Sólveig Gylfadóttir á tvö börn á leikskólaaldri með eiginmanni sínum Jóni Hauki Ólafssyni. Sólveig hefur misst úr vinnu vegna verkfalls í leikskóla barnanna en hún starfar sem hjúkrunarfræðingur á Landspítala. Samviskubit er farið að læðast að henni vegna fjarverunnar, því hún er vel meðvituð um undirmönnunina á spítalanum.
Ef ekki leysist úr deilunni sjá hjónin fram á að vera heima með börnin þar til í ágúst þar sem sumarfrí í leikskólanum hefst um svipað leyti og verkfallinu á að ljúka.
Fólkið sem er í verkfalli starfar víða í samfélaginu, meðal annars í íþróttamiðstöðvum og leikskólum. Það á það sameiginlegt að vera félagsfólk stéttarfélagsins BSRB.
Um 2.500 manns eru nú í verkfalli en deilan er á milli BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Henni hefur siglt í strand.
BSRB krefst þess að 7.000 félagsmenn þeirra fái 128.000 króna eingreiðslu frá sveitarfélögunum vegna þess að síðan um áramót hefur félagsfólk þeirra verið með lægri laun en félagsfólks Starfsgreinasambandsins (SGS) með sömu menntun og reynslu sem sinnir sömu störfum. Ástæðan fyrir því er sú að SGS og BSRB gerðu mislanga samninga við Samband íslenskra sveitarfélaga. Sambandið hefur hafnað eingreiðslukröfu BSRB og segir formaður samninganefndarinnar að hún eigi ekki rétt á sér.
Reyna að brjóta daginn upp í verkfalli
„Það verður kannski smá truflun, við erum á bókasafni,“ sagði Sólveig þegar hún tók við símtali blaðamanns í gærmorgun.
Hún hefur reynt að hafa ofan af fyrir börnunum sínum eins og hægt er síðan verkfallið hófst, til dæmis með því að fara í húsdýragarðinn og leika við þau.
„En maður finnur alveg hvað þau eru eirðarlaus og stutt í grátinn hjá þeim og pirring,“ sagði Sólveig.
Hún hefur þurft að taka orlofsdaga í vinnu vegna verkfallsins. „Maður er náttúrulega með samviskubit yfir því að geta ekki mætt til vinnu,“ sagði Sólveig. „Það er vont að vita af undirmönnun nú þegar og svo kemst maður ekki. Þetta er mjög erfitt.“
Fundi BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga var slitið á mánudag án árangurs. Ekki hefur verið boðað til annars fundar í deilunni og stendur hvor hlið hörð á sínu. Verkfall leikskólastarfsfólks mun standa til 5. júlí nema samkomulag náist fyrir þann tíma.
„Það er bara mjög vond tilfinning að vita ekki hvað maður gerir á morgun, hvernig verði í næstu viku, hvort maður komist til vinnu,“ segir Sólveig.
Deilan í hnút
Ekkert sést í land fyrir hinar fjölmörgu fjölskyldur sem verkfallið hefur áhrif á. Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Samtaka íslenskra sveitarfélaga, segir að samtökin ætli ekki að gangast við kröfu BSRB þar sem það geti opnað á að fleiri stéttarfélög óski eftir eingreiðslum vegna samningsatriða sem þau eru ósátt við í samningum sem þegar hafa verið undirritaðir.
„Það er grundvallaratriði að samningar verði að standa,“ segir Inga Rún.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, bendir aftur á móti á að staðan sem komin sé upp, þar sem sveitarfélögin greiði fólki sem sinnir sömu störfum ójafnt, sé fordæmalaus og því muni önnur stéttarfélög ekki geta gert sömu kröfu.
Eins og ítrekað hefur komið fram í fjölmiðlum að undanförnu eru sveitarfélög landsins illa stödd fjárhagslega og segir Inga Rún að þau vilji frekar verja fjármunum sínum í hækkun lægstu launa en eingreiðslu. Ef sveitarfélögin myndu samþykkja kröfu BSRB um 128.000 króna eingreiðslu fyrir félagsmennina 7.000 myndi það kosta þau um það bil einn milljarð. BSRB hefur bent á að það sé um 0,3% af heildarlaunakostnaði sveitarfélaganna.
Á meðan Inga Rún telur alla ábyrgð á launamisræminu á BSRB, þar sem staðið hafi til boða fyrir félagið árið 2020 að undirrita sama samning og SGS undirritaði skömmu áður, segir Sonja að mikill ágreiningur sé uppi um það hvað varð til þess að samningurinn við BSRB hafi verið með annan gildistíma en sá við SGS. Í 20 ár höfðu þessir samningar fylgst að og falið í sér sömu kjarabætur og gerði BSRB því ráð fyrir að það væri einnig staðan árið 2020. Inga Rún segir að hún hafi ítrekað boðið BSRB að undirrita sama samning og SGS hafi fengið en það hafi BSRB ekki viljað.
Önnur fjölskylda á leikskólanum
Eins og auðséð er á mismunandi sjónarmiðum Sonju annars vegar og Ingu Rúnar hins vegar er deilan í hnút. Börn Sólveigar munu því þurfa að bíða eitthvað lengur eftir að komast aftur í sína hefðbundnu leikskóladagskrá með vinum sínum og starfsfólkinu.
„Krakkarnir elska að fara í leikskólann,“ segir Sólveig, sem óskar þess að hægt sé að semja við starfsfólkið um mannsæmandi laun sem fyrst. „Þetta er fólk sem þau eru með átta tíma á dag, alla virka daga. Þetta er bara önnur fjölskylda, krakkarnir á leikskólanum og starfsfólkið.“
Athugasemdir