Settur ríkissáttasemjari, Ástráður Haraldsson, er á meðal þeirra sex einstaklinga sem sækjast eftir því að gegna embætti ríkissáttasemjara. Embættið var auglýst laust til umsóknar í byrjun mánaðarins, í kjölfar þess að Aðalsteinn Leifsson sagði sig frá embættinu.
Nú hefur listi yfir umsækjendur verið birtur á vef stjórnarráðsins.
Auk Ástráðs sækjast þau Aldís Guðný Sigurðardóttir, lektor við viðskiptadeild HR og forstöðumaður MBA-náms, Hilmar Már Gunnlaugsson lyfjafræðingur, Maríanna Hugrún Helgadóttir formaður og framkvæmdastjóri Félags íslenskra náttúrufræðinga, Muhammad Abu Ayub vaktstjóri og Skúli Þór Sveinsson sölumaður, eftir embættinu.
Á vef stjórnarráðsins segir að hæfni umsækjenda verði metin af ráðgefandi hæfnisnefnd sem skipuð er á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Félags- og vinnumarkaðsráðherra mun að því búnu skipa í embættið til fimm ára.
Fyrrverandi ríkissáttasemjari, Aðalsteinn Leifsson, gegndi embættinu frá 1. apríl 2020, eða í rúm þrjú ár. Ástráður Haraldsson var settur ríkissáttasemjari við brotthvarf hans úr embættinu, en Ástráður hafði áður leyst Aðalstein af sem ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins í upphafi ársins.
Athugasemdir