Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Landsbankinn hagnaðist um 7,8 milljarða króna á þremur mánuðum

Hagn­að­ur Lands­bank­ans var 144 pró­sent meiri á fyrsta árs­fjórð­ungi í ár en hann var á sama tíma í fyrra. Vaxta­tekj­ur hans juk­ust mik­ið vegna hækk­andi vaxtaum­hverf­is og auk­inna um­svifa. Kostn­að­ar­hlut­fall hríð­lækk­aði.

Landsbankinn hagnaðist um 7,8 milljarða króna á þremur mánuðum
Nýjar höfuðstöðvar Landsbankinn er nú að flytja inn í framtíðarhúsnæði sitt. Bankinn hefur enn ekki opinberað hver endanlegur kostnaður við þær sé, en Viðskiptablaðið segir að hann sé á bilinu 17 til 18 milljarðar króna. Mynd: Heiða Helgadóttir

Hagnaður Landsbankans, sem er að mestu í eigu íslenska ríkisins, á fyrsta ársfjórðungi var 7,8 milljarðar króna. Til samanburðar hagnaðist bankinn um 3,2 milljarða króna á sama tímabili 2022. Því jókst hagnaður Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi um 144 prósent milli ára.

Þetta kemur fram í árshlutareikningi Landsbankans sem birtur var í dag.

Stóra breytan þar er áfram sem áður gagnvirði óskráðra eignarhluta bankans, aðallega í Eyri Invest hf., en hagnaður af því gangvirði var tæplega 3,3 milljarðar króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Landsbankinn á 14,1 prósent í Eyri Invest, sem er langstærsti eigandi Marel. Markaðsvirði Marel jókst um 16 prósent frá áramótum og út marsmánuð.

Sú hækkun þurrkaðist hins vegar út í dag þegar bréf í félaginu féllu um rúmlega 17 prósent eftir að Marel birti uppgjör í gær sem olli vonbrigðum, aðallega vegna þess að pantanir hjá félaginu höfðu dregist umtalsvert saman milli ára. 

Vaxtatekjur í miklum vexti

Hreinar vaxtatekjur Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2023 voru 13,1 milljarðar króna og var langstærsti hluti veltu bankans, sem alls nam 17,3 milljörðum króna. Vaxtatekjurnar voru 27,3 prósent hærri en á sama tímabili í fyrra. Í uppgjörskynningu segir að þetta sé vegna hækkandi vaxtaumhverfis og stækkun á efnahagsreikningi Landsbankans, en útlán bankans hafa aukist um 160 milljarða króna á síðustu 12 mánuðum. 

Vaxta­tekjurnar byggja á mun­inum á þeim vöxtum sem bank­arnir borga fyrir að fá pen­inga að láni og þeim vöxtum sem þeir rukka fyrir að lána ein­stak­lingum og fyr­ir­tækjum fjár­muni. Sá munur kallast vaxtamunur. Hann var 2,8 prósent hjá Landsbankanum á fyrsta ársfjórðungi. Vaxtamunur íslenskra banka er talsvert meiri en þekkist á meðal annarra norrænna banka, en hann hefur verið lægstur hjá Landsbankanum hérlendis.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands segir að útlánavöxtur sé enn nokkuð kröftugur og skipti þar mestu að útflutningsgreinarnar standa vel en einnig skapar ör fólksfjölgun eftirspurn eftir húsnæði. „Bankinn fjármagnar nú um 4.500 íbúðir á mismunandi byggingarstigum en fasteignalán hafa ekki aukist að sama skapi þar sem kaupendur sækja frekar í verðtryggð lán utan bankakerfisins. Við munum sem fyrr kappkosta að bjóða samkeppnishæf kjör, bæði á útlánum og innlánum.“

Hinn stóri tekjupósturinn í grunnrekstri banka eru þóknanatekjur, stundum kallaðar þjónustutekjur. Þar er um að ræða þókn­­anir fyrir til dæmis eigna­­stýr­ingu og fyr­ir­tækja­ráð­­gjöf en líka þau gjöld sem einstaklingar og heimili greiða fyrir ýmis konar þjónustu sem bankarnir veita þeim. 

Hreinar þóknanatekjur Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins voru rúmlega þrír milljarðar króna og jukust um 15,5 prósent milli ára. 

Landsbankinn hagnaðist um 17 milljarða króna í fyrra, sem var tólf milljörðum krónum minna en hann hagnaðist um árið 2021. Arðsemi eigin fjár Landsbankans á síðasta ári var 6,3 prósent en markmið hans er að vera með þá arðsemi yfir tíu prósent. Það náðist á fyrstu mánuðum þessa árs þar sem arðsemi eigin fjár var 11,1 prósent. 

Kostnaðarhlutfallið hríðlækkar

Kostn­að­ar­hlut­fall Lands­bank­ans, sem mælir hvað kostn­aður er stór hluti af tekj­u­m, hefur hríðlækkað frá því sem það var í fyrra. á fyrsta ársfjórðungi var það 33,3 prósent en hafði verið 46,8 prósent á síðasta ári. 

Landsbankinn hóf flutninga í nýjar höfuðstöðvar sínar við Reykjarstræti 6 í mars. Í tilkynningunni til Kauphallarinnar er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, að þegar flutningunum lýkur síðar í maímánuði muni um 80 prósent af starfsfólki bankans vera undir sama þaki í stað þess að dreifast á 14 hús í Kvosinni og Borgartúni. 

Engar upplýsingar eru í uppgjörinu um hver endanlegur kostnaður við byggingu nýju höfuðstöðvanna sé. Stjórnendur bankans vildu heldur ekki gefa upp þann kostnað þegar Heimildin leitaði eftir upplýsingum um það í síðasta mánuði og sögðu það „ótímabært“. Síðast þegar áætlaður kostnaður var birtur, árið 2019, var gert ráð fyrir að hann yrði 11,9 milljarðar króna. Í Viðskiptablaðinu í dag er sagt að kunnáttumenn áætli að endanlegi kostnaðurinn verði á bilinu 17 til 18 milljarðar króna.

Í uppgjörskynningu Landsbankans er sérstök áhersla lögð á að bankinn hafi náð sér í hagstæða fjármögnun á ársfjórðungnum þrátt fyrir erfiðar aðstæður á mörkuðum. Hann var til að mynda fyrstur íslenskra banka til að gefa út evrópsk sértryggð skuldabréf í úrvalsflokki í erlendri mynd í mars. Sú útgáfa var upp á alls 300 milljónir evra, um 44,7 milljarða króna. Bréfin voru til fimm ára og bera 4,25 prósent vexti. 

Þann 17. mars lauk bankinn við skuldabréfaútboð á nýjum víkjandi skuldabréfaflokki eiginfjárþáttar 2 upp á tólf milljarða króna. Skuldabréfin eru verðtryggð og til tíu ára með 4,95 prósent föstum verðtryggðum vöxtum. 

Eignir Lands­bank­ans voru 1.917 millj­arðar króna í lok mars og efna­hags­reikn­ing­ur­inn stækk­aði um 7,3 prósent milli ára. Eigið fé bank­ans var 278,3 millj­arðar króna á sama tíma og eig­in­fjár­hlut­fallið 25,3 pró­sent.

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Stefán Ólafsson skrifaði
    Vaxtatekjur Landsbankans aukast mikið vegna stýrivaxtahækkana Seðlabankans. Það mun svo verða notað til að réttlæta bónusgreiðslur til stjórnenda Landsbankans - þó þeir hafi ekkert lagt til!
    3
  • skrifaði
    Af hverju er ekki hægt að skattleggja vaxtatekjur bankanna sérstaklega og koma þessum fjármunum aftur til okkar almennings (þar sem þeir eiga heima) með því að stórbæta vaxta- og húsnæðisbótakerfið?
    3
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég var bara glæpamaður“
1
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Þakklátur fyrir að vera á lífi
2
Viðtal

Þakk­lát­ur fyr­ir að vera á lífi

Þor­lák­ur Mort­hens, Tolli, hef­ur marga fjör­una sop­ið í lífs­ins ólgu­sjó. Æsku­ár­in höfðu sín áhrif en þá byrj­aði hann að teikna og var ljóst að dreng­ur­inn væri gædd­ur hæfi­leik­um. Óregla og veik­indi lit­uðu fjöl­skyldu­líf­ið og á unglings­ár­un­um sá hann um sig sjálf­ur. Um ára­bil var hann sjómað­ur, verka­mað­ur og skóg­ar­höggs­mað­ur. Eft­ir mynd­list­ar­nám hef­ur hann lif­að af mynd­list­inni. Nú er Tolli far­inn að mála í ljós­ari tón­um. Hann gaf nýra, greind­ist síð­an með krabba­mein og sigr­aði.

Mest lesið í mánuðinum

„Ég var bara glæpamaður“
3
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Íslendingar vísa trans konu á flótta frá Bandaríkjunum úr landi
6
Fréttir

Ís­lend­ing­ar vísa trans konu á flótta frá Banda­ríkj­un­um úr landi

Kona sem er á flótta frá Banda­ríkj­un­um með son sinn sótti um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi. Fyr­ir Út­lend­inga­stofn­un lýsti hún því hvernig hat­ur hafi far­ið vax­andi þar í landi gagn­vart kon­um eins og henni – trans kon­um – sam­hliða að­gerð­um stjórn­valda gegn trans fólki. Sjálf hafi hún orð­ið fyr­ir að­kasti og ógn­un­um. „Með hverj­um deg­in­um varð þetta verra og óhugn­an­lega.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár