Vegna innrásar Rússa í Úkraínu hafa eðlilega skapast miklar umræður um fyrirkomulag öryggismála í Evrópu. Við höfum annars vegar hernaðarbandalagið NATO og hinsvegar Evrópusambandið sem hefur fjölbreyttari grunn undir sinni starfsemi, einkum þó efnahagslegan. Í ríkjum sem standa utan þessara bandalaga eru uppi mjög ákveðnar hugmyndir og tillögur um inngöngu vegna innrásarinnar vegna þess að fólk telur öryggi sínu ógnað. Nú er Finnland nýlega orðinn aðili að NATO og umsókn Svíþjóðar verður væntanlega afgreidd á næstu misserum. Þessar þjóðir hafa því gefið hlutleysisstefnuna upp á bátinn.
Hér á Íslandi hefur það gerst að algjör viðsnúningur hefur orðið í viðhorfum fólks skv. könnunum til hugsanlegrar aðildar að ESB. Síðastliðið ár hefur komið fram í öllum könnunum að meirihluti þeirra sem taka afstöðu er hlynntur aðild að Evrópusambandinu. Ekki er vafi á að styrjöldin í Úkraínu hefur haft áhrif á afstöðu íslendinga til aðildar
Dugar NATO?
Eðlilega vaknar sú spurning hvort ekki sé nægilegt fyrir okkur íslendinga að vera innanborðs í NATO fleyinu og þar sem ESB er hvorki hernaðar- né varnarbandalag sé lítið á aðild að græða við þær aðstæður sem nú ríkja. Ég er á því að í því felist ekki nægilegt öryggi.
Fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Í NATO eru flestar þjóðir vestur-, mið - og suður-Evrópu auk Bandaríkjanna og Kanada. Fyrir utan standa aðeins Sviss og Austurríki þegar umsókn Svíþjóðar hefur verið samþykkt. Bandaríkin hafa gegnt lykilhlutverki í bandalaginu frá upphafi en þar eru nú blikur á lofti. Mikill klofningur er orðinn í Bandaríkjunum sem kristallaðist með kjöri Trumps í forsetaembættið og þó hann hafi tapað embættinu í síðustu kosningum er fremur líklegt að hann eða einhver á svipaðri línu verði kjörinn forseti í næstu kosningum. Orsakir þessa klofnings eru bæði þjóðfélagslegar og sögulegar en verða ekki raktar hér. Í forsetatíð Trumps fjarlægðust Bandaríkin bandalagsþjóðirnar í Evrópu og miklir dáleikar virtust með honum og Pútin Rússlandsforseta. Báðir tileinkuðu sér valdstjórnarstíl og byggðu upp ímynd hins valdamikla leiðtoga. Bandaríkin eru því ekkert sérlega vænlegur bandamaður í framtíðinni og gætu hugsanlega snúið baki við Evrópuríkjunum.
ESB er öryggisbandalag
Þessu til viðbótar er ESB með sínum hætti öryggisbandalag og til þess var beinlínis stofnað í því skyni. Upphaf þess má rekja til Kola- og stálbandalagsins sem stofnað var 1952 í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Með því bundu menn vonir við varanlegan frið í Evrópu. Lykillinn var að sjá til þess að hagsmunir Frakklands og Þýskalands yrðu sameiginlegir, þar með myndu þjóðirnar ekki fara í stríð á ný. Nú rúmum sjötíu árum síðar er ljóst að þessar vonir rættust. Í kjölfar styrjaldar á Balkanskaganum eftir 1990 hafa flest ríkjanna sem urðu til í kjölfarið annað hvort gengið í Evrópusambandið eða sótt um aðild og vonandi þar með tryggt frið á því svæði til framtíðar.
Til að tryggja öryggi sitt enn frekar hafa Evrópusambandsríkin ákveðið að efla samstarf sitt í öryggis- og varnarmálum og því verða aðildarríkin enn betur tryggð gagnvart utanaðkomandi ógn en áður.
Ég held því að skynsamlegt sé að styrkja tengslin við Evrópuríkin sem standa okkur næst bæði sögulega og menningarlega auk þess sem þau eru okkar mikilvægasta markaðssvæði.
Önnur rök - efnahagsleg og pólitísk
Við erum nú þegar aðilar að EES, Evrópska efnahagssvæðinu, sem er nokkurs konar aukaaðild að ESB, og höfum haft af því margvíslegt gagn þ.á.m. fjórfrelsið svokallaða þ.e. frjálst flæði vöru, fólks, þjónustu og fjármagns og er grundvöllur innri markaðar ESB og Evrópska efnahagssvæðisins. Í gegnum EES samninginn tökum við ýmsa löggjöf frá ESB svo sem í umhverfismálum, vinnuverndarmálum, samkeppnismálum o.s.frv. Við munum hins vegar ekki hafa atkvæðisrétt um þessa löggjöf nema gerast fullgildir aðilar að sambandinu.
Það er því hægt að færa fyrir því rök að við eflum fullveldi okkar með inngöngu í ESB vegna þess að um leið höfum við meiri áhrif á þau mál sem okkur varða alvegt öfugt við þær fullyrðingar andstæðinga aðildar sem á okkur glymja þegar hugsanleg aðild er rædd. Ágætis dæmi er sú staða sem upp er komin vegna flugs frá Íslandi til landa Evrópsambandsins en flug innan Evrópu fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Svo virðist að torsótt verði fyrir Ísland að fá undanþágu frá þessum reglum. Ef Ísland væri aðili að ESB hefði verið auðveldara fyrir okkur að koma sjónarmiðum okkar á framfæri og væntanlega með meiri árangri.
Upptaka evru í kjölfar aðildar myndi síðan án efa styrkja íslenskt efnahagslíf verulega, ekki síst hag almenns launafólks sem býr við gríðarháa vexti á húsnæðislánum og hátt matvælaverð sem rekja má beint til örmyntarinnar íslensku krónunnar.
Stefnum að ESB aðild
Umsókn okkar að ESB er enn í fullu gildi þó viðræður hafi stöðvast og auðvelt að halda þeim áfram ef vilji er fyrir hendi. Best væri þó að útkljá það með þjóðaratkvæðagreiðslu til að taka af allan vafa um umboð til slíkra viðræðna. Í nýlegri könnun Maskínu kom skýrt fram hvað þjóðin vill. Af þeim sem tóku afstöðu voru 56% fylgjandi aðild að ESB og 76% af þeim sem tóku afstöðu vildu greiða atkvæði um áframhaldandi aðildarviðræður.
Rökrétt niðurstaða að öllu virtu er að Ísland gerist fullgildur aðili að Evrópusambandinu öryggisins vegna auk annars hagræðis sem af slíkri aðild leiðir. Um leið tryggjum við að rödd okkar heyrist á sameiginlegum vettvangi með fullum atkvæðisrétti
Höfundur er með B.A.-gráðu í stjórnmálafræði og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.
Politíkusar eru spilltir og gera ekkert annað en að moka undir sig og sína.
Með því að ganga í evrópusambandið komast þeir ekki upp með fúskið og þjófræðið.
Kv