Árið 2018 var Gilbert King Pulitzerverðlaunahafa boðið að tala á ráðstefnu um bók sem hann hlaut verðlaunin fyrir, bókina Devil in the Grove, sögu af fjórum ungum svörtum mönnum í Mið-Flórída, sem voru ranglega sakaðir og dæmdir fyrir að hafa nauðgað hvítri konu árið 1949, og lögfræðinginn sem barðist fyrir þá. Eftir ráðstefnuna sat Gilbert við borð, upptekinn við að árita bækur, þegar dómari kom að honum og rétti honum nafnspjald. Aftan á spjaldið hafði dómarinn skrifað annað nafn, Leo Schofield, og undir því: Hann er saklaus.
Einhverju síðar ákvað Gilbert að hringja í dómarann sem svo sagði Gilbert söguna af Leo, að árið 1987, þegar Leo var 21 árs, var 18 ára eiginkona hans, Michelle, myrt á hrottalegan hátt. Tveimur árum seinna er Leo dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið, það var fyrir meira en þrjátíu árum síðan. Það sem dómarinn vildi segja honum var að sautján árum eftir morðið á Michelle komu ný sönnunargögn af vettvangi í ljós sem tengdu annan mann við glæpinn. Mann sem átti sögu um ofbeldi í nágrenninu og sakaskrá sem sannaði það. Sá átti reyndar líka sögu um kerfi sem brást honum þegar foreldrar hans beittu hann ofbeldi.
En Flórídaríki vildi ekkert með slíkar upplýsingar gera en Gilbert vildi komast að sannleikanum og fékk Kelsey Decker pródúsent í lið með sér. Saman eyddu þau nær fjórum árum í að rannsaka málið sem stækkaði bara og stækkaði í hverjum þætti og óréttlætið sem Leo varð fyrir af hálfu ríkisins varð alltaf augljósara og augljósara.
Athugasemdir