Garðar Emanúel Axelsson Cortes óperusöngvari lést þann 14. maí. Garðar fórnaði eigin frama á alþjóðavettvangi til að sinna hugsjónarstarfi hér heima. Fyrir vikið skilur hann eftir sig ríkulega arfleifð, en hann lét víða til sín taka og var einn áhrifamesti íslenski tónlistarmaður seinni tíma.
Garðar var fæddur í Reykjavík 24. september 1940. Hann lauk prófi frá The Royal Academy of Music árið 1968. Ári síðar útskrifaðist hann frá Watford School of Music. Hann var frumkvöðull sem stóð meðal annars að stofnun Söngskólans í Reykjavík árið 1973 og Íslensku óperunnar sjö árum síðar. Á fyrsta starfsári Söngskólans bárust hundrað umsóknir, en alls hafa þúsundir söngvara hafa stundað nám við skólann. Þeirra á meðal er sonur Garðars, Garðar Thór Cortes. Eftir stofnun Íslensku óperunnar var hann óperustjóri í tæp tuttugu ár og setti upp fjölda sýninga á starfstíma sínum. Síðar stjórnaði hann Óperunni í Gautaborg í Svíþjóð um tíma. Á ferli sínum starfaði Garðar sem óperusöngvari, óperustjóri, stofnandi hljómsveita og hljómsveitarstjóri, stofnandi kóra og kórstjóri og fleira.
Hann hlaut fjölda viðurkenninga vegna starfa sinna, en þar má nefna Hina íslensku fálkaorðu sem hann var sæmdur árið 1990 og heiðursverðlaun Grímunnar árið 2017.
Garðar var 82 ára þegar hann lést. Eftirlifandi eiginkona hans er Krystyna Maria Blasiak Cortes. Garðar lætur eftir sig fjögur börn og níu barnabörn.
Athugasemdir (1)