Í aðdraganda síðustu kosninga var sitjandi ráðamönnum tíðrætt um að þeim hafi tekist að tryggja efnahagslegan stöðugleika og verja kaupmátt í gegnum kórónuveirutímabilið.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra orðaði það þannig í grein í Morgunblaðinu sem birtist um miðjan ágúst 2021 að ríkisstjórn hennar hefði „ráðist í markvissar efnahagslegar og félagslegar aðgerðir til að lágmarka samfélagsleg áhrif [...] tekist hefur að tryggja kaupmátt launafólks og efnahagslegan stöðugleika á þessum erfiðu tímum. Það skiptir nefnilega máli að hafa félagslega sýn við völd þegar áföll dynja á.“
Kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins snerist að mestu um að flokkurinn hefði varið stöðugleika og sýnt efnahagslega ábyrgð. Afleiðing þessa væri sú að stýrivextir, þá 1,25 prósent, væru lágir og verðbólga, þá 4,4 prósent, lítil. Afleiðingar aðgerðanna sýndu efnahagsstjórnun, sem Bjarni Benediktsson hefur nú meira og minna farið með í áratug, bæri eftirsóknarverðan árangur.
Framsóknarflokkurinn sagðist ekki leggja fram neinar „töfra- eða allsherjarlausnir“ fyrir kosningarnar. Það væri bara best að kjósa Framsókn.
Samandregið þá eignuðu flokkarnir þrír sér þann árangur sem náðst hafði við það að viðhalda efnahagslega venjuleikanum á tímum heimsfaraldurs. Aðgerðir þeirra hefðu fleytt samfélaginu í gegnum kúfinn og skilað því réttum megin við.
Afar sennilegt er að þessi saga hafi skilað því að flokkarnir þrír bættu við sig fylgi og endurnýjuðu samstarf sitt.
Hin eftirsóknarverða kjaragliðnun
Fyrir liggur að miklar vaxtalækkanir Seðlabankans og 450 milljarða króna mótvægisaðgerðir ríkissjóðs á síðustu árum örvuðu eftirspurn, jafnt á faraldurstímum og langt eftir að sá tími var liðinn. Mest voru áhrifin á íbúða- og hlutabréfamarkaði, þar sem aðgerðir stjórnvalda blésu upp bólur.
Samkvæmt greiningu BHM jukust ráðstöfunartekjur þeirrar tíundar landsmanna sem höfðu hæstu tekjurnar, og hafa helst tekjur af fjármagni, um tólf prósent á föstu verðlagi á árinu 2021. Restin af landsmönnum, 90 prósent þeirra, juku sínar ráðstöfunartekjur á raunvirði um fjögur prósent. Því jukust ráðstöfunartekjur, laun að frádregnum sköttum og öðrum lögbundnum gjöldum, efstu tíu prósentanna þrefalt á við aðra þegar þær eru reiknaðar á föstu verðlagi.
BHM sagði þessa þróun vera framhald af lengri sögu sem sýndi að fjármagnstekjur hafi aukist um 120 prósent að raunvirði á áratug. Á sama tíma jukust atvinnutekjur um 53 prósent. Í umsögn BHM um fjárlagafrumvarp síðasta árs sagði að flest bendi til þess „að nokkur kjaragliðnun hafi átt sér stað milli launafólks og fjármagnseigenda á áratugnum 2011 til 2021 og hún hafi aukist til muna á árunum 2020 og 2021“. Kaupmáttur meðaltals fjármagnstekna hefur aukist um 85 prósent á sama tíma, en um 31 prósent í tilfelli meðaltals atvinnutekna.
Þetta var hinn eftirsóknarverði efnahagslegi stöðugleiki sem ríkisstjórnarflokkarnir komu á. Kjaragliðnun þar sem sumir urðu miklu ríkari en flestir höfðu það aðeins betra en áður.
Byrðarnar axlaðar af lágtekjuhópum
Nú er staðan allt önnur og verri á allan hátt. Verðbólga hefur verið milli níu og tíu prósent í næstum ár og er að hjaðna mun hægar en í löndunum sem við miðum okkur við. Verðbólguhorfur hafa hríðversnað og búist er við því að hún verði enn yfir átta prósent í lok þessa árs. Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að hún verði fimm prósent að meðaltali á næsta ári og 3,4 prósent árið 2025. Stýrivextir hafa verið hækkaðir þrettán sinnum í röð og eru nú 8,75 prósent. Íslandsbanki spáir því að vaxtahækkunarferlinu sé ekki lokið og að stýrivextir muni ná hámarki í 9,5 prósent seinna á þessu ári. Kaupmáttur hefur dregist saman í þrjá ársfjórðunga í röð.
Þessi staða bitnar fyrst, og langmest, á tekjulágum hópum. Um það efast sennilega enginn. Krónurnar þeirra duga skemur en áður og launahækkanir þeirra halda ekki í við hækkun verðlags. Húsnæði og matvara, lífsnauðsynjarnar, hafa enda hækkað um 12,3 prósent á einu ári.
Hagstofan greindi frá því í vikunni að umtalsverðar verðhækkanir á neysluvörum gefi vísbendingu um að heimilin séu að einhverju leyti að ganga á sparnað til að láta enda ná saman. Það skýri að einhverju leyti kröftuga einkaneyslu síðustu misseri. Í könnun sem Prósent gerði í ágúst í fyrra kom fram að næstum átta af hverjum tíu í lægsta tekjuhópnum á Íslandi náði ekki að leggja neitt fyrir, gangi á sparnað eða safni skuldum. Ganga má út frá því sem staðreynd að staða þeirra hafi versnað síðan að sú könnun var gerð.
Millistéttin næst í röðinni
Fyrirliggjandi er að lífskjarakrísan, sem Heimildin fjallaði ítarlega um í síðasta tölublaði, er sífellt að teygja sig til fleiri hópa. Kona sem tilheyrir sex manna fjölskyldu í blokkaríbúð á höfuðborgarsvæðinu, sem keypt var fyrir tveimur árum, sagði að hækkandi greiðslubyrði lána fylgi „mikill kvíði, ég er með magaverk út af þessu“. Einstæður faðir sem keypti litla íbúð árið 2021 sagðist vera að skoða að flytja til annars lands. Hann væri einni bílaviðgerð frá fjárhagsvanda. Kona sem keypti íbúð ásamt eiginmanni sínum og börnum í fyrra sagði fjölskyldu sína nú gera mest lítið. „Það er náttúrlega bara skorið við nögl það sem er keypt til heimilisins. Það eru bara nauðsynjar og helst ekkert umfram.“ Konunni líður nú eins og tilvera hennar sé „bara einhvers konar gróðatækifæri“ fyrir banka.
Umboðsmaður skuldara sagðist vera að búa sig undir „skell fasteignaeigenda á næsta ári“ þegar óverðtryggð lán upp á mörg hundruð milljarða króna sem hafa verið á föstum vöxtum losna.
Tvöföldun á greiðslubyrði
Það er hægt að stilla stöðu mála upp svona: Miðgildi heildarlauna á Íslandi í árslok 2022 var 775 þúsund krónur. Það þýðir að helmingur launamanna er með lægri laun en það. Miðgildið hefur hækkað um 58 prósent, eða 238 þúsund krónur síðan í lok árs 2015. Á síðasta ári hækkaði það um 46 þúsund krónur.
Gefum okkur að miðgildismaðurinn sé með óverðtryggt íbúðalán upp á 45 milljónir króna á breytilegum vöxtum. Í byrjun síðasta árs hefði hann þurft að borga 191.700 krónur af slíku láni. Þegar bankarnir verða búnir að hækka vexti sína í kjölfar af síðustu stýrivaxtahækkun mun miðgildismaðurinn borga 366.975 krónur á mánuði af láninu. Greiðslubyrðin hefur aukist um 175.275 krónur á mánuði á einu og hálfu ári.
Hin aukna greiðslubyrði er margföld hækkun heildarlauna miðgildismannsins. Ef laun hans og miðgildismaka hans eru lögð saman liggur fyrir að þau hækkuðu um 92 þúsund krónur í fyrra. En vantar mikið upp á að það dugi fyrir auknu greiðslubyrðinni á mánuði.
Þá á eftir að taka inn í dæmið að helstu nauðsynjar hafa hækkað verulega í verði.
Svona var svigrúmið nýtt
Nú heyrist gamalkunnur söngur um að allir verði að sýna ábyrgð til að sigrast á vágestinum. Spjótin beinast að vinnumarkaðinum, sérstaklega þeim sem gæta hagsmuna launafólks, og þeim sagt að sýna hófsemd í launakröfum í komandi kjarasamningum. Annars muni Ísland brenna.
Sama hópi sem brást við af ábyrgð í fyrra og snemma á þessu ári og samdi um launahækkanir til skamms tíma sem eru langt undir verðbólgu. Þeir samningar áttu að gefa stjórnvöldum svigrúm til að grípa til mótvægisaðgerða til að verja viðkvæmustu hópana og sýna aðhald í útgjaldaaustri sínu til að draga úr verðbólgu. Ríkisstjórnin fékk þar líka tækifæri til að draga úr þeim óréttlátu en miklu áhrifum sem ákvarðanir Seðlabanka og stjórnvalda í faraldrinum höfðu á ójafna tekju- og eignaskiptingu, til dæmis með því að skattleggja þá sem voru heppnir og högnuðust gríðarlega á þeim tilfærslum. Þeim skatttekjum væri svo hægt að koma til þeirra hópa sem verða verst úti vegna yfirstandandi ástands með því að nýta millifærslukerfi.
Stjórnvöld hafa ekki gert neitt af þessu sem neinu nemur. Verðstöðugleikinn er enn og aftur settur á herðar venjulegs launafólks.
Svigrúmið átti líka að nýtast fyrir atvinnulífið til að draga úr framlegð og stilla launakjörum efsta lagsins innan þess í hóf, til að sýna gott fordæmi. Það var hins vegar nýtt, samkvæmt greiningum verkalýðsfélaga, til að velta verðbólgunni út í verðlag. Skráðu félögin fögnuðu tímabundnum friði á vinnumarkaði með því að hækka uppgefin heildarlaun forstjóra sinna á mánuði um eina milljón króna milli 2021 og 2022, upp í að meðaltali sjö milljónir króna.
Tvöföldun launa á sjö árum
Stjórnmálamenn hafa líka fengið tækifæri til að sýna fordæmi. Fyrir liggur að laun þeirra eiga að hækka um 6,3 prósent eftir tæpan mánuð. Það þýðir að laun forsætisráðherra munu hækka í 2.626 þúsund krónur á mánuði og hafa þá hækkað um 1.235 þúsund krónur á sjö árum. Ráðherrar og forseti Alþingis fara í 2.372 þúsund krónur og hafa þá hækkað um 1.115 þúsund á þessum árum. Grunnlaun þingmanna munu hækka í 1.431 þúsund krónur og hafa þá hækkað um 719 þúsund krónur á sama tímabili. Til viðbótar við ofangreint geta þingmenn fengið ýmiss konar viðbótargreiðslur vegna kostnaðar sem fellur til vegna starfsins, eða aukastarfa á borð við nefndarformennsku. Þær viðbótarsporslur geta hlaupið á mörg hundruð þúsund krónum.
Forsætisráðherra hefur sagt að það standi ekki til að falla frá hækkuninni. Ástæðan sé kerfislæg. Hækkunin byggi á fyrirkomulagi sem sett hafi verið í lög 2019 og tryggir æðstu embættismönnum sömu hlutfallshækkun á launum og ríkisstarfsmenn fá að meðaltali á hverju ári. Við því kerfi megi ekki hrófla. Það ógnar sennilega stöðugleikanum.
Hin hrædda valdastétt
Þeir stjórnmálamenn sem hreyktu sér af því að aðgerðir þeirra hafi tryggt efnahagslegan stöðugleika fyrir tæpum tveimur árum síðan kannast nú ekkert við að bera ábyrgð á lífskjarakrísunni sem sömu aðgerðir hafa leitt af sér.
Vegna þessa eykst þrýstingur á Seðlabankann að beita þeim vopnum sem hann hefur í baráttunni við verðbólguna langt umfram það sem hann þyrfti ella. Með tilheyrandi áhrifum á þorra almennings.
Enn og aftur á að láta venjulegt launafólk axla ábyrgð á stöðugleikanum og láta það taka það ferli út í versnandi lífskjörum. Það má ekki hrófla við launum fákeppnis-forstjóra. Ekki við launum æðstu embættismanna og ríkisstjórnarinnar. Bara launum þeirra sem duga vart lengur fyrir næstu mánaðamótum.
Í stað þess að leggja sitt af mörkum gerir valdastéttin á Íslandi út málgögn í fjölmiðlum og aðra lukkuriddara sem bera von um að komast inn í pilsfaldarhlýjuna með yfirlýsingum um að gagnrýnendur séu bara fullir af öfund. Að þeir séu að tala niður frábært fyrirkomulag sem hafi fært Íslandi mikla velsæld. Skilji ekki að aðeins hærra launahlutfall af mjög litlu sé alveg nógu gott fyrir tekjulága. Gaslýsa um að gagnrýni á þeirra popúlísku stjórnmálabaráttu sé bara popúlísk stjórnmálabarátta. Að efnahagslegur stöðugleiki náist aðeins með aukinni kjaragliðnun, lægri sköttum á ríka og því að almúginn sætti sig við brauðmolana sem falli af veisluborðinu.
Þegar þessi orðræða er orðin jafn fyrirferðarmikil og hún er nú þá þýðir það einungis eitt: valdastéttin er orðin hrædd. Það þrengist að henni.
Það er gott. Þá erum við að komast eitthvað áfram.
Örninn