Úrslitaleikur í Subway-deild karla í körfubolta fór fram í Origo-höllinni fimmtudagskvöldið 18. maí síðastliðinn þar sem Valur og Tindastóll kepptu um Íslandsmeistaratitilinn. Gríðarleg spenna var fyrir þessum leik þar sem liðin hafa verið mjög jöfn á mótinu og engin leið að spá fyrir um það hvort liðið væri líklegra til að vinna.
Leikurinn byrjaði ekkert sérstaklega vel fyrir Tindastól þar sem þeir voru lengi fastir nokkrum stigum undir. Frá hálfleik og fram að fjórða leikhluta varð leikurinn hins vegar alveg hnífjafn og æsispennandi.
Keyshawn Woods, leikmaður Tindastóll, átti margar alveg magnaðar körfur og endaði leikinn með því að skora þrjú víti í röð og koma stöðunni í 82 - 81 fyrir Tindastól. Þannig tókst Tindastól að verða Íslandsmeistari í fyrsta sinn og um leið og úrslitin voru ráðin sturlaðist áhorfendastúkan gjörsamlega – fólk æddi inn á völlinn fagnandi, hoppandi og öskrandi.
Ég var auðvitað hluti af því og var reyndar í smá hættu að troðast undir, en þetta var samt geggjað gaman.
Woods var valinn besti maður leiksins með yfir 30 stig, Kári Jónsson hjá Val átti líka mjög góðan leik og ekki má gleyma þjálfara Tindastóls, Pavel Ermolinskji, sem hlýtur að vera hoppandi glaður að vinna Íslandsmeistaratitilinn á sínu fyrsta ári sem þjálfari.
Til hamingju Tindastóll!
Athugasemdir