Á aðalfundi Kaupfélags Skagfirðinga (KS), sem haldinn var 6. júní síðastliðinn, var samþykkt ályktun þar sem því var beint til stjórnar að félagið og dótturfélög þess stæðu ekki í innflutningi á erlendum búvörum. KS er samvinnufélag, að fullu í eigu tæplega 1.500 félagsmanna, sem flestir eru bændur. Í viðtali við Bændablaðið sagði Sigurjón Rúnar Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri að ályktun aðalfundarins væri skýr skilaboð til fyrirtækisins.
Sigurjón Rúnar er jafnframt formaður Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, SAFL, sem börðust hart gegn áframhaldandi niðurfellingu tolla á úkraínskar vörur. Sigurjón Rúnar situr einnig í stjórn Esju gæðafæðis, sem er meðal þeirra fyrirtækja sem flutt hafa inn allnokkuð magn landbúnaðarvara síðustu misseri, þar með talið úkraínskan kjúkling.
Esja hefur undanfarin misseri flutt inn tugi tonna af kjöti erlendis frá, unnið það og markaðssett hér á landi. Esja, og KS einnig, eru meðal stofnfélaga SAFL.
Þurfa að þjónusta viðskiptavini
Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS og stjórnarformaður Esju gæðafæðis, segir í samtali við Heimildina, aðspurður um hví Esja hafi ekki sótt um tollkvóta við síðasta útboð á ESB kvótunum, að tekin hefði verið ákvörðun um að hætta innflutningi á kjöti. „Það var tekin ákvörðun um það hjá KS að standa ekki í frekari innflutningi á kjöti, svo við kaupum bara núna af öðrum innflytjendum, hvort sem það er Háihólmi eða önnur fyrirtæki. Það var búið að taka þessa ákvörðun áður en til aðalfundar KS kom.“
Esja kaupir því innflutt kjöt af öðrum innflytjendum, einfaldlega vegna þess að kjötframleiðslan í landinu dugar ekki til að uppfylla þarfir markaðarins, segir Ágúst. Það á ekki síst við, í tilfelli Esju, alifuglakjöt og svínakjöt þar eð KS og dótturfyrirtæki þess hafa ekki verið í slíkri framleiðslu eða slátrun. „Við viljum fyrst og fremst vera að höndla með íslenskt kjöt en þar sem það dugar ekki til þá þurfum við eftir sem áður að þjónusta okkar viðskiptavini. Ég held að félagsmenn KS séu ekkert á móti því að við sinnum okkar viðskiptavinum en hins vegar snýst þessi samþykkt aðalfundarins um að við séum ekki að flytja þetta inn sjálf, KS og dótturfélög.“
„Við höfum bara litið á þetta þannig að þetta hafi verið rangt í upphafi“
Esja er meðal þeirra fyrirtækja sem flutti inn úkraínskan kjúkling, sem fyrr segir. Fyrirtækið flutti inn í tveimur sendingum um 40 tonn og hefur auk þess keypt úkraínskan kjúkling af öðrum innflytjendum. Hins vegar var tekin ákvörðun um að hætta umræddum innflutningi, áður en til þess kom að bráðabirgðaákvæði um tollaleysi féll úr gildi. „Það var tekin ákvörðun um að við myndum borga af þessu full gjöld og við værum ekki að rugga neinum bátum í því. Síðan var tekin ákvörðun um að við myndum bara frekar láta aðra um þetta og nú er búið að loka fyrir þennan innflutning,“ segir Ágúst. Hann segir enn fremur að, þrátt fyrir að fyrirtækinu væri kleift að sækja um endurgreiðslu á tollunum af hinum úkraínska kjúklingi, þá standi það ekki til. Spurður hvernig á því standi svarar hann: „Við höfum bara litið á þetta þannig að þetta hafi verið rangt í upphafi, það hefði aldrei átt að leyfa þennan innflutning án tollkvóta, og við tókum bara ákvörðun um þetta á þeim tíma.“
Heiðurskonsúll Rússlands flytur inn vín frá Moldóvu
Ágúst er heiðurskonsúll Rússlands hér landi og hefur verið á það bent, meðal annars í umræðum um innflutning á úkraínskum kjúklingi og deilur á Alþingi um framlengingu á tollaniðurfellingu á úkraínskum vörum. Spurður hvort að sú umræða hafi farið fyrir brjóstið á honum segir Ágúst: „Ekki þannig. Mér þykir auðvitað leiðinlegt hvernig sumir hafa slitið hlutina úr samhengi en þá er það ekki svaravert og maður er ekkert að pirra sig á því.“
Ágúst segir jafnframt að konsúlsnafnbótin hafi alls ekki verið fyrir honum eða hamlað honum, hvorki nú né áður, en hann hefur borið nafnbótina frá árinu 2014. „Þetta kom til með persónulegum vinskap sem skapaðist milli mín og þáverandi sendiherra Rússlands hér á landi. Ég hef auðvitað stundað viðskipti þarna úti í Rússlandi síðan fyrir aldamót en núna er maður bara að reyna að vinna með öðrum aðilum þar sem opið er fyrir viðskipti. Ég flyt til að mynda inn vín núna frá Moldóvu, og hef gert í ein fjögur ár. Þeim vínframleiðanda kynntist ég einmitt á sýningu í Rússlandi þar sem við vorum að kynna lambakjöt og skyr og annað.“
Athugasemdir