Það kom mörgum á óvart þegar fram á sjónarsviðið steig nú nýlega fyrrum þingmaður/ráðherra sem fyrir þremur árum sagði af sér þingmennsku og steig í forstjórastól Hornsteins ehf. Þessi fyrrum ráðherra kvaddi sér hljóðs og lýsti því yfir að verðbólgan hér væri launafólki að kenna en náði nú ekki að rökfæra þær skoðanir sínar betur en svo að þær voru hraktar með tölum og staðreyndum örfáum dögum síðar af prófessor við Háskóla Íslands.
Samt var Þorsteini boðið í viðræður á Vísi við fólk sem svo sannarlega hefur umboð, Ragnar Þór Ingólfsson og Kristrúnu Frostadóttur. Þar voru fullyrðingar hans aftur hraktar, þótt betur hefði mátt gera með þvi að einfaldlega mæta með tölulegar staðreyndir sem áðurnefndur prófessor hafði sett fram.
En af hverju var Þorsteinn þarna? Hvaða umboð hafði hann og af hverju vill hann kenna launafólki um verðbólguna þrátt fyrir að hann eflaust viti betur?
„Þorsteinn var þarna fyrst og fremst fyrir sjálfan sig og sitt fyrirtæki en það kom berlega fram í málflutningi hans þar sem hann reyndi að gera lítið úr húsnæðisvanda þjóðarinnar.“
Hann var klárlega ekki þarna í umboði þeirra 400 fjölskyldna sem sækja um hverja einustu íbúð á leigumarkaðnum og borga uppsprengt verð fyrir. Hann er ekki þarna í umboði láglaunafólks sem borgar í dag um 40% meira af launum sínum hlutfallslega í leigu samanborið við höfuðborgir hinna norðurlandanna, en um aldamót voru leigukjör Íslendinga sambærileg. Ekki var hann þarna heldur fyrir hönd fólks sem keypt hafði fasteign á síðustu árum, borgað allt of hátt verð fyrir og stendur núna frammi fyrir gífurlegri hækkun á lánakjörum sínum.
Jú Þorsteinn var þarna fyrst og fremst fyrir sjálfan sig og sitt fyrirtæki en það kom berlega fram í málflutningi hans þar sem hann reyndi að gera lítið úr húsnæðisvanda þjóðarinnar. Það vantaði ekki svo margar íbúðir og leiguverð væri ekki of hátt sem í dag er að hækka mikið vegna verðs á fasteignum þótt bil á milli kaup og leiguverðs hafi minnkað upp á síðkastið þá er það samt miklu hærra en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.
Kjarni málsins er nefnilega sá að síðustu 10 árum hefur fasteignarverð hækkað um 100% að raunvirði hér á landi eins og BHM fer yfir í þessari grein. Það þýðir að fyrirtæki undir forystu Þorsteins og tengt honum hafa aukið framlegð sína sem því nemur. Það er þeim í hag að viðhalda hér skorti á húsnæði og háu fasteignaverði og því gerir hann lítið úr ástandinu og reynir að beina umræðunni í þá átt sem honum og hans hentar. Einnig er það svo að mati flestra hagfræðinga að orsök verðbólgunnar sé fyrst og fremst að finna á fasteignamarkaðnum þótt inn í spili utanaðkomandi þættir líka.
Það er hins vegar spurning af hverju manni í forsvari fyrir byggingarfyrirtæki sé veittur vettvangur til að útvarpa áróðri sínum sem fyrrum þingmanni/ráðherra í stað þess sem hann raunverulega er? Og af hverju spurði þáttastjórnandi, Heimir Már, ekki út í hagsmuni hans ?
Það er því einstaklega kaldhæðnislegt að þegar Ragnar Þór talaði um spillingu þá sem ríkir í samfélagi okkar í dag þá mótmælti Þorsteinn því harðlega, maður sem undir fölsku flaggi sem fyrrum stjórnmálamaður nýtti stöðu sína til að verja og afvegleiða umræðu sem skiptir okkur öll máli. Ef það er ekki spilling þá hvað ?
Höfundur er varaformaður leigjendasamtakanna.
Jafn gáfulegt og hjá Þorsteini Víglundsson, ekkert.