Íbúðafélagið Alma heldur útboð á víxlum í vikunni til að fjármagna félagið. Útboðið er upp á að allt 3 milljarða króna og býður félagið hæstu mögulegu vexti. Um er að ræða lokað útboð sem er aðeins fyrir hæfa fjárfesta og fagfjárfesta. Greint er frá útboðinu í tilkynningu frá félaginu. Útboðið bendir til að Alma eigi í nokkrum erfiðleikum með að fjármagna sig þar sem vextirnir sem boðið er upp á eru svo háir. Um er að ræða skammtímafjármögnun til þriggja mánaða.
Ljóst er að Alma er meðal annars að reyna að höfða til lífeyrissjóða í útboðinu en nokkur umræða hefur verið um fjárfestingar þeirra í skuldabréfum og víxlum Ölmu. Félagið hefur reynt að fá lífeyrissjóðina, meðal annars Lífeyrissjóð Verslunarmanna, til að fjárfesta í skuldabréfum félagsins en án árangurs. Lífeyrissjóðurinn Festa er einn sjóður sem hefur fjárfest í félaginu, fyrir tæplega 3 milljarða króna.
„Það er bara gríðarlega mikilvægt að eftirlaunasjóðirnir okkar verði ekki notaðir til að fjárfesta í neinu sem tengist þessari siðlausu fjölskyldu.“
Gagnrýnir tal um sjóðirnir sniðgangi Ölmu
Alma leigufélag hefur verið umtalað á síðustu mánuðum í kjölfarið á fregnum af stífum leiguhækkunum hjá félaginu í lok síðasta árs, bæði hjá íslenskum leigjendum sem og hjá flóttamönnum frá Úkraínu. Síðan þá hefur verið talsverð umræða um félagið og hafa forsvarsmenn þess reynt að réttlæta leiguhækkanirnar. Í maí skrifaði Gunnar Þór Gíslason, stjórnarformaður og stærsti hluthafi Ölmu, meðal annars grein á Vísi sem hann kallaði „Málsvörn leigusala“.
Í greininni sagði Gunnar Þór meðal annars að ekki væri gott að sumir verkalýðsforingjar hafi kallað eftir því að lífeyrissjóðir ættu að sniðganga skuldabréf Ölmu. „Sumir verkalýðsforingjar og aðrir sjálfskipaðir talsmenn leigjenda sem hafa haft sig mest í frammi í umræðunni um leigumarkaðinn hafa talað fyrir leiguþaki eða leigubremsu. Það hafa einnig komið fram kröfur úr sömu átt að lífeyrissjóðir skuli selja öll skuldabréf sem þeir eiga í Ölmu og alls ekki taka þátt í frekari fjármögnun félagsins. Slík „úrræði“ munu aðeins draga úr framboði á leiguhúsnæði og auka vandann á húsnæðismarkaði til lengri tíma litið.“
Lífeyrissjóðirnir haldi að sér höndum
Með þessum orðum var Gunnar Þór meðal annars að vísa til þess sem Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sagt um fjárfestingar í Ölmu en hann hefur talað gegn því að Lífeyrissjóður verslunarmanna fjárfesti í félaginu. VR er skipunaraðili í stjórn sjóðsins. „Við sem skipunaraðilar í stjórn sjóðsins höfum eftirlitshlutverki að gegna og framganga Ölmu brýtur gegn öllum þeim viðmiðum sem stjórnin hefur sett sér. Við munum því klárlega tala gegn því að sjóðurinn fjárfesti í félögum eins og Ölmu þó við ráðum því auðvitað ekki ein á endanum.“
Aðspurður um þetta víxlaútboð Ölmu segir Ragnar Þór að hann muni áfram beita sér gegn því, þrátt fyrir umræðu og rökstuðning Gunnars Þórs fyrir fjárfestingum lífeyrissjóða í félaginu, að sjóðirnir setji fé í Ölmu. „Það er bara gríðarlega mikilvægt að eftirlaunasjóðirnir okkar verði ekki notaðir til að fjárfesta í neinu sem tengist þessari siðlausu fjölskyldu.“
Þriðja sjónarmiðið, kom fram í máli Baldurs Stefánssonar hjá eignastýringu Festu lífeyrissjóðs í viðtali. Hann fer bil þeirra beggja, Gunnars Þórs og Ragnars, þar sem hann segist skilja gagnrýni á Ölmu á sama tíma og hann segir að lífeyrissjóðir þurfi að fjármagna leigufélögin í landinu. „Þetta er vandrataður vegur. Ef lífeyrissjóðirnir myndu allir bara alls ekki fjármagna leigufélögin þá er snúið að þau gætu verið til,“ sagði hann í lok síðasta árs.
Óljóst af hverju Alma þarf þessa fjármögnun
Út frá tilkynningunni um útboðið er óljóst til hvers Alma þarf hana, í hvað á að nota peningana. Vextirnir sem félagið greiðir fyrir fjármögnunina eru hins vegar mjög háir, eins og segir í tilkynningunni: „Útboðið verður með hollenskri aðferð, þ.e. öll samþykkt tilboð bjóðast fjárfestum á hæstu samþykktu flötu vöxtum. Víxlarnir eru gefnir út í 20 m.kr. nafnverðseiningum og verða skráðir á Nasdaq Iceland. Alma íbúðafélag hf. áskilur sér rétt til þess að taka hvaða tilboði sem er eða hafna þeim öllum. Niðurstöður útboðsins verða birtar opinberlega eigi síðar en næsta virka dag eftir útboð.“
Alma hefur áður á þessu ári farið í víxlaútboð til skamms tíma, tveggja mánaða, og er líklegt að leigufélagið sé að rúlla skammtímavíxlum til að standa við skuldbindingar sínar í stað þess að fá langtímafjármögnun á félagið. Ekki er opinbert hvaða aðilar það eru sem kaupa skuldabréf og víxla félagsins.
Athugasemdir (2)