Lögreglu bárust 123 tilkynningar um kynferðisbrot fyrstu þrjá mánuði yfirstandandi árs. Þar af var tilkynnt um 42 nauðganir. Það jafngildir því að tilkynnt hafi verið um 24 prósent færri kynferðisbrot en skráð voru að meðaltali síðustu þrjú ár á undan, og 9 prósent færri nauðganir. Í fyrra voru tilkynnt 177 kynferðisbrot, þar af 60 nauðganir, á fyrstu þremur mánuðum ársins.
Þetta kemur fram í skýrslu Ríkislögreglustjóra um kynferðisofbeldi á fyrstu þremur mánuðum ársins. Hluti brotanna sem um ræðir voru tilkynnt á tímabilinu en höfðu átt sér stað fyrr. Alls var tilkynnt um 75 kynferðisbrot sem áttu sér stað á tímabilinu, þar af 21 nauðgun.
Í 42 prósentum tilvika voru þolendur undir átján ára aldri þegar horft er til allra kynferðisbrota. Meðalaldur grunaðra var hins vegar 35 ár og þar af voru 13 prósent undir átján ára aldri Þá var tilkynnt um 27 kynferðisbrot gegn börnum og 9 blygðunarsemisbrot. Tilkynntum kynferðisbrotum gegn börnum fækkaði um 22 prósent frá fyrra ári en blygðunarsemisbrot voru því sem næst jafn mörg og árið 2022.
Tilkynnt var um 45 önnur kynferðisbrot á tímabilinu, og eru það einkum kynferðisleg áreitni eða stafræn kynferðisbrot. Á síðasta ári var tilkynnt um 66 brot sem flokkuð eru sem önnur kynferðisbrot.
Þegar horft er til mánaðanna þriggja sést að flest kynferðisbrot voru tilkynnt lögreglu í febrúar mánuði, 54 talsins. Af þeim voru 33 brot tilkynnt sem gerðust í þeim mánuði. Flestar nauðganir voru einnig tilkynntar í febrúar, 23, og þar af gerðust 10 í febrúar í ár.
Fjöldi brotaþola í öllum málum voru 92 og þar af 83 konur, sem jafngildir 90 prósentum. Fjöldi grunaðra voru 94, þar af voru 88 karlar, eða 94 prósent. Fjöldi grunaðra í nauðgunarmálum voru 41, þar af tvær konur.
Athugasemdir