Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur beint kröfu aðstandenda og eftirlifenda þeirra sem fórust í snjóflóðunum í Súðavík árið 1995 til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Í bréfi sem hún sendi formanni nefndarinnar á þriðjudag segist hún ekki hafa heimild til að ráðast í rannsóknina sjálf en bendir á að það geri þingið.
Málið hefur verið til skoðunar í forsætisráðuneytinu um nokkurra vikna skeið en aðstandendur og eftirlifendur þrettán þeirra sem fórust í snjóflóðunum í Súðavík óskuðu þess að opinber rannsókn færi fram á aðdraganda og eftirmálum flóðanna. Erindi þeirra var sent í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar Heimildarinnar um snjóflóðin.
Í bréfinu, sem Katrín sendi Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir hún að rannsóknarnefnd á vegum þingsins væri til þess fallin að skapa traust á rannsókn sem þessari, sem varðar meðferð opinbers valds og tryggi hlutleysi.
„Ekki er að finna í lögum sérstaka heimild til handa mér eða öðrum ráðherrum til að ráðast í rannsókn af þessu tagi,“ segir Katrín í bréfinu áður en hún bendir á að það geti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gert. „Í samráði við lögmann aðstandenda leyfi ég mér að hafa milligöngu um afhendingu þeirra gagna sem fyrirliggjandi eru í málinu sé þess óskað. Þá kann að vera ástæða til að skoða hvort rannsaka eigi önnur ofanflóð þar sem manntjón eða verulegt eignatjón hefur orðið.“
Fram kemur í bréfi Katrínar að málið hafi verið rætt á ríkisstjórnarfundi 23. maí síðastliðinn, í kjölfar fundar sem hún átti með lögmanni aðstandenda og eftirlifenda snjóflóðanna. Aðstandendurnir hafa farið fram á að opinber rannsókn fari fram á ýmsum þáttum sem kunna að hafa áhrif á hvernig fór. Þar á meðal snjóflóðahættumatið sem var í gildi þegar flóðin féllu, skipulag byggðar á svæðinu og rýming þegar hættuástand hafði skapast.
Í samtali við Heimildina segir Þórunn að bréf Katrínar hafi borist í dag, sem og gögn málsins, sem lögmaður hópsins hafði afhent ráðuneytinu. Henni hafi enn sem komið er ekki gefist færi á að bera málið upp við nefndina. „Ég er búin að lesa bréfið en ég á auðvitað eftir að bæði kynna það fyrir nefndinni og hugsa næstu skref. Það skiptir mjög miklu máli að við vöndum okkur í viðbrögðum við þessari óbeinu beiðni. Þetta er lagt í okkar hendur,“ segir Þórunn.
„Það er ekki beinlínis verið að leggja til eða biðja nefndina um að gera eitthvað enda væri það ekki alveg rétt að ráðherra myndi gera það, en bréfið er komið og gögnin með. Þá er næsta eðlilega skref að fara yfir það í nefndinni og byrja samtalið og umfjöllun um þetta mál.“
Framhaldið sé undir nefndinni komið, segir Þórunn.
Sjálf hefur hún áður sagt að hún telji rétt að sett yrði á fót nefnd til að rannsaka málið. Þegar Heimildin greindi frá fundi forsætisráðherra með lögmanni eftirlifenda Súðavíkurflóðsins og kröfum þeirra um rannsókn sagði Þórunn: „Persónulega finnst mér einboðið að setja slíka nefnd á fót vegna þess að umfjöllun Heimildarinnar leiðir ýmislegt í ljós sem ég er viss um að hafi almennt ekki verið á vitorði margra. Hins vegar er ég líka á þeirri skoðun að eftirlifendur og aðstandendur þeirra sem þarna fórust eigi siðferðilegan rétt til þess að aðdragandinn og viðbrögðin við hamförunum séu rannsökuð til hlítar,“ sagði Þórunn.
Athugasemdir