðeins í kerfin í dag og hjó eftir að félögin ykkar [nafn fyrirtækis] og [nafn fyrirtækis] eru ekki sett upp til að eiga verðbréfaviðskipti hjá bankanum. Hér að neðan eru allar upplýsingar til að setja félögin upp með rafrænum hætti auk þess að sækja um að félögin verði flokkuð sem fagfjárfestir (gerð krafa um það í sumum útboðum). Ekki hika við að hafa samband við [nafn starfsmanns Íslandsbanka] og [nafn starfsmanns Íslandsbanka] (bæði í CC) ef eitthvað er óljóst varðandi uppsetninguna.“ 

„Hér að neðan eru allar upplýsingar til að setja félögin upp með rafrænum hætti auk þess að sækja um að félögin verði flokkuð sem fagfjárfestir“

Afstaða fjármálaeftirlitsins er að Íslandsbanki hafi með þessu haft frumkvæði að því að félögin sæktu um að fá flokkun sem fagfjárfestar með vísan til fyrirliggjandi málsgagna. 

„Kanna hvort hann geti gefið eitthvað meira kjöt á beinin“

Þá sendi sami forstöðumaður sambærilegan tölvupóst á fjármálastjóra viðskiptavinar bankans. Í samskiptum sem áttu sér stað að morgni útboðsdagsins kom fram að viðkomandi viðskiptavinur uppfyllti ekki skilyrði þess að flokkast sem fagfjárfestir. 

Í skýrslu fjármálaeftirlitsins segir að forsvarsmaður félagsins hafi í kjölfarið sent inn umsókn fyrir eigið félag og spurt hvort það myndi uppfylla skilyrði til þess. Forstöðumaðurinn sendi öðrum starfsmanni Íslandsbanka tölvupóst klukkan 19:16 á útboðsdegi og spurði hvort flokkunin væri klár. Starfsmaðurinn svaraði því til að  félagið „uppfyllti hvorki skilyrði um eignir né fjölda viðskipta en eftir samskipti við [nafn forsvarsmanns] þá sendum við inn umsókn fyrir [...] sem á eignir sem uppfylla skilyrðin en ég fæ ekki samþykki fyrir því heldur þar sem færslufjöldinn dugar ekki nægilega til að uppfylla a liðinn og hann uppfyllir ekki heldur starfsreynsluna. Ætla samt að senda á hann línu og kanna hvort hann geti gefið eitthvað meira kjöt á beinin varðandi starfsreynsluna.“

Fjármálaeftirlitið segir að svo virðist sem Íslandsbanki hafi haft frumkvæði að því að viðskiptavinurinn sækti um flokkun sem fagfjárfestir og hafi auk þess hvatt forsvarsmann félagsins til að  leggja fram ítarlegri upplýsingar til að stuðla að því að félagið uppfyllti skilyrði um starfsreynslu á fjármálamarkaði. „Með háttseminni hafi málsaðili hvatt félagið að sækja um stöðu fagfjárfestis með vísan til fyrirliggjandi málsgagna.“

„Uppfæra í fagfjárfesti hið fyrsta“

 Að lokum voru starfsmenn Íslandsbanka í samskiptum við sex viðskiptavini daganna 22. til 25. mars vegna þess að þeir voru flokkaðir sem almennir fjárfestar en þyrftu, að mati starfsmanna bankans, að „uppfæra í fagfjárfesti hið fyrsta“. 

Í einu tilviki voru starfsmenn bankans í sambandi við forsvarsmann viðskiptavinar þann 27. mars, fimm dögum eftir að útboðinu lauk, í gegnum smáskilaboð. Þau voru svohljóðandi: „, afsakið að ég sé að hafa samband svona um helgi :) málið er að [nafn fyrirtækis] þyrfti að klára að fá uppfærslu í fagfjárfesti fyrir uppgjör á morgun. Við getum ekki klárað uppgjörið nema það gerist, því miður. Ég sendi póst á föstudag með umsókninni. Væri ofsa gott að klára sem fyrst :)“

Í símtali starfsmanns Íslandsbanka við samstarfsmann sinn sem sá um afgreiðslu umsókna um breytta flokkun viðskiptavina, og sagt er frá í skýrslunni, sjást dæmi um hvernig staðið var að þeirri breyttu flokkun. 

„ Starfsmaðurinn sem sá um umsóknirnar segist þá ætla að googla forsvarsmanninn“

„Símtalið hófst kl. 16:07:01 hinn 22. mars 2022 og því lauk kl. 16:10:58. Bankasýsla ríkisins birti tilkynningu í fréttakerfi kauphallarinnar kl. 16:11:58 um að útboð væri hafið. Í samskiptum starfsmannanna kemur í ljós að viðskiptavinur sem bjóða átti þátttöku í útboðinu var ekki flokkaður sem fagfjárfestir og hafði ekki sótt um slíka flokkun. Starfsmaðurinn sem sá um afgreiðslu umsókna um breytta flokkun segist hafa skoðað ársreikning félagsins og það uppfylli ekki skilyrði þess að flokkast á grundvelli stærðar og því þurfi viðskiptavinurinn að sækja um að fá flokkun sem fagfjárfestir. Starfsmaðurinn, sem var tengiliður viðskiptavinarins, sagðist þá ætla að hringja í forsvarsmann félagsins og upplýsa hann um að verið væri að senda honum eyðublað til að sækja um flokkun sem fagfjárfestir, hann þurfi að fylla það út og senda skjáskot af innstæðureikningum hjá viðskiptabanka félagsins. Starfsmaðurinn sem sá um umsóknirnar segist þá ætla að googla forsvarsmanninn og senda upplýsingar sem er að finna á vefnum um hann til Lögfræðideildar.“

Fjármálaeftirlitið telur að Íslandsbanki hafi brotið gegn lögum með því að hafa ýmist frumkvæði eða hvatt til þess að alls 21 viðskiptavinur óskaði eftir stöðu fagfjárfestis í tengslum við útboðið og afsalaði sér með því réttarvernd sem tryggð er almennum fagfjárfestum. „Verðbréfafyrirtæki eigi að forðast í lengstu lög að hvetja til, þrýsta á eða hafa frumkvæði að því að viðskiptavinur afsali sér réttarvernd. “

Kjósa
55
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • PB
    Páll Bragason skrifaði
    Ætli þessi menningarheimur einskorðist við Íslandsbanka? Væri fróðlegt ef einhver væri í færum til að kanna það.
    2
  • MGÁ
    Marteinn Gísli Árnason skrifaði
    Ja herna þetta er otrulegt en virðist vera satt.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Salan á Íslandsbanka

Bjarni segir það Alþingi að kenna að hann hafi ekki gætt að hæfi sínu
FréttirSalan á Íslandsbanka

Bjarni seg­ir það Al­þingi að kenna að hann hafi ekki gætt að hæfi sínu

Bjarni Bene­dikts­son, fyrr­ver­andi fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, seg­ir að hann hafi gert ráð fyr­ir bless­un þings­ins á að ekki þyrfti að gæta að hæfi hans gagn­vart hverj­um og ein­um kaup­anda á Ís­lands­banka í mars 2022. Þing­inu hefði átt að vera aug­ljóst að ekki væri hægt að fylgja hæfis­regl­um í sölu­með­ferð­inni sem val­in var. Bjarni sat fyr­ir svör­um á opn­um fundi stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar í dag.

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.

Mest lesið undanfarið ár