Nú mætti ætla að Íslendingar standi frammi fyrir nokkru álitamáli, sem varðar fyrirhugaðar hvalveiðar auðkýfingsins Kristjáns Loftssonar. Það hefur nefnilega komið í ljós að allt dráp hans á þúsundum stórhvela í gegnum tíðina hefur farið fram með skelfilegum þjáningum stórbrotinna spendýra. Ég endurtek: „...með skelfilegum þjáningum stórbrotinna spendýra“. Í mjög langan tíma.
Það var viðbúið að einhver ráðherrann stigi fram og segðist ekki kæra sig um slík „tilfinningarök“. Líkast til af því að hún er svo „skynsöm“. Sem og ráðherrann vissulega gerði.
Nú veit ég ekki hvort þessi ráðherra – sem er spendýr – hefur gert sér í hugarlund hvernig það er að vera móðir, eða með fangi (rétt eins og hún spendýrið væri með barni) og fá í sig – algerlega upp úr þurru – sprengiskutul frá hr. Kristjáni Loftssyni í boði m.a. Kristjáns Þórs Júlíussonar og Sjálfstæðisflokksins.
En svar kvendýrsins má væntanlega flokka undir lævísleg vélabrögð ungliðadeildarinnar í Valhöll, sem og einhverja árlega milljónastyrki frá gamla freka karlinum. Honum tókst jú með einni orðsendingu að fá Kristján Þór ráðherra til að leggja blessun sína yfir að mávar gætu skitið yfir aðgerðarplanið hans, sér og sínum að meinalausu, með lítilli reglugerðarbreytingu. Og MAST hélt kjafti. Á sama tíma er amast við heimaslátrun.
Eins er áhugavert þegar menn, sem maður ætlar vera nokkuð sómakæra, koma fram með þau rök að vandinn við fordæmingar á þessum villimannslegu veiðum snúist um þá „veigamiklu“ hugmynd að við mennirnir gætum þá reynst vera sekir um svokallaða tegundarhyggju. Að við værum með ósanngjörnum hætti að gera upp á milli dýrategunda. Rétt eins og rasistar. Svona menn kallast beggja handa járn.
Tegundarhyggja er upprunalega siðfræðilegt hugtak og vísar í þá siðferðilegu afstöðu, að það sé ekki okkar mannanna að flokka ágæti annarra lífvera út frá okkar gildismati. Sannarlega ekki þá rangsnúnu hugmynd að að vegna þess að við drepum dýr, þá megi ekki gera upp á milli dýranna, sem við drepum. Hvort heldur varðar stórhveli eða kjúklinga. Þetta er eins og að lesa fagnaðarerindið fyrir andskotann.
Ef menn þykjast geta réttlætt þessar ógeðslegu veiðar á langreyðum – sumum mjólkandi, öðrum með fangi – með vísun í að þeir sjálfir hafi auðveldlega keypt sér kjúklingakjöt á grillið, og að það beri ekki að gera greinarmun á þessum gjörningum, þá eru þeir einfaldlega siðlausir vitleysingar. Á þessu er eðlismunur, ekki stigs.
Það að aflífa kjúklinga í sláturhúsi á augabragði jafngildir ekki því að skjóta sprengiskutlum í einhver stórfenglegustu spendýr jarðar, sem þurfa jafnvel að heyja dauðastríð sitt í margar klukkustundir. Það er einfaldlega fáránlegt að jafna þessu saman. Kjúklingar telja jú einhverja þrjátíu milljarða, en langreyðar eru á válista.
Tegundarhyggja í þessum skilningi „áhrifavaldanna“ er allt í einu notuð í raun til að réttlæta útrýmingarherferð gegn lifandi verum í nafni kapítalisma. Mantran er þessi:
Ef maður getur drepið kvikindið og selt það, þá er allt harla gott. Geri maður upp á milli dýrategunda þá er sá sami sekur um „tegundarhyggju“ og jafnframt helber tegunda-rasisti.
Miðað við þá staðreynd að mannkyn er núna við það að útrýma dýrategundum á skala, sem jafna má við verstu hamfarir dýrategunda í gjörvallri sögu jarðar, þá ættum við sannarlega að gefa okkur tíma til að staldra við og virða og dá stórhveli í rólegheitum.
Nú gæti einhver maldað í móinn og reynt að halda því fram að hvalveiðar hafi skilað miklum ávinningi fyrir þjóðarbúið, t.d. á síðasta ári. Sjálfur sprengikarlinn Kristján Loftsson staðhæfði að heilir tveir milljarðar hefðu skilað sér til hinna fullvalda Íslendinga frá sjálfu fullveldisríkinu Japan.
Kristján Loftsson fær samt ekki að sigla í gegnum Súes-skurð með þveisti sitt, enda eru langreyðar á válista. Siðaðar þjóðir hafa sett skorður á slíkum flutningum á kjöti dýra sem eru á válista. Það á líka við um fíla og fjölmargar aðrar tegundir. Fleiri en nokkur maður getur ímyndað sér.
Fyrir vikið þarf freki milljarðamæringurinn að kosta skipið suður fyrir Afríku með tilheyrandi kostnaði og mengun vegna steinolíubrennslu. Sem kann m.a. að skýra viðvarandi tap hans á þessum áráttukennda belgingi.
En kappinn heldur því samt sem áður fram að ávöxtur alls þessa erfiðis, við að skjóta sprengjum í alla þessa hvali, hafi nú skilað rúmlega 1000 krónum á hvert kíló af hvalketi, sem talið er að Japanar noti í besti falli í gæludýrafóður. Ungt fólk í Japan hefur engan áhuga á hvalkjöti. Þetta er hærra verð en á óunnum þorski. Trúi því hver sem vill!
Kristjáni Loftssyni var þó ekki sérstaklega brugðið við þessi ámæli, enda byggi þau jú einungis á einhverju tilfinningasnakki. Né heldur skipperum hans, sem þykir tilhlýðilegt að höfða mál á hendur MAST, enda eru þeir stoltir dráparar og annt um einkalíf sitt og vilja ekki að afrek sín opinberist almenningi.
Gamli freki karlinn hélt sig nokkuð til hlés í öllu þessu gjörningaveðri, en skreið loks út úr skelinni nýverið til að útskýra erindi sitt. Þegar hann var spurður út í hvort ásættanlegt væri að eltast við skotna langreyði í einhverjar fimm klukkustundir, þá gerðist karlinn ljóðrænn og sagði: „Tíminn dróst út og myrkrið skall á“. Og jafnframt að hann væri svolítið spældur út í skipperinn fyrir að standa í þessu stússi í fimm tíma svona áliðins kvölds.
Ennfremur vildi hann benda á að þetta væru einfaldlega hefðbundnar veiðar og vísaði í að hefðbundnar veiðar á fiski væru undanþegnar öllu þessu tilfinningakjaftæði.
Þegar honum var bent á að hvalir eru ekki fiskar, heldur spendýr, þá svaraði hann glaðhlakkalega: „Nei, þetta eru sjávarspendýr og hefðbundnar veiðar.“ Þetta á að teljast réttlæting samkvæmt lögum.
Kristján þótti jafnframt mikilvægt að benda á að hann sé nú að nútímavæðast og m.a. tilbúinn að nýta sér gervigreind til að afmarka hvenær beri að skjóta sprengjum í stórhveli á ásættanlegu færi. Ef það þarf gervigreind til að siða skytturnar, þá er útlitið harla dökkt.
Ekki nóg með það, heldur er hann að velta vöngum yfir því hvort ekki megi leiða rafmagn í taugina frá sprengjuskutlinum og gefa dýrunum rosalegt rafmagnsstuð til að þau drepist, þegar skotin misheppnast. Hann má þó eiga það að þarna er engum tilfinningarökum fyrir að fara.
Nú mætti kannski benda hinum friðelskandi kærleiksríku fullvalda Íslendingum á að það er einungis eitt einkafyrirtæki, sem fær að sprengja sprengjur jafnaðarlega hér á Íslandi til þess að drepa einhver stórfenglegustu dýr jarðar.
Þetta er friðsama og ríka þjóðin, sem syngur: „eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár“ við heppileg tækifæri og ber sér á brjóst og tárast.
Sá ráðherra, sem nú heldur á spöðunum, segist ekki geta bannað þessar ómennsku veiðar, vegna þess að hún óttist að sprengjukarlinn Kristján Loftsson milljarðamæringur geti farið fram á skaðabætur.
Í guðanna bænum, Svandís, láttu hann lögsækja ríkið og þá okkur skattgreiðendur. Þó að það kosti þrjá milljarða eða fleiri. Annað eins hefur nú sést.
Bættur sé skaðinn!
Höfundur er þýðandi.
Held þó að þýðandi/höfurdur JB. sé alin upp á lambakjöti, kálfa/nautakjöti kjúkling hugsanlega ýsu og þorski en ekki signum og hefur svo skoðun á hvernig má veiða og aflífa dýr sem hann og hans borða og selja svo til annara landa sem fæðu. Hvað veit þýðandi sem væntanlega er með háskólagráðu og alin upp á launum frá ríkinu sem þó verður ekki fullyrt hér um JB. Veit hann hvað það er að strita ca 16 tíma á sjó til að hafa ofan í sig og sína. Hefur hann einhvern tíma verið hvalur karkyns eða kvenkyns? eða ylla hvalin af manna verkjum. Hef grun um eftir að hafa lesið grein hans hafi maðurinn ekki hugmund um hvað lífið snýst um . Vil þó benda á að afkomanda minna heili er að mestu óbreyttur frá fornöld td. 1 vörn, 2 fæðu, 3 vera virtur að öðrum. Hvernig vill höfundur og þýðandi draga fram lífið fyrir sig og sína afkomendur sem karlmaður án þess að veiða og lífláta dýr og jafnvel menn með sér til varnar og eða framfærslu. Heldur hann að framtíðin verði að þessu leiti betri en fortíðinn.