Víðsýni snýst um að skyggnast víða frekar en að einblína á of þröngan blett því þannig hættir mönnum til að missa sjónar á því sem mestu skiptir.
Víðsýni, þröngsýni
Þetta er kjarni munarins á víðsýni og þröngsýni svo sem augljóst er. Þessi munur er gagnlegra viðmið á vettvangi stjórnmálanna en til dæmis greinarmunurinn sem er gerður á hægri og vinstri enda er það iðulega sama súpan eins og ríkisstjórn Íslands þessi misserin vitnar um.
Hitt er gagnlegra til skilnings á stjórnmálum að skipta skoðunum manna í víðsýn viðhorf í andstöðumerkingu við þröngsýn viðhorf, til dæmis með því að greina á milli opingáttarsjónarmiða þeirra sem kjósa mikil og blómleg samskipti við önnur lönd og innilokunarsjónarmiða hinna sem kjósa helzt að búa að sínu og halda útlöndum í hæfilegri fjarlægð. Innilokunarsjónarmið hafa lengi verið á undanhaldi og opingáttarsjónarmið í sókn í ljósi langrar og góðrar reynslu af milliríkjasamstarfi, til dæmis innan Evrópusambandsins. Við þekkjum þetta úr daglegu lífi. Mun fleiri kjósa hjónaband en einlífi.
Afstaða launþega til ESB
Verkalýðsfélög hafa hlutfallslega fleiri launþega á Íslandi innan sinna vébanda en tíðkast í nokkru öðru landi samkvæmt tölum frá Alþjóðavinnumálastofnuninni ILO (Mynd 1). Rösklega níu af hverjum tíu launþegum á Íslandi eru í verkalýðsfélögum borið saman við tvo af hverjum þrem í Danmörku og helming í Noregi. Þeim mun brýnna er að verkalýðshreyfingin láti hagsmuni launþega í víðum skilningi til sín taka, ekki bara kaup og kjör, heldur einnig til dæmis þann hag sem launþegar hefðu af ESB-aðild gegnum lægra verð á mat og drykk, lægri vexti í krafti aukinnar samkeppni á lánsfjármarkaði, tryggari mannréttindi og fleira. Enda styðja alþýðusambönd allra ESB-landa veru landa sinna í ESB engu síður en samtök vinnuveitenda.
Samtök atvinnulífsins á Íslandi halda samt áfram að berjast gegn aðild að ESB vegna þess að þau kæra sig ekki um aukna erlenda samkeppni, þau vilja heldur fá að halda áfram að lifa og hrærast í fákeppni og okri í friði fyrir erlendum keppinautum. Engin önnur samtök vinnuveitenda í Evrópu hafa tekið hliðstæða afstöðu gegn aðild að ESB og enginn evrópskur borgaralegur stjórnmálaflokkur heldur, ef frá eru taldir fáeinir smáflokkar öfgafullra þjóðernissinna.
En hvað um samtök launafólks? Hvers vegna fylgja þau ekki fordæmi systursamtaka sinna í öllum öðrum Evrópulöndum? Þröng skilgreining forystumanna ASÍ og aðildarfélaga innan sambandsins á hlutverki samtakanna fyrir hönd félagsmanna ásamt ótta við innbyrðis ágreining um ESB og önnur slík mál hefur í reyndinni veitt afturhalds- og innilokunaröflum neitunarvald sem brýnt er að frá þeim sé tekið. ASÍ þarf ekki að segja nema tvennt: Við teljum að ESB-aðild myndi bæta hag launþega og við viljum að kjósendur leiði málið til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Einkaskoðanir einstakra forystumanna launþega á ESB skipta þar engu máli, ekki frekar en einkaskoðanir einstakra þingmanna eða þingflokka á ESB skipta máli umfram skoðanir einstakra kjósenda. Þetta er stórmál sem kjósendur eiga að fá að leiða til lykta án íhlutunar stjórnmálamanna og hagsmunahópa svo sem tíðkazt hefur og tíðkast enn í Evrópu nema þegar stuðningur við inngöngu er svo mikill og augljós að þjóðaratkvæðagreiðsla er talin óþörf eins og gerzt hefur sums staðar í Suðaustur-Evrópu.
Stjórnmálaflokkar og hagsmunafélög ættu að réttu lagi að bera svo mikilvæg mál fagnandi undir þjóðaratkvæði til að fækka þeim ágreiningsefnum sem sundra þeim. En fyrst þarf auðvitað að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána 2012, því fyrr verður ekki hægt að halda marktæka þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi um nokkurt mál.
Afstaða almennings til ESB
Evrópska hagstofan Eurostat fylgist gerla með öllum hræringum almenningsálitsins í aðildarlöndum sambandsins svo sem vera ber í lýðræðisríkjum. Ný könnun á viðhorfum almennings til ESB leiðir í ljós að rösklega tveir af hverjum þrem kjósendum í ESB-löndum telja að landi sínu sé betur borgið innan ESB en utan þess (Mynd 2). Meiri hlutinn sem telur löndum sínum betur borgið innan vébanda ESB en utan ESB nær frá 55% í Póllandi upp í 88% í Danmörku. Þeim sem hafa ekki myndað sér skoðun á málinu er á myndinni skipt í réttum hlutföllum milli þeirra sem telja landi sínu betur borgið innan ESB og hinna sem telja svo ekki vera.
Líklegt virðist að stríðið í Úkraínu eigi sinn þátt í svo ríkum samhug innan ESB nú, en fyrri kannanir hafa þó jafnan sýnt myndarlegan meiri hluta kjósenda í flestum aðildarlöndum hlynntan aðild. Ætla má að hrakfarir Bretlands eftir útgönguna úr sambandinu 2016 hafi einnig haft sitt að segja og einnig árangursríkt samstarf innan álfunnar um bólusetningar í heimsfaraldrinum 2020-2023.
Rök kjósenda um alla álfuna fyrir afstöðunni til ESB eru margvísleg. Sumir kjósa fyrst og fremst félagsskapinn við vinaþjóðir, samlífi frekar en einlífi, þar með talinn samtakamáttinn, bæði friðsamlega sambúð fornra fjenda í Vestur-Evrópu og opinn faðm Vestur-Evrópuþjóða gagnvart Austur-Evrópuþjóðum sem bjuggu við kúgun af hálfu Rússa frá stríðslokum 1945 fram að 1990. ESB er jöfnum höndum friðarbandalag og efnahagsbandalag.
Hugsunin er þá þessi: Þar sem næstum allir nánustu vinir okkar og bandamenn eru saman komnir, þar viljum við einnig vera. Aðrir skoða einstök mál eins og mannréttindi, sem ESB hefur í hávegum, sameiginlega stjórn einstakra málaflokka svo sem peningamála og samkeppnismála og treysta því að hægt sé að semja um viðkvæm sérmál. Og svo eru þeir, einkum þjóðarbrot og aðrir minnihlutahópar innan einstakra landa, sem í ljósi reynslunnar treysta ESB betur til að tryggja hagsmuni sína en ríkisstjórnum landa sinna. Þessa upptalningu mætti lengja til muna. Sínum augum lítur hver á silfrið.
Höfundur er doktor í hagfræði.
Athugasemdir