Appelsínugult viðvörunarljós blikkar. Viðvörunarlúðrarnir gjalla í myrkvuðum höfuðstöðvum netöryggissveitar CERT-IS. Óvissustigi almannavarna hefur verið lýst yfir. Einhver hrópar „NETÁRÁS!“ Þrautþjálfaðir tölvunar- og kerfisfræðingar hlaupa í átt að hátæknivinnustöðum sínum og byrja að pikka taktfast á lyklaborðin; það þarf að lágmarka skaðann. Hátt í fimm ábendingar hafa borist stofnuninni; eldri maður að reyna að komast inn á alþingisvefinn til að taka sinn daglega rúnt í gegnum ræðusafn Björns Bjarnasonar. Annar reyndi að komast inn á vef Umhverfisstofnunar til þess að athuga hvort það sé í alvörunni þannig að álverin sjái bara um sitt eigið umhverfiseftirlit. Síðasta vísbendingin var að einhver reyndi að heimsækja vefsíðu Stjórnarráðsins, sem hafði einfaldlega aldrei gerst áður. Þessir rússnesku hakkarar eru að reyna að ógna upplýsingaöryggi Íslands og það mun ekki gerast. Ekki á okkar vakt.
Óformleg árshátíð viðbragðsaðila
Það var svolítið fallegt að sjá fölskvalausa áhugann í þessari óformlegu árshátíð viðbragðsaðila á Íslandi síðustu vikuna. Aðalskemmtiatriðið var að fá að taka þátt í stærsta LARPi Íslandssögunnar þar sem allir fengu tækifæri til að þykjast kunna á hálfsjálfvirka riffla og loka hinum og þessum götum með Íslandsbanka-maraþon vegatálmunum. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug lágflug yfir borgina með haukfránum augum sínum til þess að athuga hvort að Wagner-sveitir Pútíns hefðu nokkuð tekið sér pásu frá framlínunni í Úkraínu til þess að ráða forsætisráðherra Hollands af dögum á leið sinni í Bláa lónið.
Ég geri mér grein fyrir að það þarf að fylgja ákveðnum öryggisstöðlum þegar kemur að svona samkomu. En í faðmi alls þessa ætlaða öryggis, þar sem þungvopnaðir lögreglumenn standa á hverju einasta horni miðborgarinnar, er merkilegt að upplifa að manni hafi aldrei liðið eins óöruggum; að velta fyrir sér hvort það væri leyniskytta að stara á mig bora í nefið í Austurstrætinu.
Það hlýtur samt að hafa verið ákveðið anti-climax fyrir alla þegar að það kom á daginn að eftir allt slúðrið myndi Zelensky svo ekki mæta eftir allt saman, ekki heldur Joe Biden. Draumarnir um annan kaldastríðs-leiðtogafund visnuðu niður í frekar hefðbundna bjúrókratasamkomu þar sem eftirminnilegasta myndin verður líklega af forseta Íslands að reyna af veikum mætti að opna regnhlíf eins og hann hafi aldrei komið til Íslands, eða af röðinni af einkaþotum sem teygði sig niður flugvöllinn eins og röðin á kaffistofu Samhjálpar á jólum. Forsetar Tékkíu, Slóveníu og Slóvakíu ákváðu þó að ferðast saman í einni einkaþotu til að lágmarka kolefnisspor sitt. Við þökkum þeim fyrir þeirra framlag.
Þessi samkoma minnir okkur kannski helst á hversu skrítið samband Ísland á við restina af Evrópu. Okkur finnst gott að dýfa tánni í Evrópusamstarfið en þó aldrei af fullri alvöru. Það er þessi eilífa hugmynd um sjálfstæði og fullveldi, að við ætlum ekki að framselja frelsi, hagsmunum, auðlindum og sálu einhverri brusselískri miðstýringu; hagsmunum Íslands sé best borgið undir eigin stjórn. En hverjir eru þessir hagsmunir, og hver er það sem stýrir þeim?
Samherji sem ætlar alls ekki að biðjast afsökunar
Vefsíður íslenskra stofnana voru ekki einu fórnarlömb netglæpa á dögunum. Fjölmiðlar landsins vöknuðu með óvænta tilkynningu um vefsíðu þar sem Samherji ákvað loks að bera ábyrgð á og biðjast afsökunar á öllum sínum fjölmörgu ætluðu glæpum. Upplýsingadeild Samherja var fljót að leiðrétta þetta og árétta að þetta væri fölsk vefsíða. Samherji ætlaði þvert á móti alls ekki að biðjast afsökunar. Fyrirtækið ætlaði ekki að biðjast afsökunar á að greiða hundruð milljóna í mútur til ráðamanna í Namibíu til þess að svindla til sín verðmætum kvóta. Þau ætluðu ekki að biðjast afsökunar á því að hafa arðrænt fátækt ríki í sunnanverðri Afríku og kippt fótunum undan innlendri atvinnusköpun þar. Þau ætluðu alls ekki að biðjast afsökunar á því að hafa stundað skipulagða ófrægingarherferð og upplýsingaóreiðu til þess að hylma yfir þessa starfsemi. Engin afsökunarbeiðni. Það er að minnsta kosti gott að vita hvar allir standa fjórum árum eftir að Fishrot-skjölin komu upp á yfirborðið. Engin ábyrgð. Engar afleiðingar.
„Það er ekki hægt að feta niður neinn röklegan slóða til þess að skilja ást Kristjáns á því að myrða hvali.“
Á sama tíma birti MAST skýrslu um hversu ótrúlega lélegur Kristján Loftsson sé í að aflífa hvali þótt það sé bókstaflega það eina sem hann hefur áhuga á. Í mörgum tilfellum þurfi fleiri en eitt skot til að drepa dýrin og dæmi um að þau heyi dauðastríð í lengri tíma. Það er ekki líklegt að þessi skýrsla skili miklu á næstunni; það er ekki eins og önnur rök gegn hvalveiðum hafi miklu skilað hingað til, hvort sem þau eru siðferðileg, efnahagsleg, ímyndartengd. Nú síðast hafa vísindamenn staðfest að hvalir séu gríðarlega mikilvægur hlekkur í kolefnisbindingu hafsins. Ekkert af þessu virðist skipta miklu. Ekki fyrir yfirvöld og alls ekki fyrir Kristján Loftsson. Það er ekki hægt að feta niður neinn röklegan slóða til þess að skilja ást Kristjáns á því að myrða hvali; hún virðist ekki vera efnahagstengd eða rekstrartengd. Hann virðist ekki vera að svara einhverri gríðarlegri eftirspurn. Kristján er bara þrjóskur íslenskur karl; Bjartur í Sumarhúsum hefði Bjartur verið margmilljarðamæringur með bolmagn til að fjármagna duttlunga sína til dauðadags. Mun aldrei taka rökum eða ráðum eins né neins þótt dallarnir ryðgi og hvalkjötið rotni. Það er líklega útséð um að Kristján muni nokkurn tímann hætta á meðan hann hefur enn blessun yfirvalda á þessum kamikaze-iðnaði.
Ég er bara feginn að Kristján Þór Júlíusson sé hættur í pólitík því hann hlýtur að vera í fullri vinnu við að hringja í þessa gömlu vini sína til að stappa í þá stálinu.
Ólígarkar skapaðir í skjóli yfirvalda
Kristján Loftsson og Þorsteinn Már Baldvinsson eru holdgervingar þessa íslenska athafnafrelsis. Ólígarkar sem voru skapaðir í skjóli íslenskra yfirvalda og gefin slík völd yfir atvinnuvegum og auðlindum að enn þann dag í dag yppa yfirvöld bara öxlum yfir starfsemi þeirra. Það er löng hefð fyrir því að framselja auðlindir okkar í hendur þeirra sem illa með þær fara, arðræna og skila eins litlu til baka og þeim er leyft að komast upp með. Það skiptir ekki máli hvort það er fiskurinn, fjármálakerfið eða fasteignamarkaðurinn.
Í nafni þessa sama athafnafrelsis hafa risavaxin leigufélög fengið að sópa upp húsnæði, sprengt verðið upp og nýta sér nú aðstæðurnar sem þau skópu sjálf til að skrúfa verðið þannig upp að fólk sem er læst inni á leigumarkaði er komið í svo djúpa fátæktargildru að það virðist engin leið upp úr henni næstu kynslóðir. Allt í skjóli athafnafrelsisins. Fyrirtæki skrúfa upp verðið, lánastofnanir skrúfa upp vexti, álverin skrúfa upp orkuframleiðsluna. Allt til að verja hagnaðinn sem einhvern veginn aldrei minnkar, sama hversu svört efnahagsspáin er. Það þarf aldrei að fórna framlegðinni. Allt þetta er gert í skjóli yfirvalda sem með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi valdefla, réttlæta og styðja þessa karla sem eru löngu orðnir vanir því að mega bara gera það sem þeim dettur í hug án afleiðinga. Þetta er sjálfsákvörðunarvaldið sem við höldum í með hvítum hnúunum. Á meðan er almenningur beðinn um að leggjast bljúgur í fátæktargildruna í nafni þjóðarsáttar.
Örlög í höndum gamalla drykkju- og golffélaga
Þetta er sagan af íslenska athafnafrelsinu; framsal alls þess sem skiptir máli til gráðugra karla sem gera bara það sem þeir vilja og yfirvalda sem misstu völdin svo langt frá sér að engin geta eða vilji var eftir til að bregðast við því og þjóðin dæmd til að sá fræjum í akur óvinarins um alla tíð því það var einfaldlega ekki boðið upp á neitt annað. Örlögum okkar er ekki stýrt af einhverjum sexí skuggaríkisstjórnum eða Bilderberg hópnum, bara gömlum drykkju- og golffélögum sem hanga saman á einni sameiginlegri hugsjón: ég á þetta, ég má þetta.
Ég held að íslenska þjóðin eigi ekki að hafa miklar áhyggjur af því að framselja sjálfsákvörðunarrétt og auðlindir þjóðarinnar til regluverksins í Brussel. Við erum löngu búin að gefa þetta allt.
"Laugardagurinn 20. maí 2023. Á þessum degi árið 1944 hófst þjóðaratkvæðagreiðsla um lýðveldisstofnun á Íslandi og stóð yfir í fjóra daga. 97% kjósenda samþykktu sambandsslit við Danmörku og 95% samþykktu breytingar á stjórnarskránni. Kjörsóknin var ríflega 98% sem er mesta kjörsókn í sögu Íslands.".
Síðan birtist pistillin hér að ofan og sem endar svona:
"Ég held að íslenska þjóðin eigi ekki að hafa miklar áhyggjur af því að framselja sjálfsákvörðunarrétt og auðlindir þjóðarinnar til regluverksins í Brussel. Við erum löngu búin að gefa þetta allt.".
Hljómar eins og börnin hafi fleygt foreldrunum út, en vilji fá þá aftur.